Eitt af því sem spáð var fyrir 20 árum.

Auknir hitar og þurrkar og sandmistur, ættað frá Norður-Afríku, voru atriði sem nefnd voru sem hugsanlegar afleiðingar af hlýnun loftslags á jörðinni. 

Jafnframt hafa flest tölvulíkön varðandi loftslag þessarar aldar sýnt hugsanlega kólnun suðvestur af Íslandi og aukinni úrkomu og svala um norðvestanverða Evrópu. 

En veðurfar á jörðinni allri er svo flókið fyrirbæri, að vafasamt er að hægt sé að spá nákvæmlega um það í smáatriðum.  

Til dæmis er sú hlýnun, sem verið hefur á nyrsta hluta jarðar, verið mun meiri síðustu misseri en reiknað var með. 


mbl.is Furða sig á appelsínugulum snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað gerðist í Nýsköpunarstjórninni.

Núverandi ríkisstjórn er að því leyti til svipuð svonefndri Nýsköpunarstjórn 1944 til 1947, að að þessum ríkisstjórnum standa þrír flokkar, sá sem er yst til vinstri, sá sem er yst til hægri og síðan einn miðjuflokkur. 

Einu atkvæði munaði flokksstórn Alþýðuflokksins að sá flokkur færi í ríkisstjórn, en allir þingmann flokksins stóðu þó að ríkisstjórnarsamstarfinu þegar á hólminn var komið. 

Andstaðan innan Alþýðuflokksins var einkum óbeit á samstarfi við Sósíalistaflokkinn.

Innan Sjálfstæðisflokksins var líka andstaða við samstarf við Sósíalistaflokkinn, og var hún það mikil að fimm þingmenn flokksins studdu ekki ríkisstjórn Ólafs Thors. 

Ríkisstjórnin hafði samt öruggan meirihluta, og aldrei kom til að vantrauststillaga væri borin upp á stjórnina né einstaka ráðherra hennar. 

Þegar stjórnin stóð að vinsælum aðgerðum í almannatryggingamálum og endurnýjun togaraflotans hjaðnaði andstaðan innan raða krata og Sjalla við stjórnina og flokkslínur voru nokkuð skýrar í Alþingiskosningunum 1946 ef undan er skilið, að skiptar skoðanir voru um Björn Ólafsson þingmann Sjalla í Reykjavík svo að hann fékk miklar útstrikanir. 

Nýsköpunarstjórnin sprakk út af grundvallarágreiningi sósíalista við hina flokkana í utanríkismálum. 

Ólafi Thors var mikið í mun að halda stjórnarsamstarfinu áfram þótt dökkar blikur væru á lofti í efnahagsmálum, stórkostlegur gjaldeyrisforði uppurinn og mikill efnahagssamdráttur í helstu viðskiptalöndum okkar gerði óhjákvæmilegt að taka upp harðar skömmtunaðgerðir og höft. 

Hugsanlega hefðu efnahags- og kjaramálin sprengt Nýsköpunarstjórnina ef utanríkismálin hefðu ekki sprengt hana. 

Ólíklegt er að utanríkismál muni sprengja núverandi stjórnarsamstarf en órói á vinnumarkaði gæti orðið skeinuhættur og undirliggjandi er ágreiningur í umhverfismálum, sem gæti blossað upp. 

Slit síðasta stjórnarsamstarfs komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og ekki er hægt að afskrifa að orsök stjórnarslita nú gæti komið á óvart. 


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil tvöfeldni Trump.

Donald Trump sýnir mikla tvöfeldni með því að skipa John R. Bolton þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna. 

Í kosningabaráttu sinni hamraði Trump á því hvílíkt glapræði innrásin í Írak hefði verið árið 2003 og gekk svo langt að segja, að hún og síðar "Arabiska vorið" hefðu haft þær afleiðingar,  þar á meðal stofun Íslamska ríkisins, að Hillary Clinton og Barack Obama væru stofnendur ISIS!

Og að allar hörmungarnar í Sýrlandi væru af þeirra völdum.  

Nú hefur Trump gert þann mann, sem laug í Georg W. Bush Bandaríkjaforseta, að gereyðingarvopn væru í Írak og hvatti Bush til að gera innrás í landið, að þjóðaröryggisráðgjafa sínum. 

Og ekki nóg með það. John R. Bolt hefur líka hvatt til að Bandaríkin ráðist af fyrra bragði á bæði Norður-Kóreu og Íran! 

Í þessu felst alveg lygileg tvöfeldni hjá Trump, að fordæma innrásina í Írak fyrir kosningar, en fela síðan mesta stríðshauk síðari tíma í Bandaríkjunum að sjá um þjóðaröryggismál og komast í kjöraðstöðu til þess að Bandaríkin geri tvær innrásir í stíl við innrásina í Írak.  


mbl.is Fundur Kim og Trump í uppnám?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband