Mun víðtækara samfélagsástand en margur heldur.

Trúboðar í Afríku segja að það taki minnst tvær kynslóðir til að breyta þjóðfélagsgerðinni þar í álfu í jafnréttisátt. 

Þegar vestrænt fólk kemur til Afríku finnst því stétta- og kynjamunurinn auk forneskjulegra siða og trúarbragða hjá hinum mörgu ættbálkum landsins yfirþyrmandi. 

En þegar við skyggnumst grannt um í okkar eigin þjóðfélagi mynda ótal svonefnd smáatriði mjög stóran hluta af hegðun, viðhorfum og samskiptum okkar, sem enn á ansi langt í land með að færast út úr hinu forna karlaveldi, hugsunarhætti þess og hvernig við komum fram hvert við annað í smáu og stóru. 

Þrátt fyrir marga áfanga sem náðst hafa eru verkefni fram undan í jafnréttismálum, sem mörg eru þess eðlis, að okkur hefur sést yfir þau en erum nú vonandi að uppgötva og reyna í framhaldinu að færa til betri vegar.  

 


mbl.is Vön því að vera eina konan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndin og þúsund orðin.

Máltækið "ein mynd segir meira en þúsund orð", gott ef það er ekki kínverskt, sannast enn einu sinni í sýningu íslenskra blaðaljósmyndara í Esju, austurhluta Hörpu. 

Það er hægt að fá mikið út úr því að sjá þessar myndir og melta umsagnir og eigin hugrenningar á meðan. 

Þetta orðalag, "ein mynd" er umhugsunarvert, því að það getur líka átt við um samanburð ljósmyndarinnar við kvikmyndina. 

Oft segir ein mynd meira en þúsundir myndaramma af sama atburði. 

Í hugann koma frægar blaðaljósmyndir eins og myndin af kínverska stúdentinum, sem stendur svo einn og að því er virðist máttarvana andspænis stóra skriðdrekanum á Torgi hins himneska friðar árið 1989.  DSC01338

Eða myndin af Muhammad Ali, standandi yfir föllnum fyrrverandi heimsmeistara, sem liggur í gólfinu, og Ali æpir: "Stattu upp og berstu, auminginn þinn!" 

Margir segja að þetta sé íþróttamynd 20. aldarinnar. 

Tekin var kvikmynd af því sama atviki, en ljósmyndin segir svo miklu meira. 

Myndirnar á sýningunni í Hörpu sýna fólk, atvik og aðstæður, sem maður þekkir frá liðnu ári og liðnum árum, en fær mann til að endurhugsa það allt. 

Ljósmynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum frönsku leiðangursmannanna, sem fórust með rannsóknarskipinu Pourqois pas?, og hefur verið raðað í fjöruna í Straumsfirði með leiðangursstjórann fremstan, er hugsanlega ljósmynd síðustu aldar á Íslandi. 

Eðlilega eru engar kvikmyndir til af strandinu og harmleiknum í fárviðri næturinnar, en þessi eina ljósmynd segir meira en þúsundir myndaramma og orða. 


mbl.is Syrpa af myndum ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband