Gagnsæið enn bara brandari.

Meðan enn svokallað gagnsæi varðandi bókhald Alþingismanna, til dæmis í akstri einkabíla sinna, nær ekki lengra aftur en til síðustu áramóta er það auðvitað bara brandari. 

Auðvitað veit ég að það er bara nördaskapur hjá mér að hafa fært nákvæmt inn í litlar minnisdagbækur mínar í 23 ár allan akstur minn, aflestra af vegalengdamælum og nákvæmar lýsingar á akstursleiðum auk eldsneytiskaupa og eldsneytiseyðslu, og að ég get skoðað þetta allt í gögnum í einum skókassa, - skoðað síðustu fjögur ár úr minnisbókum í jakkafatavösum mínu hvenær sem er og hvar sem ég er staddur. 

Eða lagt þetta fram tafarlaust, ef þörf krefði. 

En samt segja gagnsæi og upplýsingagjöf í tvo mánuði af margra ára og áratuga þingmannsferli nokkurn veginn ekki neitt, - eru bara djók meðan það er allt og sumt.   


mbl.is Keyrði bara 2.000 kílómetra í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er enskan að verða eðaltungumál og íslenskan rusltungumál?

Eitt dæmi um virðingarleysi fyrir íslenskri tungu en virðingu fyrir enskunni birtist í því að fólki þykir mikils virði og sjálfsagt að tala og rita enska tungu kórrétt en mælir hinu gagnstæða bót varðandi það að tala og rita íslensku. 

Er enskan þó miklu ruglingslegra og erfiðara tungumál til réttritunar og réttrar notkunar en íslenskan er. 

En vitað er að fólk kemst ekki upp með það í samskiptum við útlendinga á ensku að sýna því tungumáli óvirðingu. 

Samkvæmt skoðanakönnuninni í tengdri frétt á mbl.is virðist stefna hraðbyri í það, að í huga og framkvæmd muni meirihluti Íslendinga telja þjóðtunguna rusltungumál samanaborið við eðaltungumálið ensku.

Verst er þegar málvillur í íslensku innihalda rökleysu en njóta velvildar, sem erfitt er að útskýra öðruvísi en þannig, að þarflaust sé að vanda mál sitt ef talað er á íslensku.  


mbl.is Yngra fólkið kýs ensku umfram íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður um öll hundruð milljarðanna?

Ef nefna á eitt atriði sem skóp uppsveifluna á Íslandi eftir 2010 er það erlendi ferðamaðurinn. Nefnt hefur verið að alls beri hann árlega hundruð milljarða króna inn í íslenska hagkerfið, gott ef ekki hátt í 500 milljarða króna virði af gjaldeyri, og fyrir bragðið er hægt að halda gengi krónunnar háu og auka stórlega neyslu á innfluttum vörum. 

Tekist hafi að auka kaupmátt stórlega án verðbólgu. 

En þrátt fyrir þetta á okkar ríka þjóð ekki nema brot úr prósenti af þessum tekjum til að byggja upp innviðina sem þarf til að þessi gjöfulasti atvinnuvegur þjóðarinnar geti nýst bæði Íslendingum og útlendingum og til að tryggja að íslensk náttúra verði ekki stórsköðuð af stjórnlausum ágangi. 

Hvert árið líður af öðru án þess að gripið sé til aðgerða. 

Það hefur verið sagt að það kosti peninga að búa til peninga, og sjá má hvarvetna erlendis hvernig þar er staðið að uppbyggingu samgangna og annarra innviða, sem nauðsynlegir eru fyrir alla sem fara um landið. 

Því að góðir vegir og upplifun á einstæðri náttúru landsins eru lífsgæði jafn fyrir heimamenn sem gesti á Íslandi.  


mbl.is Ferðaþjónustan yfirtekur samfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband