Langvarandi kúgun spilltra valdhafa.

Í Eþíópíu búa um 100 milljónir manna, nær 300 sinnum fleiri en á Íslandi. Samt eru hagkerfi landanna álíka stór. Sem þýðir að árstekjur meðalmannsins í Eþíópíu gætu verið álíka miklar og dagstekjur Íslendings. 

Landsmenn þekkja fjórar tegundir af ofríki spilltra valdhafa og ekkert annað. Haile Selassie keisari hlaut samúð þegar Mussolini lagði landið undir sig með hervaldi á fjórða áratugnum og réði þar ríkjum til stríðsloka. 

En í raun var keisarinn spilltur, og þegar hann tók aftur við eftir stríðið breyttist ekkert. 

Bylting var gerð í landinu en stjórn kommúnista varð engu skárri, Mengistu kom í staðinn fyrir keisarann. 

Honum var steypt, en valdhafarnir, sem tóku við í landinu hafa engu breytt í raun.

Þeir gæta þess vel að halla sér að Bandaríkjamönnum og fengu meira að segja bandaríska flugherinn til þess að gera árás á hryðjuverkamenn í nágrannaríkinu Sómalíu til þess að kenna þeim að vera ekki að seilast yfir landamæri ríkjanna. 

Eþíópíumenn urðu kristnir 700 árum á undan Íslendingum og hin kristna koptamenning stendur svo föstum rótum, að engir einræðisherrar hafa vogað sér að blaka við henni hendi. 

Samband drottningarinnar af Saba og Salómons konungs er ginnheilög goðsögn. 

Eþíópía Airlines er stolt landsins og rekið í náinni samvinnu við Bandaríkjamenn. Flott Kóka-kólaverksmiðja sér um, að þann drykk megi jafnvel sjá á afskekktustu slóðum, þótt allur almúgi hafi ekki efni á að kaupa hann og deyi jafnvel úr þorsta í þurrkaplágum með "the real thing" í seilingarfjarlægð . 

Já, mótsagnirnar eru óskaplegar. Við borgina Arba Minch var reistur flottur flugvöllur og stærðar flugstöð, að stórum hluta úr marmara, en hvorugt er notað nema í mýflugumynd, því að innanlandsflug er aðeins leyft fyrir örfáar flugvélar. 

Í landinu kristallast verstu hliðar auðræðisins í alþjóðvæðingunni, eins og tengd frétt á mbl.is ber glöggt vitni um. 

Kúgaðir öreigar leggja grunninn að kaupum okkar á fatnaði, sem er svo sannarlega illa fenginn.  


mbl.is Sauma fyrir H&M með 128 kr. á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasta æðið komið af stað.

Nýjasta æðið, vindorkugarðarnir, er komið af stað. Í Morgunblaðinu er birt mynd af því hvernig fyrirhugaður vindorkugarður við Hróðnýjarstaði í Dölum muni líta út. 

Á myndinni sést bara að því er virðist flatt landssvæði, og þarf að rýna í hana með stækkunargleðir til að sjá stuttar, örsmáar hvítar línur, sem tákna vindmyllurnar, svona rétt eins og þetta séu eldspýtur. 

Á fundi vestur í Dölum var því lýst hvað þessar vindmyllur sýndust örsmáar séðar beint ofan frá. 

Svona rétt eins og að allir sæju þær frá því sjónarhorni. 

Er þó hver hinna 40 vindmyllna 150 metra há frá jörðu með spaðann í efstu stöðu, tvöföld hæð Hallgrímskirkju, en turninn sjálfur er 90 metra hár, 15 metrum hærri en Hallgrímskirkjuturn. 

Rask og sjónmengun því svo lítilfjörlegt mál, að varla tæki því að nefna það, "örlítið rask" er orðið tískuorð um virkjanir hér á landi.

Eina raunhæfa myndin, sem hægt er að finna af þessum garði, er hægt að finna með því að fara inn á vefsíðuna hagsmunir.is þar sem er tengill inn á vindorkugarð af svipaðri stærð á Filippseyjum. 

Einnig kom fram að ef garðurinn yrði 99 megavött þyrfti hann ekki að fara inn í rammaáætlun. 

En 99 megavött eru meira en 60 prósent af afli Blönduvirkjunar og álíka mikið og allar Sogsvirkjanirnar til samans, en með því að fara fram hjá rammaáætlun um virkjanir geta risið vindorkugarðar skipulagslaust og samhengislaust um allt land. 

Og í því ljósi er skiljanlegt að fjársterkir menn kaupi jarðir og drífi í því að reisa vindorkugarða.   

Snæfellsbær hefur að vísu hafnað hugmynd um vindorkugarð á sunnanverðu nesinu, mun minni en þann sem á að rísa rétt við æskuslóðir Jóhannesar úr Kötlum og Jóns frá Ljárskógum. 

Í Miklholtshreppi átti garðurinn að vera alveg upp við hlíðarætur og láta lítið yfir sér, en því var hafnað þar vestra á þeim forsendum, að sjón- og heyrnarmengun af garðinum verði óviðunandi. 

Á fundinum í Dölum kom hinsv vegar fram, að hávaði af vindorkugarðinum yrði álíka og frá ísskáp. 

Ég hef einu sinni ekið framhjá miklu minni vindorkugarði á Jótlandi og voru vindmyllurnar þar vafalaust ígildi hávaðasömustu ísskápa á jarðríki. 

Vindorkuvinnslan kemur, á því er lítill vafi.  En Færeyingar setja sitt vindorkuver inn í fjarðarbotn til þess að minnka umhverfisáhrifin sem allra mest. 

Hér á landi virðist eiga að setja orkugarðana upp þar sem þeir sjást sem víðast að. 

Þótt við segjumst vera uppi á upplýsingaöld virðist greinilega ekki eiga að birta neitt annað en það sem geti gefið grænt ljós á vindorkugarða hvar sem er og helst strax í gær. 

Þýskir ferðamenn, sem voru á ferð vestur í Dölum og fréttu af vindorkugarðinum, sem ætti að koma á næsta bæ við þann, sem þeir gistu á, sögðust samt ekki vera komnir til Íslands til að kynnast vindmyllum. Þær gætu þeir skoðað í sínu heimalandi. 


mbl.is Vegferð til virkjunar vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið er alveg nógu gott mestallan veturinn.

Satt er það, að Ísland er að jafnaði einhver vindasamasti staður jarðar frá desember til marsloka.Hjól Skóla-vörðustíg

En á milli lægða koma oft ágætir dagar með mildu veðri, eins og var í gær.

Í kvöld verða komnir meira en tveir sólarhringar með allt að átta stiga hita. 

Þá er hrein hressing og unun fólgin í því að teyga hreint loft og fara ferða sinna á hjóli. 

Og eftir þriggja ára reynslu af notkun tveggja ódýrra hjóla, rafreiðhjóls og léttrar Honda PCX "vespu" sem aðalfarartækja, hefur komið í ljós að það er hægt að láta þessa farkosti koma að notum í stað bíla allar vikur ársins ef rétt er að málum staðið, hafa góð vetrardekk og réttan klæðnað og öryggisatriði (lokaður hjálmur, vélhjólaklossar og varnarhanskar). 

Fyrir mann, sem á heima utarlega í úthverfi leysir hraðskreiðara hjólið samgönguvandann betur en bíll hvað snertir það að vera fljótur í förum, vandræðalaust. Tazzari. stæði

Auk þess sem tilvist hjólsins í umferðinni þýðir í raun, að rými sparast fyrir einn bíl í stað þess einkabíls, sem hjólamaðurinn hefði annars ekið.  

Ef vindhviður fara ekki yfir 20 m/sek (hægt að tékka á því á vedur.is)  er vindurinn ekki aðal vandamálið á vespu-hjólinu, heldur mikill tjörupækilsaustur á dögum með slíkum skilyrðum. 

Á rafreiðhjólinu kemur sér vel að þessi tjörpækilsaustur er ekki fyrir hendi á hjólastígum. 

Og sé tíminn naumur og veglengdirnar langar á slíkum dögum hefur minnsti og ódýrasti rafbíll landsins komið sér vel síðustu mánuði, auk þess sem svona stuttur bíll sparar rými í umferðinni og auðveldar það að finna stæði, sem aðrir bílar geta ekki notað.  


Dýrmætar minningar um fjölskyldu Margrétar.

Mynd og viðtal við Margréti Tómasdóttur í Morgunblaðinu vekur góðar minningar hjá mér.

Haustið 1960 var úr vöndu að ráða hjá mér varðandi undirleik fyrir mig í skemmtibransanum. 

Fyrsti undirleikarinn, Pálmar Ólason, lék aðeins tvisvar undir hjá mér þegar ég var í 4. bekk í M.R. í en fór síðan til Ítalíu til náms. 

Frá mars 1958 til maí 1959 var Markús Einarsson undirleikari, en fór síðan til náms í Noregi. 

Sumrin 1959 og 1960 var Hafliði Jónsson við píanóið en Einar Logi Einarsson veturinn 1959-1960. 

Pálmar Ólason, eða Púlli eins og hann var alltaf nefndur, sem kom heim í skólafríi sumarið 1960 og fór með mér aldeilis óborganlega ferð til undirleiks í Hallormssataðaskógi áður en hann fór aftur til Ítalíu, benti mér á bróður sinn, Tómas Grétar Ólason, og er skemmst frá því að segja að Tómas Grétar, sem notaði á þessum árum mest síðara nafnið, reyndist mér svo vel næstu fimm árin, að það verður mér ógleymanlegt. 

Grétar var þvílíkur víkingur til vinnu og svaðilfara um landið, að með eindæmum var. Hann var tæpir 2 metrar á hæð og 120 kíló og það sópaði að honum, hvar sem hann fór. 

Við ferðuðumst mikið á minnsta bíl landsins, og Grétar nánast bar hann stundum í gegnum skafla og ófærur í erfiðum og ógleymanlegum vetrarferðum. 

"Margrét ryður brautina" er viðeigandi fyrirsögn í viðtalinu við hana í dag. Í mörgum ferðum, þeirra á meðal frægri ferð á örbílnum norður á Sæluvikuna 1961, ruddi faðir hennar brautina fyrir bílinn yfir Holtavörðuheiði í bókstaflegri merkingu. 

Á "jólavertíðinni" var gat vart að líta myndarlegri og aðsópsmeiri jólasvein en Giljagaur með harmonikkuna sína. 

Eftir að Haukur Heiðar Ingólfsson tók við keflinu hélst vinátta okkar Grétars og samband áfram í gegnum sameign á flugvélinni TF-FRÚ og Lionsklúbbinn Ægi og starfið að Sólheimum í Grímsnesi alla ævidaga Grétars. 

Ég hef aldrei kynnst manni sem var jafn mikið tryggðatröll í öllum skilningi og kynnin við Grétar, Gullu og fjölskyldu þeirra voru alla tíð gefandi og náin. 

Engum þarf að koma á óvart dugnaður og ósérhlífni dætranna, að ekki sé nú talað um einlæga og smitandi gleði, sem einkennir fjölskyldu og ættfólk.  


mbl.is Margrét ryður brautina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband