Auðveldast í bílskúrum.

Eftir rúmlega öld sem það hefur tekið bílinn og vegakerfið fyrir hann að þróast hér á landi, hugsum við kannski ekki út í það, hve það er mikið og flóki kerfi mannvirkja sem hefur risið til þess að koma eldsneyti á flota um það bil 200 þúsund bíla um allt land. 

Fróðlegt er til dæmis að lesa um það í fræðibókum um bílabyltinguna að hve mörgu var að hyggja og hve margt varð að byggja upp og framkvæma til þess að þessi einfalda athöfn, að hella bensíni eða dísilolíu á bílinn gæti hreinlega átt sér stað. 

Fróðlegt væri til dæmis að fá það metið í fjármunum, hvað skipaflotinn, hafnaraðstaðan, leiðslurnar, geymarnir og dreifikerfið kostar, auk allra bensínstöðvanna um allt land. 

Í ljósi þess hve miklu fátækara þjóðfélagið var á tímum uppbyggingar olíudreifikerfisins heldur en það er nú, ætti það ekki að vaxa okkur í augum að byggja upp orkudreifingarkerfi fyrir rafbílana. 

Nefna má nokkra kosti fram yfir olíudreifingarkerfið svo sem það að geta sett orkuna á heima hjá sér úr raforkudreifikerfi, sem þegar er fyrir hendi. 

Ég hleð rafreiðhjólið mitt í skrifstofuherbergi mínu og er svo heppinn að hafa fundið einfalda leið til að hlaða rafbílinn úr leiðslu frá geymslu minni í kjallara blokkarinnar, sem ég bý í, á eigin kostnað. 

Tazzari, hleðslustaður

Það hefur komið sér vel, hve lítið kríli þessi tveggja sæta rafbíll er, þannig að hann getur staðið á stað, þar sem hann tekur hvorki bílastæði né skagar inn á gönguleið á gangstétt.

Ekkert hefur verið átt við öryggin inni eða neitt, en ég byrja yfirleitt að hlaða eftir kvöldmat og hætti áður en allt fer í gang morguninn eftir. 

Sem sagt: Þegar rafmagnsnotkunin er minnst, og rafstraumurinn á bílinn er um eitt kílówatt, eða á við fimm 200 watta ljósaperur.  

Núna hafa tveir rafbílar dúkkað upp í 110 íbúða blokkaklasanum, en ljóst er að langt er í land í blokkunum hér í hverfinu að leysa orkuvanda rafbíla, því að í hönnun hverfisins virðist alls ekki hafa verið gert ráð fyrir rafbílum, jafnvel ekki neinum farartækjum nema einkabílum, ekki einu sinni reiðhjólum.

Fleira mætti nefna hvað snertir alls kyns lagaleg atriði og úrvinnslu meðal íbúanna í ótal fjölbýlishúsum landsins, svo sem það að ná fram lausn, sem samkomulag er um. 

Niu N-GTX rafhjól

Þess má geta, að nú eru að koma fram rafhjól með vespulagi, sem ná 45 og jafnvel 80 km hraða og eru með útskiptanlegum rafgeymum, en það gerbyltir öllum hleðslumálunum og færir þau inn á heimilin, í geymslurnar eða í bílskúrna. 

Hef í hyggju að setja hér inn mynd af rafhjólinu Niu N-GTX, sem er þegar komið á markað, og 80 km hraða gerðinni verður bætt við á þessu ári.  

Sú gerð á að geta komist upp í 180 km á hleðslu, sem þýðir í raun eitthvað yfir 100 km. Niu GTX farangur

Og þrátt fyrir rafgeymana er furðu gott farangursrými undir sætinu og möguleiki til að bæta farangurskassa aftan á. 

Næsta bylting á eftir svona hjóli gæti orðið lokaður örbíll með útskiptanlegum rafgeymum. 


mbl.is Hlaða bílana á mesta álagstíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem betur fer eru alvöru jeppar enn til, en því miður flestir dýrir.

Sem betur fer eru enn til bílaframleiðendur sem bjóða upp á raunverulega jeppa en ekki gervijeppa eins og nú eru hvað vinsælastir. 

Smám saman hefur jeppum með heilar hásingar fækkað, og nú er eitt af síðustu vígunum fallið, Mercedes-Benz G jeppinn, sem kominn er með sjálfstæða fjöðrun að framan. 

En samt áfram alvöru jeppi. 

Heilar hásingar eru að vísu með meiri "ófjaðraða" þyngd en sjálfstæð fjöðrun, og það telst galli, en kosturinn er hins vegar sá, að veghæðin er alltaf sú sama á hásingunum, gagnstætt því sem er á flestum "gervijeppunum" sem geta sigið alveg niður undir jörð ef þeir eru hlaðnir og dúa upp og niður á ójöfnum vegum. 

Fyrir nokkrum árum var listi yfir alvöru jeppa með háu og lágu drifi og heilum hásingum að framan og aftan ennþá sæmilega langur: Jeep Wrangler, Land Rover defender, Nissan Patrol, Mercedes Benz G, Suzuki Jimny, en nú eru Wrangler og Jimny einir eftir, eftir að Nissan Patrol og Land Rover defender fengu hægt andlát. Suzuki Jimny´06 Helgu norðan v. Hrafntinnusker

Ef miðað er við stærð, gerð og verð er það Suzuki Jimny sem er í raun líkastur upprunalega Willys jeppanum hvað snertir þyngd og stærð. Hann er með gormafjöðrun og er ódýrasti alvöru jeppinn á markaðnum. 

Helga átti svona jeppa í nokkur ár og þarna er hún á honum í kvikmyndunarferð fyrir myndina "Akstur í óbyggðum" á leið niður frá Hrafntinnuskeri með útsýni upp á miðhálendið ef vel er að gætt. 

Patrolinn og Defenderinn voru með afar mjúka gormafjöðrun og því sjónarsviptir að þeim. 

Eldri gerðin af langa Patrolnum á 44 eða 38 tommu dekkjum getur verið drauma jöklajeppi litla mannsins vegna þess hve langt er og breitt á milli hjólanna og hve vel hann fer með ökumanninn í öldóttu færi á jöklum. Range, Vitara, Fox jöklajeppar

Kemur sér vel fyrir bakflæðissjúklinga. 

Ég fann ekki slíkan 2004 þegar ég leitaði og datt niður á það næst besta, örlítið lengda Range Rover 1973 árgerð á 38 tommum með Nissan Laurel dísilvél fyrir 220 þúsund kall. 

Kalla hann "Kötlujeppann". 

Meðal jeppa með sjálfstæðri fjöðrun að framan og heilli hásingu að aftan og háu og lágu drifi má nefna, Toyota Land cruiser, FT cruiser, Hilux, Mercedes Benz G, Ssanyong Rexton og, - haldið þið ykkur nú, - Lada Taiga (Lada sport).

Síðast nefndi rússneski smájeppinn er enn framleiddur þótt til stæði að drepa hann fyrir rúmum 20 árum, og kostar skít á priki, en er grófgerður og smábilanagjarn (eitthvað laust og dettur af svo sem pedalar og hurðahúnar) og eyðslufrekari en þörf er á.  Lada Niva og Friðþjófur

Ég átti einn slíkan í nokkur ár og hafði mjög gaman af því. Bílaleigan Geysir hafði flutt nokkra inn og ég greip einn í verkefni mín um stundarsakir. Alltaf fór hann í gang, maður komst allan fjandann á honum og aldrei var hann stopp vegna bilunar þótt smáhlutir losnuðu.  

Þessir bílar hafa verið seldir víða um lönd alla tíð og voru með tímamóta hönnun 1977. 

Þess má geta að Rexton er ódýrasti alvöru fullvaxni jeppinn á íslenskum markaði. 

Tveir "gervijeppar" hafa nokkra sérstöðu með það að hafa extra lágan fyrsta gír, sem getur verið mjög mikilvægt í torfærum og gefa þessum bílum færi á að vera eins konar blendingar. Fiat Panda cross 4x4

Þetta eru Fiat Panda cross 4x4   og Dacia Duster, báðir tiltölulega ódýrir og sparneytnir. Fiatinn mætti vera með ca 2ja sentimetra meiri veghæð að framan en hann hefur, en á móti kemur, að cross-gerðin er með ágætum hlífðarpönnum að framan og aftan. 

Fyrir lítinn pening er boðið upp á stærri dekk og smá hækkun á fjöðrun fyrir Dacia Duster hjá BL og getur hann þá farið undir stjórn lunkings bílstjóra að slást í för með alvöru jeppum á jeppaslóðum hálendisins líkt og Lada Taiga, þökk sé lága fyrsta gírnum. Suzuki Ignis

Enn er ótalinn mjög athyglisverður aldrifsbíll, sem er Suzuki Ignis. Sá bíll er með heila hásingu að aftan og því lítil vandræði varðandi það að hann sígi hlaðinn niður að jörðu að aftanverðu. Hann er með betra set fyrir fjóra fullvaxna frammi í og aftur í en miklu stærri bílar, jafnvel Land Rover Discovery, fimm sinnum dýrari bíll! 

Hann mætti hins vegar vera með aðeins meiri veghæð að framan og vera með lægri 1. gír. 

Hvað snertir verð, léttleika og sparneytni í gegnum hátækni hönnun er þessi ódýrasti aldrifsbíll á markaðnum hrein snilld.  

En líklega er Land Rover Discovery toppurinn ef allt er mælt og eigandinn nógu ríkur. Hingað til hefur til dæmis 50 sentimetra árdýpt (hámarksdýpt á vatni sem ekið er í) þótt afbragð, en Discovery er með 70 sentimetra árdýpt. 


mbl.is Drífand góður Land Cruiser 150
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband