"Aðili er aðila gaman." Hvað næst? "Mannfall varð"?

"Bílvelta varð" og orðið "aðilar" blómstra sem aldrei fyrr hjá fjölmiðlafólki, samanber það nýjasta, að Millie Bobby Brown sé einn af "100 áhrifamestu aðilunum" í heiminum. 

Hvað næst: "Í Kína búa 1,4 milljarðar aðila"? "Fimm aðila bíll"?  "Sjaldan veldur einn aðili þá tveir aðilar deila"? 

Eða, eins og ég sá haft eftir Þórarni Eldjárn á facebook: "Aðili er aðila gaman" í stað orðtaksins "maður er manns gaman."

Engin leið er virðist að nota tvö atkvæði yfir það þegar bíll veltur: "Bíll valt". 

Nei, það verður að vera helmingi lengra: "Bílvelta varð." Nú síðast í frétt í fyrradag. 

Ef maður dettur í hálku eða af hesti má senn fara búast við orðalaginu "mannfall varð."  


mbl.is Ein af 100 áhrifaríkustu í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjallir bændur á knörrum frekar en víkingar á langskipum.

Mýtan um að íslenskir landnámsmenn hafi upp til hópa verið blóðþyrstir víkingar á langskipum, samanber ósk Egils Skallagrímssonar:  "..höggva mann og annan", fær skell í fornleifarannsóknum. 

Raunar segir Egill sjálfur um ósk sína í ljóðinu "Það mælti mín móðir...", að hún hafi falist í að "..stýra dýrum knerri." 

Athyglisvert sjónvarpsviðtal var á Hringbraut við Árna Björnsson þjóðháttafræðing þar sem hann rökstuddi mjög vel og skemmtilega þá skoðun sína að nær allir landnámsmenn hafi verið bændur en ekki víkingar og komið hingað á knörrum en ekki langskipum. 

Egill rauði hafi verið ágætt dæmi um landnámsmann á Grænlandi, sem bjó á smájörð á Íslandi og þótti þröngt um sig. 

Svipað gæti hafa átt við um langflesta þá, sem komu hingað frá Noregi, landþrengsli eða að sætta sig ekki við að borga Haraldri hárfagra skatt. 

Gott og upplýsandi viðtal við Völu Garðarsdóttur á mbl.is. 

Henni sést þó yfir eitt veigamikið atriði varðandi rýrnandi landgæði, en það var hrís- og skógarhöggið sem svipti jarðveginn bindingu svo að uppblástur náði sér á strik. 

Orðið holt þýðir skóglendi, samanber "oft er í holti heyrandi nær" og þýska orðið "holz", og holtin á öllu höfuðborgarsvæðinu segja sína sögu. 


mbl.is Blómlegt mannlíf við landnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla lausungin gengur ekki lengur.

Vaxandi umferð á göngu- og hjólastígum kallar á það að skerpa á reglum um hjólreiðar. Náttfari í Elliðaárdal

En einnig þurfum við, hjólreiðafólk, og raunar allir í umferðinni að kynna sér þær breytingar og þau nýmæli, sem koma fram. 

Sem dæmi má nefna að margir vita ekki að nú er leyfilegt að fara á reiðhjóli eftir gangbraut sem liggur yfir akbraut, án þess að hjólreiðamaðurinn þurfi að fara af baki og leiða hjólið. 

Hann má hins vegar ekki fara á fullri 20 til 25 km/klst ferð, heldur að vera niður við gönguhraða. 

Mikið skortir upp á að hjólreiðafólk noti bjöllurnar til þess að láta vita af sér. 

Það er eins og að einhver feimni ríki við þetta eða að þeim, sem hikar við að hringja bjöllunni þyki bjölluhringing beri vott um frekju þess sem hringir. 

Bjölluhringingar og það að líta vel í baksýnisspegil eru nauðsynleg atriði í því að koma í veg fyrir óþarfa árekstra. 

Það er mjög óþægilegt að allt í einu þjóti fram úr gangandi eða hjólandi manni hjólreiðamaður á miklum hraða, sem hefur komið svo hratt aðvífandi, að það kemur öðrum í opna skjöldu. 

 


mbl.is Nýtt sektarákvæði fyrir hjólreiðafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband