Eins gott að þeir vandi sig. Eiturefnavopn hafa haft sérstöðu í 100 ár.

Vonandi hafa aðvaranir Rússa við loftárásum Bandaríkjanna, Breta og Frakka í Sýrlandi beinst að því að benda þeim á áhættuna af því að drepa rússneska hermenn með þeim. 

Vonandi hafa þríveldin vandað sig nógu vel til þess að slíkt hafi ekki gerst. 

Rússar kasta úr glerhúsi sem þeir hafa búið í allan tímann í Sýrlandi með her sinn á landi og í lofti í bullandi hernaðaraðgerðum. 

Listinn yfir efnavopnaárásir Assads í gegnum árin er langur og ljótur, jafnvel þótt hluti af því væri talinn ósannaður. 

Hann var ekki meira ósannaður en það að Assad neyddist til að láta eyða efnavopnunum, en samt greinilega ekki nógu miklu af þeim. 

Eina hugsanlega ástæða efnavopnaárásar hjá Assd, jafn vel mjög afmörkaðri aðgerð eins og kann að hafa verið framkvæmd í Douma, er sú það þessi grimmi harðstjóri telji hana fela í sér fælingarmátt og niðurbrot á viðnámsþreki andstæðinga hans. 

Efnavopnaárásir eru sér á parti í hernaði, vegna þess að strax í Fyrri heimsstyrjöldinni kynntust stríðsaðilar því, að slíkur hernaður stigmagnast, ef byrjað er á honum og fer úr böndunum að öllu leyti. 

Þarf ekki annað en breytta vindátt til að eitrið drepi þá sem beita því. 

Í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar var dreift gasgrímum meðal stríðsþjóðanna. 

Sem betur fór fyrir alla var eiturhernaði aldrei beitt í stríðinu. Jafnvel vitfirringurinn Hitler gerði það ekki. 


mbl.is „Eins og best verður á kosið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Those were the days, my friend."

Það er magnað hve margir jeppar af gerðinni Ford Bronco eru í umferð hér á landi eftir að 52 ár eru liðin síðan þessi bíll kom fyrst á markaðinn hér. 

Þegar maður heyrir lagið "Those were the days, my friend", minnist maður þessara merku jeppa. 

Ég átti bíla af þessari gerð tvívegis. Fyrst sex strokka bílinn 1966 til 67, en síðan kom hlé, það var verið að stækka húsrýmið fyrir vaxandi fjölskyldu allt fram til 1972. 

Á árunum 1968 til 1971 varð smábíll, Fiat 850, að nægja fyrir sjö manna fjölskyldu, en þá brá svo við að vegna ívilnana fyrir bændur gat hver sem var fengið Bronco með átta strokka vél fyrir spottprís vegna þess hve stórfelldan afslátt á innflutningsgjöldum og tollum allir jeppar sem voru styttri en 2,40 á milli öxla fengu. 

Þetta ákvæði um 2,40 metrana hafði verið sett til þess að aðeins Willys, Landrover og Rússajeppar gætu gagnast bændum sem landbúnaðartæki og fengið niðurfelld gjöld samkvæmt því. 

Þess vegna var afar hagstæður jeppi, International Scout, sem kom á markað 1961, og átti svo sannarlega erindi til Íslendinga, rándýr af því að hann var 2,54 á milli öxla. 

Á þessum árum var engin bílbeltaskylda, og í Broncóinn gátu íslensk breytingaverkstæði sett sæti fyrir alls átta, þótt bíllinn væri styttri en Yaris er á okkar tímum. 

Íslensku tollasnillingunum hafði yfirsést sá möguleiki, að jeppi sem fjaðraði á lungamjúkum gormum að framan og mjúkum afturfjöðrum, kæmi fram á sjónarsviðið, væri aðeins 2,33 á milli öxla og hefði hraðagetu, spyrnugetu og klifurgetu á við kraftmikla fólksbíla. 

Á þessum árum voru engir langir jeppar eins og Wagoneer á gormum, heldur allir á blaðfjöðrum. 

Undantekningin var tímamótajeppinn Range Rover 1970 með gorma allan hringinn en líka svo dýr, að hann mátti kalla lúxusbíl fyrir þá best stæðu. 

Eitt þekktasta jeppatímarit Bandaríkjanna valdi fyrstu gerð Ford Broncó sem besta jeppa allra tíma, miðað við þann tíma, sem hann kom fram. 

V-8 vélin malaði eins og köttur með silkimjúku hljóði og skilaði af sér gnægð af togi og hestöflum og þrír gírar voru feykinóg, hætt að þjóta áreynslulítið og næstum hljóðlaust upp flestar brekkur í efsta gír. 

Tveir jeppar, Bronco og GAZ 69 Rússajeppi skáru sig úr á þessum árum hvað það varðaði að vera með fjöðrunarbúnaðinn ofan á hásingunum og fá með því lang mestu veghæð þeirra tima jeppa, bæði undir kviðinn og hásingarnar. Þeir voru því duglegri í snjó en aðrir jeppar, einkum Rússinn, sem var með örmjóar drifkúlur, ættaðar frá Ford A, sem skáru snjóinn eins og hnífar. 

Raunar er ég þeirrar skoðunar að Rússinn hafi verið best hannaði jeppi heims frá 1953 til 1966, þegar Broncóinn kom fram. 

Fjaðrirnar á Rússunum voru einstaklega mjúkar, rýmisnýting og hlutföll bílsins í sérflokki og dugnaðurinn eftir því. 

Í stað þess að talsvert rými færi til ónýtis fyrir aftan framöxul vegna þess að vélin var fyrir aftan framöxul, var vélin á Rússanum fyrir ofan framöxulinn og farþegarýmið teygði sig því langleiðina fram eftir bílnum. 

Vélin var líka fyrir ofan framöxul á Bronkónum, en ekki eins dýrlega framarlega og á Rússanum. 

Rússneska vélin var því miður einhver sú lélegasta á byggðu bóli á þessum árum og bíllinn alltof aflvana og hægfara fyrir skemmtikraft í tímahraki í þeysireið um lélega malarvegi  . 

Bronkóinn var ekki gallalaus. Mismunurinn á blaðfjöðruninni að aftan og gormafjöðruninni að framan á Bronkónum gat gert hann hættulega lausan í rásinni að aftan á þvottabrettum. 

Hlutfallið var hátt hvað varðaði oltna jeppa af þessari gerð. 

En hvílíkt dásemdartæki voru þeir miðað við gjafverðið sem borgað var fyrir þá. 

Í lokin, 1977, bar hann níu manna fjölskyldu léttilega, þrír frammi í, fjögur börn í aftursætisbekknum, og tvö þversum aftast í bílnum.

Á minni fermetrafjölda en á Yaris.  

"Those were the days, my friend."  


mbl.is L 121 tekur á sig mynd í Lúx
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband