Samanburðurinn við Yellowstone er æpandi, svo orð fá vart lýst því.

Um þrjár milljónir manna koma í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunu, sem er frægur eins og Ísland fyrir hverasvæði sín. Um garðinn liggja alls um 1600 kílómetrar af gönguleiðum og milljónir fara um hverasvæði svipuð þeim sem eru hér á landi, svo sem við Geysi, í Krýsuvík, Hverarönd og víðar. 

Fyrir tuttugu árum sagði þýskur prófessor, sem hingað kemur á hverju ári með tugi manns með sér, að ástandið við Geysi væri þjóðarskömm. 

Þetta var og er enn því miður svona. 

En ástandið sem sjá má myndir af með tengdri frétt á mbl.is er þó þannig að engu tali tekur hvílík þjóðarskömm er að breiðast út um landið. 

Samanburðurinn við Yellowstone varðandi það að sjá um það með vöktun, ítölu og gerð göngupalla eða nothæfra göngustíga til þess að tryggja hreina notkun án skemmda á gróðri og jörð á öllum 1600 kílómetra löngum gönguleiðum garðsins er í svo æpandi mótsögn við það sem er í gangi hér á landi, að mann skortir orð. 


mbl.is Göngustígurinn er eitt drullusvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Íslands frá 1949.

Við inngöngu Íslands í NATO 30. mars 1949 fengu vitrir ráðamenn því framgengt að sá fyrirvari væri bókaður um inngöngu í NATO að Íslendingar hefðu sjálfir engan her og myndu ekki hafa. 

Í frumvarpi stjórnlagaráðs segir í 31. grein: "Herskyldu má aldrei í lög leiða." 

Ákvæðið um sérstöðu Íslands í NATO helgaðist af smæð þjóðarinnar. Norðurlandaþjóðirnar eru 15 til 20 sinnum fjölmennari hver þjóð en Íslendingar og stóru Evrópuþjóðirnar í kringum 150 til 250 sinnum fjölmennari. 

Mikilsvert er að athuga þetta vel þegar gengist er undir alþjóðlegar skuldbindingar og þess vegna er gott að sérstöðunni sé haldið vel til haga varðandi aðgerðir gegn rússneskum yfirvöldum. 

Því að sem dæmi um óhagkvæmni smæðarinnar má nefna hve herfilega við fórum út úr því að taka skilyrðislaust þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna innlimunar Krím. 

Hlutfallslegt tjón okkar miðað við aðrar þátttökuþjóðir í þessum aðgerðum varð margfalt meira, ekki hvað síst vegna þess, að þegar valinn var gildissvið aðgerðanna, gátu áhrifamestu þjóðirnar haft áhrif á útfærsluna til þess að lágmarka fórnir sínar.  


mbl.is Taka mið af stærð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er engin leið að hætta? Popplag í G-erræðisdúr?

Landsnet, áður Landsvirkjun, vandist því um margra áratuga skeið að geta farið nokkurn veginn sínu fram við lagningu háspennulína. 

Aldrei þurfti að hafa neinar áhyggjur af því að skoða möguleikann til annarrar leiðar fyrir línuna en hentaði línulagnarmönnum, hvað þá að leggja hana nokkurs staðar í jörðu. 

Dæmin eru svo mörg að það er erfitt að velja. Á einum besta útsýnisstaðnum í Friðlandi að Fjallabaki þar sem horfa má á góðum veðurdegi alla leið norður til Bárðarbungu liggur háspennulína þvert yfir sjónsviðið milli Ljótapolls og Svartakróks. 

Þótt flestir erlendir ferðamenn, sem koma til landsins, segi í skoðanakönnunum, að háspennulínur séu þau mannvirki sem trufli mest upplifun þeirra af þeirri einstæðu og ósnortnu íslensku náttúru, sem þeir séu komnir til að skoða, virðast háspennulínumenn aldrei hafa haft áhyggjur af slíku. 

Þeir flögguðu dýrri og mikilli skýrslu hér um árið, sem átti að sanna að það væri allt of dýrt að setja línur í jörð, en þegar þeir voru í krafti upplýsingalaga krafðir um að birta hana, sögðu þeir að hún væri týnd!!

Nú ætla þeir að fara með risalínu i gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og dýrmæt útivistar- og náttúruverðmætasvæði bara rétt si svona og segjast alveg undrandi yfir því að vera beðnir um að skoða möguleika á jarðstreng. 

Það kostar jú svo mikla peninga að gera rándýrar skýrslur sem gufa upp og finnast ekki.

Maður heyrir Stuðmenn fyrir sér: "Það er engin leið að hætta...", - popplag í Gerræðisdúr.

Og ekki er að sjá að þeim finnist þeir sjálfir hafa valdið neinu um þá stöðu sem er komin upp. Nei, "málið er í uppnámi vegna úrskurðar."

Ekki vegna þess að það átti að nota gamla trixið að skjóta fyrst og spyrja svo og treysta á, að málið væri komið svo langt og þegar orðið svo dýrt að engin leið væri að hætta.  

 


mbl.is Í uppnámi vegna úrskurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þarna norðan megin, afleitt sunnan megin.

Það munaði ekki miklu að tveimur af sögufrægustu samkomuhúsum Reykjavíkur yrði tortímt. 

Einbeittur vilji var til þess upp úr síðustu aldamótum að rífa Austurbæjarbíó og reisa íbúðablokkir í staðinn. 

Daginn, sem þetta varð gert kunnugt datt það út úr mér í fjölmiðlum og fékk flug og athygli, að engu væri líkara en að yfirvöld í borginni væru haldin sjálfseyðingarhvöt hvað snerti margar merkustu byggingar í Reykjavík. 

Til liðs komu Ólafur F. Magnússon og fleiri, sem lögðu andófi gegn þessum fyrirætlunum lið, og það tókst að bjarga þessu samkomuhúsi, sem var ekki bara venjulegt bíó, heldur stóð tónlistarfólk í Reykjavík að smíði hússins eftir stríð og það varð vettvangur helstu tónlistarviðburða næstu 20 árin, meðal annars tónleika margra af þekktustu tónlistarmönnum og hljómsveitum heims. 

Hámarkið fyrir æskuna voru hljómleikar Kinks 1965. 

Sjálfstæðishúsið, sem nú verður endurreist við Torvaldsensstræti, var glæsilegasti samkomu- og skemmtistaður borgarinnar eftir stríðið og þar áttu revíurnar glæstan lokakafla undir heitinu Bláa stjarnan. 

Er vel að þessi staður rísi nú í sinni upprunalegu mynd. 

Öðru máli gengur um enn eitt hótelið, sem á að troða niður á við suðvesturhorn Austurvallar ofan á einn elsta helgistað Reykjavíkur, Víkurkirkjugarð, og eyðileggja hann og koma í veg fyrir að nauðsynlegt andrými myndist til vesturs frá Austurvelli. 

Það væri efni í viðbótarpistil en þennan. 


mbl.is Nasa-salurinn rifinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband