Varanlegt deiluefni?

Enn eru í fersku minni deilurnar sem risu um búning karlalandsliðsins í knattspyrnu í EM. 

Ef rétt er munað, voru það einkum skæri lóðréttu línurnar í fánalitunum, sem deilt var um. 

Nú er kominn búningur, sem virðist vera alger andstæða, með daufum lit og ekkert sem gæti á hinn minnsta hátt vakið athygli. 

Ef sveiflurnar á útliti búningsins verða svona miklar frá ári til árs er sennilega búið að tryggja það að hægt verði að hafa sterkar og mismunandi skoðanir á honum; - les: deilur. 


mbl.is HM búningur frumsýndur (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirburða vistvænn ferðamáti.

Rafreiðhjól eru hugsanlega enn umhverfismildari ferðamáti en venjuleg reiðhjól. Ástæðan er sú, að þegar notkun venjulegra reiðhjóla fer yfir ákveðin mörk, má reikna aukna matarþörf hjólreiðamannsins inn í kolefnisfótsporið. Náttfari 9. okt 15

Að vísu kemur á móti, að hæfilerg hreyfing er holl fyrir líkamann hvort eð er, en engu að síður er rafreiðhjólið lang vistmildasta farartækið af þeim, sem knúin eru með annarri orku en líkamsorkunni. 

Í tilrauninni 2015 við að fara á raforku rafreiðhjóls einni saman, án fótafls frá Akureyri til Reykjavíkur var orkueyðslan samanlagt um 4,6 kwst, sem kostuðu þá 115 krónur. 

Á rafreiðhjólunum, sem Reykjavíkurborg ætlar að lána, er það blanda af fótafli og rafafli sem knýr hjólin og er hægt að hjóla þannig, að rafaflið skaffar drjúgan meirihluta orkunnar. 

Orkukostnaðurinn Akureyri-Reykjaík 2015 samsvaraði 0,15 lítrum af bensíni á hundraðið, en til samaburðar er þessi tala um tíu sinnum hærri á minnsta rafbíl landsins, sem ég nota líka til daglegra ferða, 1,5 l/100. 

Létta "vespu"vélhjólið mitt sem búið er að aka tvisvar hringinn og einu sinni Vestfjarðahringinn eyðir um 2,5 l á hundraðið á þjóðvegum, en aðeins 2,2-2,3 innanborgar.  


mbl.is Lána 25 rafreiðhjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdar eru afleiðingar tollmúranna eftir 1930.

Nú er orðið það langt frá því að ríki heims reistu tollmúra og fóru í tollastríð þegar heimskreppan mikla skall á í árslok 1929, að það er liðinn meiri tími en elstu menn muna. 

Menn muna ekki þá tíma sem Íslendingar framleiddu sjálfir ótrúlega fjölbreyttar vörur og varning í skjóli tollverndar. 

Þegar ég sá einhvers staðar birt nöfn langflestra þessara mörgu og örsmáu fyrirtækja á erlendan mælikvarða, sem framleiddu vörurnar sem við notuðum, áttaði maður sig á því hve maður hafði vanist því sem óhjákvæmilegum hluta af tilverunni hér á landi, að þessu væri svona háttað. 

Og þetta var mært sem atvinnuskapandi framleiðsla, þótt ekki þyrfti mikinn sérfræðing til að reikna hið gagnstæða út, að framleiðnin var langt, langt fyrir neðan framleiðnina í margfalt stærri verksmiðjum erlendis. 

Þegar byrjað var að losa um öll höftin og tollana á árunum milli 1960 og 1980 jukust þjóðarframleiðslan og þjóðartekjurnar á þann hátt, að líta mátti á næstum því fjóra áratugi um miðbik síðustu aldar sem stöðnunartímabil, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum. 

Það blasti við að tollastríð og tollmúrar skaða alla í heildina. 

En nú virðist sem þetta ætli að gleymast þótt glöggir menn sjái strax, að ef þetta skellur á á ný verður hættulegur efnahagsssamdráttur um allan heim. 

Eftir 1930 olli kreppan úlfúð og ófriði sem kostaði mannskæðustu styrjöld allra tíma með mestu eyðileggingu allra styrjalda.  Tazzari og Patrol

Ég er að upplifa smá dæmi um gildi hagkvæmninnar þessa mánuðina, tilvist lang léttasta rafbílsins á Íslandi af gerðinni Tazzari Zero, sem ég hef nú tekið í notkun fyrir mig og ræð við það, eingöngu vegna smæðar hans. 

Í gerð þessa bíls er náð fram ítrustu sparneytni án þess að það bitni á rýminu, sem þeir njóta sem sitja hlið við hliðð í tveimur sætum hans. Sem sagt: Tveggja sæta bíll, aðeins minni en Smart bíllinn, en tveir farþegar hans verða lítt eða ekki varir við smæðina af því að stytting bílsins fæst öll með því að sleppa aftursætunum.  

Smæð bílsins og haganleg hönnun gæti orðið fyrirmynd að svipuðum bíl, sem yrði framleiddur í tugþúsundum eintaka í framtíðinni þegar orkuskipti og orkuskortur fara að sverfa að. 

En það háir framleiðslu hins knáa en smáa Ítala, að hann er að mestu handsmíðaður og ekki smíðaður í nógu mörgum eintökum til þess að hægt sé að nýta sér hagkvæmni stærðarinnar. 

Þess vegna er verð hans og svipaðra bíla ekki nógu mikið lægra en stærri bíla, sem framleiddir eru á fullkomnustu færiböndum í tugþúsundum eintaka á ári, til þess að þessi skemmtilegi rafbíll og aðrir byggðir á svipaðri hugsun, fái að svo stöddu nógu mikla sölu. 

Toyotoa iQ var sniðugur bíll sem byggðist á svipaðri hugsun, en framleiðslu hans var hætt 2016 vegna þess að hann var á undan samtíð sinni. Þó tók hann þrjá fullvaxna og einn smávaxinn í sæti. 

 


mbl.is Tollastríð myndi skaða heiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband