Skin og skúrir eins og í rysjóttu vorveðri.

Á svonefndum útmánuðum á Íslandi gengur oft á með miklum átökum náttúruaflanna. Hæðir og lægðir æða yfir litla landið okkar með hraðfara sveiflum, skini og skúrum, stundum koldimmum rokéljum og heiðskírum bláhimni á víxl á sama klukkutímanum. 

Þessa dagana er fjölskylda Stefáns Karls Stefánssonar minnt hastarlega á fallvaltleika mannlegrar tilveru og krefjandi viðfangsefni hennar. 

Eftir að dótturdóttir okkar Helgu varð hluti af þessari fjölskyldu hefur hún hist við gleðileg tækifæri þegar tvær langafa/ömmudætur hafa komið í heiminn, verið skírðar og átt afmæli. 

Þá hefur verið gefandi að kynnast nýju venslafólki, þeirra á meðal Stefáni Karli Stefánssyni, frænda litlu stúlknanna, og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, konu hans, rifja upp gamlar og góðar stundir og kynni sem aldrei gleymast. 

Síðast þegar við hittumst, í afmæli Írisar litlu Stefánsdóttur, hafði Stefán Karl unnið fágætt afrek með því að fara á kostum að nýju í "Með fulla vasa af grjóti" og hlakkaði til að takast á við nýtt verkefni, einmitt núna í mars. 

Aðeins fáum dögum eftir afmælið barst síðan fregnin um að þetta yrði honum ofviða vegna heilsubrests. 

8. mars fæddist systir Írisar litlu og lýsti alla fjölskylduna upp eins og vorsól, beint í kjölfar þess að aðeins tvítugur fjölskylduvinur í fjölskyldu ömmu hennar hefði orðið bráðkvaddur. 

Og nú dynur önnur slæm fregn yfir aðeins nokkrum dögum síðar eins og kolsvart stormél. 

Hugur allra er hjá Stefáni Karli og Ólínu í þeirra hetjulegu baráttu sem hefur gefið okkur öllum svo mikið fordæmi hvað varðar gildi hugrekkis og samstöðu. 

Frá okkur öllum streymir ástarheit samúðar- og samstöðualda.  


mbl.is Ný meinvörp fundust í Stefáni Karli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr öskunni´í eldinn, tjörudrullan tekur við.

Eins og kunnugt er, er svifrykið sem gerir höfuðborgarsvæði umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs að heilsuspillandi mengunarbæli marga daga á hverjum vetri, að mestu samsett úr sundurtættu slitlagi gatnanna eftir neglda hjólbarða sem berja stundum á slitlaginu svo vikum skiptir án þess að nokkur þörf sé á því af völdum hálku.

En vegna hinna einstæðu umhleypinga að vetrarlagi, sem búast má við á Íslandi telja tugþúsundir ökumanna nauðsynlegt að negla hjólbarða bíla sinna, einkum þeirra sem notaðir eru reglulega til ferða yfir fjallvegi, sem liggja út frá höfuðborgarsvæðinu.  

Þannig hefur ástandið verið að undanförnu og ástæða þess að naglarnir eru notaðir er sú, að vissulega koma stundum dagar þar sem flughált verður á götunum í umhleypingum sem eru svo örir og ófyrirsjáanlegir, að erfitt er að láta saltaustur vinna á því hverja einustu stund. 

Þegar sagt er með feginsandvarpi að nú sé að koma rigning, sem bindi svifrykið, er það sýnd veiði en ekki gefin að þá séum við laus við þennan fjanda, því að rykið hverfur ekki, heldur breytist í tjörublandinn aur á götunum, sem sest á hjólbarðana og gerir þá sleipa og sest líka á framanverða bílana og er hvimleitt á framrúðum þar sem það skerðir útsýnið. 

Ef það snjóar í einhverjar klukkustundir á meðan úrkoman er í hita um frostmark, verður að ausa salti á göturnar sem gerir drulluna framan á ökutækjunum enn hvimleiðari. 

Sé farartækið vélhjól, verður ökurmaður vélhjólsins sjálfur útataður í tjörudrullunni. 

Ef hún er þar að auki slabbkennd er hjólið úr leik. 

Þessu hef ég kynnst af eigin raun undanfarin tvö ár, sem ég hef getað gripið í þann kostagrip, sem létt "vespu"vélhjól getur verið í þungri og silalegri bílaumferðinni, auk þess sem notkun hjóls gefur rými fyrir einn bíl í staðinn fyrir bíl hjólamannsins, sem ekki er notaður. 

Þetta er skárra viðfangsefni á rafreiðhjóli, sem ekið er á hjólastígum þar sem tjöruausturinn framan í vegfarendur ríkir ekki, en fyrir mann, sem þarf að fara að meðaltali meira en 20 kílómetra til og frá í erindagjörðum hverju sinni, getur rafreiðhjól verið heldur seinlegur fararmáti. 

Það blasir við að auka þarf hreinsun gatna og koma því atriði gatnaþjónustu í svipað horf hér og er víða erlendis. 

Það kostar að vísu peninga, en það kostar líka peninga að þrífa skítug föt hjólafólks eða framenda bíla, eða að mæta útgjöldum vegna slysa af völdum dekkja, hálla af tjörudrullu, því að þessu aurfilma á dekkjunum dregur úr hemlunargetu. 

Það þekkja jöklajeppamenn vel, sem stöðva jeppa sína í upphafi hvers leiðangurs þegar komið er af tjöruþöktum vegum til þess að þvo drulluna af dekkjunum. 


mbl.is Rigning bindur svifrykið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem Íslendingurinn er tekinn niður.

Ef íslenska vegakerfið er hræðilegt, er það norska lítið skárra. Og eitt hefur íslenska vegakerfið fram yfir það norska, það er mun hraðeknara en það norska, og munar þar miklu. 

Þegar ég fór í lengsta leiðangur minn um Noreg 1998 til að gera þrjá þætti fyrir Sjónvarpið auk frétta, gerði ég mjög góða áætlun um framvindu mála að því er ég hélt. 

Þetta voru 14 dagar, þar af rúmir 12 innanlands í Noregi. Leiðin átti að liggja frá Osló um Þelamörk og Harðfangursfjörð til Björgvinjar, þaðan um Sognfjörð og norska hálendið og síðan alla leið norður til Alta og til baka aftur. 

Skemmst er frá því að segja að þessi áætlun hrundi strax á öðrum degi. Stór hluti þjóðleiðarinnar milli stærstu borga Noregs með samtals yfir eina milljón íbúa var með eina akrein í hvora átt og svo krókóttur að á löngum köflum var hver blindbeygjan eftir aðra og hámarkshraðinn 50 km/klst. Á þessari leið voru meira að segja nokkrar einbreiðar brýr! 

 

Hraðinn sums staðr niður í 30 km/klst. 

Ef gerð var minnsta tilraun til að hraða ferðinni kostaði það hættu og vandræði, enda hver hraðamyndavélin við aðra á löngum köflum. 

Á þriðja degi varð að játa sig sigraðan, stansa aðeins, endurmeta stöðuna og líkt og heyra norska rödd tala niður til sín: "Slappaðu af! Slappaðu af! Ef þú gerir það ekki eyðileggur þú ferðina!"  

Þarna var Íslendingurinn tekinn niður ef svo mátti að orði komast. Og það var sama hvað reynt var, - þegar komið var norður til Alta, voru tólf dagar liðnir og leiðangurinn orðinn minnst þremur dögum á eftir áætlun. 

Og samt hafði ég miðað ferðina og áfangana á hverjum degi við hraðann á veginum heima! 

Norðmennirnir ráðlögðu mér að bæta við dögum og aka ekki sömu leið til baka, heldur flýja sitt ríka olíuríki, aka suður um Finnland og Svíþjóð alveg suður undir Stokkhólm og taka þaðan vinkilbeygju um sænska vegi til vesturs til Oslóar! 

Og síðasta kaflann til Oslóar yrði ekinn á einni akrein!  

Nú var Íslendingurinn alveg tekinn niður og eftir að hafa farið yfir stöðuna með yfirmanni mínum heima, var bílaleigubílnum skilað í Alta og flogið til Oslóar og þaðan heim. 

Í þessu ferðalagi og mörgu um Noreg sem á eftir fylgdu var eitt þó áberandi 1998. Þeir höfðu byrjað á að malbika allt vegakerfið fyrst og útrýma malarvegunum alveg. 

Ég ók síðast um Noreg 2009 frá Björgvin til Oslóar og þaðan til Stokkhólms. Og enn var ekið á einni akrein út úr Osló austanverðri til suðurs í átt að draumalandinu Svíþjóð með sína 110 km/klst hraða vegi, sem þó eru með minni slysatíðni en bestu vegirnir í Noregi, þar sem leyfður hraði er mun minni en hjá Svíunum.  


mbl.is Á versta veg í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband