Stefnir í átök milli stjórnarflokkanna um vindorkugarðana?

Þrátt fyrir vinnslumet á raforku á síðasta ári, virðist þrýstingur á virkjanir fara vaxandi.

Nú hrúgast inn fyrirætlanir um vatnsaflsvirkjanir upp á 9,9 megavött hver af því að þá sleppa þær við að fara inn í rammaáætlun. 

Safnast þegar saman kemur, því að 20 slíkar virkjanir myndu veita afl á við stórvirkjunina Búrfellsvirkjun, eins og hún var í upphafi. 

En ásóknin í margföldun kemur fram víða.  

Þegar fréttist um allt að 130 megavatta vindorkugarð skammt norðaustan við Búðardal á dögunum benti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á það, að allt almennt regluverk og undirbúning á því sviði skorti hér á landi, þar á meðal um rammaáætlun um þær eins og vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. 

Í fréttaumfjöllun á RUV kemur fram, að innan orkugeirans og hjá hinum stjórnarflokkunum séu skoðanir öndverðar í þessu efni, - andstaða gegn vegna þess, að ef fara ætti þá leið, myndi það þýða sex til átta ára töf á því að þessar virkjanir gætu komist hér á koppinn, og það væri alveg ótækt. 

Það má sem sagt engan tíma missa til þess að hægt sé að ná því markmiði, sem forstjóri Landsvirkjunar lýsti fyrir fjórum árum, að tvöfalda orkuframleiðsluna á áratug, svo að við framleiðum tíu sinnum meiri orku en við þurfum sjálf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili. 

Þetta rímar alveg við frétt fyrir helgina þar sem talsmaður fiskeldisstöðva kveinaði mikið yfir því að töf á nýju regluverki fyrir fiskeldið myndi tefja illilega að setja niður stöðvar í allmörgum fjörðum. 

Það mun trufla fyrirætlanir um að tífalda sjókvíaeldið hér á landi á fáum árum, en þeir sem hafa viljað fara ögn hægar og af varúð í þessu efni og í því sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði nýlega "virkjanaæði" voru nýlega sakaðir um það í blaðagrein að "hafa um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn framförum og mannlífi." 

 

 


mbl.is Met sett í framleiðslu á raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni fyrir snjalla teiknara?

Það yrði dálítið sérstakt ef hér yrði það tekið til bragðs að láta snjalla "karekatúr"teiknara teikna myndir af réttarhöldum og þeim, sem þar koma fram. 

Ýmsir góðir hafa verið á stjái í gegnum tíðina, og minnist ég til dæmis gamals sessunauts míns úr M.R., Gunnars Eyþórssonar. 

Hann gerðist forfallinn andlitsteiknari í 3ja bekk, og allan veturinn, sem við sátum saman, teiknaði hann hvern einasta kennara margsinnis í hverjum tíma. 

Hann hélt þessu áfram af einstakri fullkomnunaráráttu, og það var undravert að fylgjast með framförunum.  

Hann teiknaði myndir í ýmsum stærðum, og vegna þess að þetta þurfti að fara leynt, varð hann afar slyngur í að teikna mjög litlar myndir. 

Í sjötta bekk teiknuð tveir nemendur, Gunnar og Kristján Thorlacius, allar myndirnar af kennurum og nemendum.

Þegar þeir höfðu skipt með sér verkum var Gunnar beðinn um að fara næmum höndum um einn kennarann, sem kom í hans hlut, og stilla sig um að myndin af þessum kennara yrði skopmynd, því að þessi kennari var afar viðkvæmur, og átti það til að tárast ef gamanið varð grátt. 

Gunnar samþykkti þetta og sagðist myndu teikna svo nákvæma mynd af hinum grátgjarna kennara, að varla yrði hægt að sjá hvort þetta yrði teiknuð mynd eða ljósmynd. 

Síðan birtist myndin í Faunu, og í ljós kom, að Gunnar hafði haldið loforð sitt 100 prósent. 

Þetta var líkast ljósmynd, en samt eins og ljósmynd, tekin á afar viðkvæmu augnabliki, þvi úr svipnum og votum augunum skein að kennarinn var í þann veginn að bresta í grát. 

Og þegar hann sá myndina fór hann að gráta! 

En myndin er einhver fyndnasta teiknaða andlitsmynd sem ég hef séð. 

 


mbl.is „Ég tel þetta óheillaspor“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband