Játning Jóa útherja.

Ég leit inn í verslunina Jóa útherja á þriðjudaginn til þess að kaupa flautu fyrir atriðið "Sigtryggur vann" sem ég verð helst að vera með tilbúið til flutnings, þegar óskir koma um það. 

Verslunarstjórinn sagði mér að hann fengi furðu oft fyrirspurnir um það hver Jói útherji hefði verið á sínum tíma og ættu þeir erfitt með að svara. 

Beindi hann spurningunni til mín. Mér var ljúft að svara að fyrirmyndin hefði verið ég sjálfur og nefndi nokkrar ástæður.  

Ég var alla tíð "aðdáandi Hermanns" og alltaf leikið stöðu hægri útherja á ferli mínum, í rúma tvo áratugi í árlegum leikjum Sjónvarpsins við KEA, í eitt ár með meistaraflokki Ármanns og í 30 ár í Stjörnuliði mínu. 

Ég hef ævinlega verið með lélega boltameðferð en lengst af með mikið þol og spretthörku. Afleiðingarnar hafa verið ansi skrautlegar oft á tíðum, en þó hef ég aldrei skotið niður önd.

Til var fyrirmynd að skotinu sem sleikti ráðherra sem var meðal áhorfenda. 

Og eitt sinn sendi ég mjög langa sendingu utan af kanti sem átti að vera glæsileg fyrirgjöf. 

Enginn var til að taka við þessari ógnarlöngu og háu sendingu nema hvass austanstrekkingur sem bar boltann upp í bláhornið fjær. Með glæsilegustu mörkum sem sjást, en var þó ekki ætlunin að skora.  

Þegar Laddi hvarf úr Stjörnuliðinu vegna meiðsla þurfti einhver að taka einstæða vítaspyrnu hans í vítaspyrnukeppni, sem var fastur liður hjá Stjörnuliðinu. 

Þessi vítaspyrna Ladda fólst í því að hlaupa eins og fjandinn sjálfur eftir endilöngum vellinum í átt að boltanum, en vera svo örmagna þegar komið var að vítapunktinum, að falli sem örendur væri út á hlið vinstra megin við boltann, en í sömu mund og misst var meðvitund, kom það sem Bandaríkjamenn kalla "to cick the bucket" (taka andvörpin / dauðateygjurnar á íslensku) þ.e. að hinn deyjandi maður sparkar í fötu eða kopp á hinsta augnabliki. 

Og þetta spark setti boltann í markið í bláhornið hægra megin. Ég hef skorað glæsileg sjálfsmörk og tókst fyrir tóman grís að leika dauðateygju Ladda eftir. 

Einnig hef ég alla tíð átt það til að fá eins konar martraðir og ýta hressilega við konu minni í miklum hamagangi. 

Það þurfti því ekki að fara langt til að finna fyrirmyndina að Jóa útherja. 


mbl.is Búningurinn fer vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við öndum öll að okkur sama loftinu..." Ræða Laxness; "..hærra plan."

Það er mikils virði að búið sé að nota nýjustu tækni til þess að heyra John F. Kennedy flytja ræðuna, sem hann ætlaði að flytja í Dallas 22. nóvember 1963. 

Síðasta merka ræðan, sem hann flutti áður en hann var myrtur er fyrir löngu orðin klassísk og hefur sama gildi í dag og þegar hún var flutt. 

Sú ræða var greinilega afrakstur hugleiðinga hans í kjölfar Kúbudeilunnar 1962 þegar heimurinn rambaði á barmi borgarastyrjaldar. 

Frægasta setning þeirrar ræðu er sennilega, sú sem hann sagði um þjóðir heims: 

"Við öndum öll að okkur sama andrúmsloftinu, við eigum öll afkomendur, sem okkur er annt um, og við erum öll dauðleg." 

 

Ég hef áður sagt hér á bloggsíðunni að hugsanlega muni sá tími koma, að ekki verði einasta hægt að láta látna menn flytja ræður, sem ekki voru varðveittar, á tilbúinni hjóðrás síðar meir, heldur einnig búa til myndrás af flutningnum. 

Sjáist hinn látni þá bæði og heyrist á tilbúnu myndrásinni. 

Einni eftirminnilegustu ræðu Halldórs Laxness, sem hann flutti, og jafnan var kennd við ummælin "er ekki hægt að lyfta þessari umræðu upp á örlítið hærra plan?" og spann hana reyndar af munni fram, var eytt skömmu síðar, bæði hljóðrás og myndrás. 

Myndupptökunni var eytt um 7-10 dögum síðar, af því að á þessum tíma voru tveggja tommu myndböndin, sem sjónvarpsstöðvar notuðu, svo óheyrilega dýr, hundruð þúsunda hvert, að það varð að endurnota þau með því að taka nýtt efni ofan í eldra og velja alveg sérstaklega gaumgæfilega það efni, sem geymt væri.

Í Sjónvarpinu var öll dagskráin tekin jafnóðum upp á einfalt hljóðband á þessum tíma, en þeim upptökum var að jafnaði eytt með því að taka nýtt efni ofan í það gamla nokkrum vikum eftir upptöku. 

Ég harma það alla tíð að hafa ekki á eigin vegum tekið upp umræðuþáttinn á einfalt segulband þann hluta umræðuþáttarins, þar sem Laxness brýndi sig á eftirminnilegan hátt og tók umræðuna í sínar hendur með myndugleika sínum. 

Ég hefði að vísu orðið að taka þetta upp utan við rútínukerfi Sjónvarpsins, sem vitanlega var erfitt í framkvæmd og var þess vegna ekki gert. 

Þess má geta sem dæmi um gildi þessarar orðræðu Laxness, að nú síðast undanfarna daga hefur staðið yfir nokkurs konar ritdeila í Fréttablaðinu um það sem Laxness kallaði "hið steingelda þras" helstu listamanna þjóðarinnar í Kalda stríðinu. 

Ég reyndi að bæta fyrir aðgerðarleysi mitt með því að leggja orð Laxness sérstaklega á minnið og varðveita þau þannig. 

Fór síðan með ræðukaflann í Kastljósi í orðastað Laxness og fékk þau viðbrögð hjá þeim, sem mundu hann sæmilega, að nokkuð rétt væri farið með hann. 

Í þessu tali í Kastljósi studdist ég ekki við blað og gleymdi því einni setningu Laxness um "hörmungar af mannavöldum". 

Þessi kafli umræðuþáttarins var að mínum dómi merkilegur vegna þess að í honum bjó Nóbelskáldið til nokkurs konar leikrit með fjórum rithöfundum, sem allir höfðu samið verk sem voru sett á svið. 

Urðu hinir þrír, Matthías Jóhannessen, Jónas Árnason og Gunnar Gunnarsson að leiksoppum Halldórs þessar mínútur sem Laxness tók á honum stóra sínum. 

Einhvern tíma í framtíðinni mun kannski renna upp sá dagur, að hægt verði að endurgera með notkun gervigreindustu fáanlegrar tölvu þessar eftirminnilegur mínútur í sjónvarpinu með skáldunum fjórum. 


mbl.is Kennedy flytur loks Dallas-ræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörmulegt vanmat og sjálfhverft mat á aðstæðum.

Frá því að Bandaríkjamenn skárust í leikinn í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar og síðan aftur á enn árangursríkari hátt í Seinni heimsstyrjöldinni til þess að bjarga Evrópu og þjóðum heims frá ógnum nasismans, hefur þetta mikla heimsveldi litið á sig sem nokkurs konar heimslögreglulið. 

Það hefur oft litið vel út á yfirborðinu, en ævinlega hafa sjálfhverfir hagsmunir Bandaríkjanna sjálfra verið undirliggjandi. 

En því miður hafa þeir alltof of vanmetið stöðu og menningu þeirra þjóða, sem þeir hafa haft afskipti af. 

Þeir veðjuðu á rangan hest, Shang Kai Shek í Kína og fóru út Víetnamstríðið með kolröngu stöðumati. 

Þeir studdu gerspilltan Íranskeisara og töpuðu því mikla landi í hendur öfgaklerka. 

Sama ár voru þeir að styðja Muhaheddin múslima gegn Sovétmönnum í Afganistan og hafa síðan 2001 setið uppi með vonlítið stríð við arftaka Muhaheddin, Talibana. 

Bush sýndi að vísu hárrétt stöðumat, þegar hann fékk alþjóðlega samstöðu við að reka Íraka út úr Kúveit en stillti sig hins vegar um að steypa Saddam Hussein. 

Sonur hans hratt hins vegar af stað hrikalegri atburðarás, sem enn sér ekki fyrir endann á, með því að gera það sem faðir hans hafði forðast að gera. 

Bandaríkin sýndu gróft vanmat þegar þau studdu uppreisnaröfl í Túnis, Egyptalandi,Líbíu og Sýrlandi undir heitinu "arabíska vorið" sem snerist upp í andhverfu sína og hefur leitt böl yfir Líbíu og Sýrland og stuðlað að stofnun Íslamska ríkisins. 

Ekki má kenna Bandaríkjamönnum einum um, því að NATO þjóðir, þar með taldir Íslendingar, dönsuðu með 2003 í Írak og 2011 í Sýrlandi og Líbíu.  

 


mbl.is Hamfarakennd eyðilegging (myndir)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband