"Aldrei haft það betra" - með 204 þús á mánuði?

"Þið hafi aldrei það betra" var slagorð breska íhaldsflokksins á uppgangstíma í Evrópu í kringum 1960. Samt var leitun að jafn fornlegri stéttaskiptingu og kjaramun norðan Alpafjalla en í Bretlandi. 

Nú stefnir í það að viðleitni til að koma á norrænu velferðarmódeli í kjaramálum hér á landi, fyrirkomulagi sem hefur skapað stöðugleika jafnframt kjarabótum, verði algerlega klúðrað af íslenskum stjórnmálamönnum. 

Björgvin Guðmundsson hefur ritað blaðagreinar sem sýna hvernig valdamenn hafa marg svikið ástemmd loforð sín um að rétta hlut þeirra sem verst eru staddir. 

Hann rekur nýjasta dæmið, þar sem laun lægst settu lífeyrisþeganna eru 204 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Og tökum eftir orðunum "eftir skatt". 

Stjórnmálamennirnir víla ekki fyrir sér að taka skatt af þeirri hungurlús, sem þessu fólki er ætlað að lifa á. 

Jafnframt þessu hafa valdhafar búið til kerfi Kjaradóms, sem hyglar hinum hæst launuðu ítrekað á sama tíma sem stórir þjóðfélagshópar eru látnir skrapa botninn. 

Þegar stjórnmálastéttin er beðin um að fella sitt eigið launakerfi í svipað horf og er í norrænu fyrirmyndinni þykist hún ekki geta það, - það væri lagabrot. 

En hvaða lög eru það, sem ekki má brjóta? Jú, lögin, sem hún setti sjálf og hikaði ekki við það þá að breyta fyrri lögum. En lætur síðan nú eins og að þetta séu einhver guðs lög eða náttúrulögmál, sem ekki megi hrófla við. 

Með sjálftöku til hærri launa og tekna en felst í norræna módelinu er verið að ögra láglaunafólki, sem rétt er upp í hendurnar tilefni til að segja: Nú er nóg komið! Við látum ekki bjóða okkur þetta lengur!

Þetta er dapurlegt dæmi um getuleysi og sjálfhygli trausti rúinna stjórnmálamanna. 

Því að hugsunin á bak við Salek-samkomulagið hefði getað gert mikið gagn hér á landi. 

Nú virðast þeir valdamenn, sem studdu þetta samkomulag í orði, hafa fallið á því einfalda prófi að láta gjörðir fylgja orðum. 

Því miður.  

 

 

 


mbl.is Laun stjórnmálamanna ótrúlega há
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun hjá Valgerði.

Það er óvenjulegt ef nýliði í atvinnumennsku vinnur heimsmeistaratign í hnefaleikum eftir aðeins þrjá bardaga sem atvinnumaður. 

Einna þekktasta atvikið hvað þetta varðar er þegar Leon Spinks vann Muhammmad Ali á stigum 1977 með aðeins sjö atvinnubardaga í farteskinu. 

Ali vanmat andstæðing sinn stórlega og tapaði, en vann Spinks síðan árið eftir með einhverri flottustu frammistöðu sinni á ferlinum. 

Átta daga fyrirvari er óheyrilega stuttur og fyrir fyrri bardagann við Ali hafði Spinks nægan tíma til að kynna sér veikleika og styrkleika Alis. 

Bardagi Valgerðar Guðsteinsdóttur færði henni bæði óvænt tækifæri til að komast á kortið og ekki síður var það flott hve vel hún stóð sig. 

Það þarf ekki alltaf sigur til þess. 

Ken Norton var lítt þekktur þegar hann barðist fyrst við Ali en stimplaði sig rækilega inn í þremur bardögum við hann þar sem vart mátti á milli sjá, hvor var betri. 

Til hamingju, Valgerður, og til hamingju, íslenskar bardagaíþróttir. 


mbl.is Valgerður beið ósigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýni úr íbúð = 400 milljónir. Útsýni í íslenskri náttúru = 0.

Sérkennilegt lögmál er í gildi á Íslandi um mat á útsýni.Hjalladalur.Stapar

Ef útsýni er úr íbúð á efstu hæð í Reykjavík er það metið á 400 milljónir króna og enda þótt kostnaðurinn við byggingu hennar seé dregið frá þessu verði er útsýnið stór hluti af verði svona íbúða, til dæmis við Sæbraut.  

Ef hins vegar er um að ræða útsýni á svæðum dýrmætustu náttúruverðmæta Íslands var því slegið föstu við gerð Kárahnjúkavirkjunar að virði þeirra fjölda fossa og ekki síst heils 25 kílómetra langs og 180 metra djúps dals, væri núll krónu virði. Blokk við Höfða

Engu skipti þótt bent væri á að erlendis væri til viðurkennd aðferð til að meta slík náttúruverðmæti, sem nefnt væri "skilyrt verðmætamat." 

Á sínum tíma fór ég til Sauðafjarðar (Sauda) í Noregi til að taka myndir af svæði þar sem slíku mati hafði verið beitt og ræddi við Staale Navrud prófessor við Umhverfis-og líffræðiháskólann í Ási, sem rakti fleiri dæmi um slíkt í ýmsum löndum. 

Öllu slíku var hafnað og er enn hafnað hér á landi. 

Ein röksemdin er að útsýni sé einskis virði nema að það sé frá húsi sem maður býr í eða mannvirki, sem maður stendur á. Kelduá, Snæfell 2007

Þetta er yndisleg kenning. Margir hafa upplifað þvílíka gagntakandi tilfinningu við að standa utan dyra í ósnortinni náttúru og njóta óviðjafnalegs útsýnis að þeir munu aldrei upplifa slíkt úr íbúð í borg. 

En, sem sagt, á Íslandi, landinu sem meira en 80 prósent erlendra ferðamanna eru komnir til til þess að upplifa einstæða náttúru landsins, eru náttúruverðmæti, þar með talið útsýni, metin einskis virði í peningum og engin breyting þar á. 

Á ljósmyndinni, sem er yfir bloggpistlum mínum, er staðið á botni Hjalladals, sem sökkt var og verður þetta landslag á um 150-180 metra dýpi undir aurlagi í fyllingu tímans. 

Þetta er hluti af svonefndum Stöpum, sem eru marglitir klettar úr flikrubergi við Rauðagljúfur, Rauðagólf, Rauðuflúð og stuðlabergshamarinn Arnarhvol, sem mikilvirkasta fljót heims hafði grafið á innan við einni öld.

Fjær og ofar er hluti af stærsta hjallalandslagi á Íslandi, og sést í Hálsinn, sem lónið er kennti við, smá bút af gróinni og grænni Fljótshlíð íslenska hálendisins, sem er 15 kílómetra löng, en öllu þessu var sökkt í drulluvatn og verður tortímt enn kyrfilegar með Kárahnjúkavirkjun, þegar dalurinn hefur verið endanlega fylltur af auri. 

Neðsta myndin er tekin við Kelduá fyrir austan Snæfell þar sem nú er búið að drekkja landinu og Folavatni, sem manni sagt að væri í gróðursnauðu umhverfi og einskis virði. 

Þegar komið var að vatninu áður en því var sökkt, kom hins vegar í ljós að bakkar þess og fjórir grónir hólmar á því voru fallegar gróðurvinjar þar sem Snæfell speglaði sig í vatnsfletinum ef kyrrt var. 


mbl.is Dýrasta íbúðin á hundruð milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband