Í upphafi er endirinn oft ekki skoðaður.

Eftir aldalanga búsetu í harðbýlu landi er það greypt inn í þjóðarsálina að grípa gæsina þegar hún gefst í sem flestum skilningi. 

Þegar við kaupum okkur bíl og notum hann er yfirleitt einblínt á kaupverðið og eyðslu á hundraðið, það sem borgað er án tafar, en síður á viðhaldskostnað, afskriftir og kostnað við viðhald, viðgerðir, slit á hjólbörðum og tryggingar og opinber gjöld, sem oft eru í hlutfalli við verðmæti bílsins og stærð hans. 

Þegar litið er á útreikninga virtra erlendra bílablaða varðandi kostnað við að eiga mismunandi bíla, sker í augun hvað heildarútgjöldin eru há og hve mjög það er dýrara að eiga stóra bíla en smáa. 

Í kjölfar Hrunsins var auðvitað ómögulegt að komast í gegnum hundraða milljarða króna tap og halla á ríkissjóði nema ganga hart að ríkisútgjöldum vegna viðhalds vegakerfisins. 

Það var líka hægt að spara til mjög skamms tíma með því að nota þynnra slitlag og ódýrara efni þótt það hafi síðar rækilega hefnt sín, til dæmis vegna viðhalds gatna í Reykjavík. 

Það hefur líka lengi verið tilhneiging hjá okkur til þess að líta bjartsýnisaugum á tekjuhlið mála en gleyma gjaldahliðinni. 

Nú moka 2 milljónir ferðamanna 500 milljörðum króna árlega af gjaldeyri inn í þjóðarbúið og við tökum því eins og hvalreka var tekið fyrr á öldum, fögnum hækkun gengis krónunnar og nýtum okkur það til innflutnings til að seðja neyslu"þörfina", en gleymum óhjákvæmilegum útgjöldum úr ríkissjóði og sveitarsjóðum vegna ferðamannasprengingarinnar. 


mbl.is Þjóðarátak þarf í vegamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?

"Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" er sagt að haft hafi verið á orði um ákveðinn mann fyrir um tvö þúsund árum. 

Fyrirbærið, að "dæma eftir útlitiu menn" eins og Gylfi Ægisson orðaði það, er líklega jafngamalt manninum. Því miður.  

Það minnir á hendingar sem hafa verið raulaðar hér á bloggsíðunni: 

 

"Þegar við fæðumst og færir oss yl 

framtíðar morgunroði

veið engu´um það ráðum að erum við til, - 

það er ekki annað í boði."

 

Það fer alltaf aulahrollur um mann þegar maður heyrir um eða verður vitni að því sem greint er frá í tengdri frétt. 

Þegar ég var strákur, kom fyrir að ég varð fyrir aðkasti fyrir það að vera með eins mikið og eldrautt hár og ég var. 

"Rauðskalli brennvínsson" var ekkert huggulegt.  

Ég var skírður Ómar í staðinn fyrir Ólafur í höfuðið á Ólöfu ömmu minni, svo að tryggt væri að ég yrði ekki kallaður Óli rauði til aðgreiningar frá öðrum með nafninu Ólafur. 

Nafnið Ómar var reyndar svo sárasjaldgæft þá, að það eitt gat orðið tilefni til athugasemda sem lítill strákur var ekkert hrifinn af.  

 

 


mbl.is „Ertu ekki taílensk?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband