"... óbyggð víðerni...njóti verndar."

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Íslands 20. október 2012 voru nær tvöfalt fleiri fylgjandi því að láta stjórnarskrá stjórnlagaráðs liggja til grundvallar heldur en þeir, sem voru því andvígir. 

Úrslitin voru afgerandi að þessu leyti. 

Í 33. grein segir svo: 

"...Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. 

Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. 

Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum." 

Skýrara getur þetta ekki verið og þess vegna er það grátlegt, að meira en fimm árum eftir að úrslit þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu lágu fyrir, skuli enn ekki hafa komist eitt einasta atriði úr henni til framkvæmdar, heldur neyðist þeir, sem vilja að draumur Jóns Sigurðssonar um íslenska stjórnarskrá, gerða af Íslendingum, rætist,  til þess að benda árangurslaust á sífellt fleiri atriði úr frumvarpi stjórnlagaráðs, sem fyrir löngu ættu að vera í stjórnarskrá okkar.  


mbl.is Víðerni fái vernd í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahliðar netsins. Netheimar og mannheimar.

Við lifum á tímum tveggja heima, netheima og mannheima, eftir að netið kom til sögunnar með facebook, twitter og öllu heila gallaríinu. 

Áhrifin af þessu eru svo víðtæk og mikil að þau eru aðeins að byrja að koma í ljós.

Jákvæðu hliðarnar þarf vart að kynna, svo mjög sem þetta hefur litað þjóðlíf og aðstæður.  

En fréttin af íslenskum unglingum, sem koma óorði erlendis á land okkar og þjóð, er dæmi um skuggahliðarnar á þessum nýja veruleika rússneska máltækisins að "þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp." 


mbl.is Koma ekki til Íslands vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekar "já, ef..." heldur en "nei, aldrei".

Ævinlega þegar mönnum er fært vald í hendur, sem er í raun einveldi þótt á þröngu sviði sé, svipað og er til dæmis raunin varðandi suma opinbera starfsmenn, verður það ævinlega freisting til þess að bægja frá sér "veseni" að segja bara einfaldlega nei. 

Pistillinn á undan þessum fjallar um einokun og einokun er skyld því þegar menn hafa valdsvið og þurfa ekki að spyrja neina ráða þegar þeir afgreiða sem flest með neitun. 

Fréttamenn og ljósmyndarar verða oft fyrir barðinu á þessu þegar atburðir gerast, þar sem þegar einskonar geðþótti ræður því að gefin eru út boð og bönn án nokkurra undantekninga. 

Eitt sinn lokaði lögreglan á Akureyri veginum uðð í Sölvadal frammi í Eyjafirði þar sem hafði fallið aurskriða. 

Þegar ég kom á í mynni dalsins var búið að loka veginum með keðju og enginn lögreglumaður var á staðnum. Spjald var á keðjunni með áletruninni: "Akstur bannaður."

Þegar hringt var á lögregluna út á Akureyri, var sagt þvert nei við því að leyfa akstur fram eftir til þess að taka myndir af skriðunni og því alveg hafnað að lögreglan myndi skjótast til að opna fyrir okkur. 

Aðstæður voru þannig, að engin leið var að aka fram hjá þessu hliði. 

Ég brá því á það ráð, að hlaupa frá keðjunni fram eftir dalnum en skildi kvikmyndatökumanninn,  Sigurð Hlöðversson eftir. 

Þegar ég var kominn langleiðina að skriðunni, hringdi ég úr stóra farsímanum sem ég var með í ól um öxlina og sagði við lögregluvarðstjórann: 

"Nú er ég að nálgast skriðuna hlaupandi eftir veginum, og sé að það er nákvæmlega engin hætta á að önnur skriða falli í því þurra veðri sem nú er. En ef ég fer svona fram hjá henni myndi ég eiga miklu erfiðara með að forða mér undan skriðu heldur en ef ég væri á bíl. Ef skriða félli væri hægt að gera ykkur ábyrga fyrir því ef það hefði ráðið úrslitum að vera ekki á bíl. Ég er með litla myndavél og mun taka hér myndir gera frétt um þetta mál allt, þar á meðal hlut ykkar í því hvernig mál hafa skipast hér."

"Þú ert að brjóta gegn banni með því að fara þetta í leyfisleysi", sagði lögreglumaðurinn. 

"Nei," svaraði ég, það stendur bara: "Akstur bannaður." Það stendur hvergi að bannað sé að ganga í dalnum." 

Nú kom þögn, en síðan sagði maðurinn: "Bíddu aðeins".

Ég heyrði að maðurinn fór úr símanum til að tala lágt við einhvern annan mann. 

Síðan kom hann í símann og sagði: "Ég kem." 

Hann kom skömmu síðar, opnaði fyrir Sigurði Hlöðverssyni og hleypti honum á bílnum til að sækja mig og aka til baka. 

Dæmin eru mýmörg um það á mörgum sviðum, að í stað þess að fara einföldustu leiðina og segja þvert nei er oft farsælla að segja: "Já, ef..." og nefna síðan skynsamleg skilyrði fyrir leyfinu. 


mbl.is Vegalokanir komnar úr böndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband