Hluti borgarfulltrúa kosinn beint í hverfum?

Nokkur hverfi í Reykjavík eru álíka fjölmenn og stærstu kaupstaðirnir utan borgarinnar. 

Við fjölgun borgarfulltrúa hefði mátt íhuga hvort hluti þeirra, til dæmis fjórir, væru valdir beint úr fjórum hlutum borgarinnar. 

Andmæli gegn þessu gætu verið að þetta myndi flækja kosningarnar og borgarmálin og ýta undir "kjördæmapot." 

En eftir sem áður yrðu 19 borgarfulltrúar kosnir í borginni sem heild. 

Og það þarf ekki að vera alslæmt að einstök hverfi eigi jafnan sinn eigin kjörna fulltrúa í borgarstjórn. 


mbl.is Mikill munur á fylgi eftir hverfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið "í pípunum"? Blautu tuskurnar.

Núna hefur verðbólgan aukist það mikið, að hún er sú mesta síðustu misserin. Samt hefur enn ekki birst niðurstaðan af komandi og vaxandi átökum um kjaramál. 

Síðustu árin er það erlendi ferðamaðurinn sem fyrst og fremst hefur haldið uppi góðæri án verðbólgu. 

Gríðarlegt innstreymi gjaldeyristekna hefur haldið gengi krónunnar það háu, að verð á innfluttum vörum hefur ekki hækkað eins og annars hefði orðið. 

Nú bendir margt til að þetta geti ekki lengur gengið í sama mæli og áður. 

Blautar tuskur meiri prósentuhækkana hjá hæst launaða fólkinu sem nú er slett framan í laugafólk í neðri launaflokkum, eru það margar og örar, að fólki er nóg boðið. 

Á sama tíma hefur verst setta fólkið fengið lang minnstu hækkanirnar í prósentum talið, sem þýðir að hækkunin í krónum talið er sannkölluð hungurlús. 

Því miður hefur aðeins einn maður, sem vitað sé, gert eitthvað í þessu máli, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. 

En engir aðrir fylgja fordæmi hans. 

Allir aðrir, svo sem Alþingismenn og ráðherra, virðast ætla að láta fólk kaupa það að þeir geti ekkert gert svo gagn sé að til þess að vinda ofan af kjararáðsruglinu, sem þó var afleiðing af lagasetningu stjórnmálamanna. 

Það er því að verða ansi mikið "í pípunum" eins og það er stundum orðað, og að hættan á að stíflan bresti sé til dæmis helsta ógnin við stöðu ríkisstjórnarinnar, ef forsendur fyrir hinum margumtalaða stöðugleika verði að láta undan síga, illu heilli.  

Það er talandi dæmi um vangetu stjórnmálamanna að einmitt það atriði, sem hefði getað lagfært eitthvað, persónuafslátturinn, var ekki notaður sem skyldi, að af völdum aðgerðarleysis á því sviði hefur stór hópur láglaunafólks orðið útundan. 

Að fólk skuli þurfa að borga skatt af 230 þúsund krónum á mánuði segir sína sögu.  


mbl.is Telja að verðbólgan muni láta á sér kræla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna var löng skjálftahrina 2007-2008.

Skjálftinn "norðan Vatnajökuls", sem kom um hádegi í gær, er á svæði þar sem voru langvarandi djúpir skjálftar frá júlí 2007 og fram á sumar 2008. Fiat 126, Fagridalur, Herðubreið

Skjálftarir þá byrjuðu við sunnanverða Upptyppinga en færðu sig smám saman norður í svonefnda Álftadalsbungu, sem liggur að Fagradal að austanverðu. 

Skjálftinn nú varð við mynni Fagradals. 

Á myndinni af "fjallabílnum" Fiat 126 er Fagridalur í baksýn, þar á bak við eru Upptyppingar, en vesturhlíð Álftadalsbungu er hægra megin við dalinn. 

Herðubreið er í baksýn og síðar færðu skjálftarnir sig einmitt í

í átt til hennar norðvestur um Krepputungu og dóu svo út við Herðubreiðartögl og Herðubreið. 

Álftadalsbunga er gömul dyngja og fjöll þarna eru eldfjöll, svo sem Kárahnjúkar. 

Sauðárflugvöllur er um 15 kílómetra fyrir suðsuðaustan staðinn, sem skalf í gær, og þess vegna stendur svæðið manni kannski aðeins nær en ella. 


mbl.is Skjálfti að stærð 3,3 norðan Vatnajökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið er óupplýst eins og tugir annarra.

Tugir morða á andófsfólki gegn Pútín síðustu 15 ár eru óupplýst. Ef Pútín eða menn hans standa á bak við þau, eru þau framin til þess að skjóta öðru andófsfólki skelk í bringu. 

Til þess að fælingin virki verða morðin að vera með hæfilega löngu millibili en þess þó gætt að ekki séu fleiri drepnir en brýnasta nauðsyn er til. 

Árásin á Skripal feðginin er það þriðja sem ég man eftir, þar sem óvenjulegu eitri er beitt, en reyndar átti Pútín augljóslega engan þátt í því að hálfbróður Kim Jong-un var drepinn á þann hátt. 

Litvinenki var hins vegar drepinn í London fyrir rúmum áratug á geislavirku eitri. 

Vitnað hefur verið í fyrri orð Pútíns þess efnis að gagnnjósnarar væru réttdræpir. 

En hvers vegna eiturefni? 

Hugsanlega vegna þess að fælingin virkar betur. Svikari við Pútín á óhægt um vik að verjast árás af svipuðu tagi og gerðar voru á Litvinenko og hálfbróður Kim Jong-un, vegna þess að áraásarmennirnir laumast hljóðlega að fórnarlambinu og þurfa ekki nema að stinga "óvart" með regnhlífarbroddi í fórnarlambið, eða að lauma taugagaseitri, þróuðu á valdatíma Pútíns sem yfirmanns KGB. 

Qui bono? Hver hagnast? 

Ef ofangreind ástæða getur verið á bak við árásina á Skrípal feðginin,er það Pútín. 

Til þess erfiðara sé að rekja rannsóknarslóð er óvíst að Pútin komi nema óbeint við sögu. 

Kannski var einhverjum falið það fyrir mörgum árum að velja fórnarlömb árása og einhver undirmanna hans hafi misreiknað sig í Salsbury. 

Ástæðan fyrir hörðum viðbrögðum Breta og fleiri þjóða við árásinni á Skripal feðginin kann að vera sú, að gera Pútín það skiljanlegt, að ef hann er á bak við árásina, gangi hann of langt með því að nota efnavopn og eigi frekar að halda sig við hefðbundnari vopn, eins og oft hefur verið gert gagnvart andófsmönnum í Rússlandi. 

Þetta er snúið mál, - málið er óupplýst og þjóðir Evrópu standa ekki allar að refsiaðgerðum gegn Rússum. 

Nú stendur til að Kim Jong-un haldi fundi með voldugum þjóðarleiðtogum, og ekki virðist dularfullt dráp á hálfbróður hans standa í vegi fyrir því. 

Það má alveg velta vöngum yfir því hvort einhver þjóð, þjóðir eða valdahópar geti hagnast á þeim illdeilum, sem komnar eru upp. 

En mun erfiðara er að færa sönnur á aðild einhvers slíks að árásinni á Skripal feðginin heldur en að gruna Pútín um græsku. 

 


mbl.is Taugaeitur fannst á heimili Skripal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband