Mikilvæg málaferli. "You raise me up" núna, "Dominó" 1950.

Ég minnist þess enn hvað ég varð hissa á bílferð um Noreg þegar ég heyrði fyrst lagið "You raise me up" í útvarpinu, vegna þess að engu var líkara en einhver útlendingur hefði sungið lagið Söknuð inn á plötu með enskum texta en ekki kunnað lag Jóhanns Helgasonar nógu vel. 

Að vísu er lína í báðum lögunum svipuð hluta laglínu "Londonderry air", en líkindin með lagi Josh Groban og lagi Jóhanns eru svo miklu meiri að það er pínlegt að hlusta á það, einkum ef það er rétt, að hinn nýi "höfundur" hafi þekkt íslenska lagið eftir að hafa heyrt það hér á landi. 

Það er mikilvægt að úr þessu verði skorið þótt það kosti fé. 

Einu sinni áður hefur komið upp svipað mál hér á landi, en það var 1950 þegar lag eftir Skúla Halldórsson þótti líkjast hinu heimsfræga lagi Dominó. 

Þá voru aðstæður aðrar, því að nokkurn veginn útilokað var að höfundur Dominó hefði heyrt lag Skúla. 

Auk þess var hinn líki kaflli miklu styttri en nú er deilt um og áherslurnar í taktinum öðruvísi, á annarri nótu í byrjun lags Skúla, en á þriðju nótu í Domino. 


Það þarf oft lítið til að illa fari.

Börn eiga oft erfitt með að átta sig á hugarástandi hunda. Þau kunna að halda að kvikar hreyfingar hunds séu merki um ærsl og leik en ekki æsing og óróa. 

Í fjölskylduferð vestur í Dölum fyrir mörgum áratugum var kvikur og fjörlegur hundur innan fum ferðamenn, þar sem áð var. 

Þorfinnur, sonur okkar Helgu, var þá fimm ára og fór að gefa sig að hundinum til að leika sér við hann og hafa af því skemmtun. 

Við báðum hann að hætta þessu, en það var of seint, hundurinn virtist misskilja drenginn og beit hann illilega, svo að blæddi hressilega. 

Við fórum með drenginn til dýralæknis á svæðinu sem bjó um sárið og gaf drengum móteitur við sýkingu af völdum bitsins. 

Aldrei má gleyma þvi að hundar eru rándýr þótt gæfir og ljúfir séu jafnan. 

Fyrir nokkrum áratugum fór af því saga að stjórnmálamaður einn, sem átti öflugan og stóran varðhund, hefði orðið að borga ærverð fyrir kind eða lamb, sem hundurinn drap á ferðalagi með húsbónda sínum. 

Fylgdi sögunni að bitkraftur öflugustu hunda af þessu kyni gæti numið 500 kílóum, sem nægði til að klippa höfuð af lambi. 

Hvernig þessi bitkraftur átti að hafa verið mældur, fylgdi þó ekki sögunni.  


mbl.is Mjög sjaldgæft að svona mál komi upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á örlög frægasta ísingarsérfræðings Bandaríkjanna.

Nálægð við hættuleg fyrirbæri felur ævinlega í sér svonefnda "útreiknaða áhættu", (calculated risk).

Fyrir um það bil rúmum 30 árum mátti lesa ítarlega umfjöllun í bandaríska flugblaðinu "Flying" um flugmann, sem hafði sérhæft sig í flugi í því sem á flugmáli kallast "þekkt ísingarskilyrði" (known icing conditions). 

Hann stundaði þessar rannsóknir persónulega með flugi við varasöm ísingarskilyrði og skrifaði líka um það og varð þekktur í ameríska flugheiminum fyrir vikið. 

Eitt sinn komu ísingarskilyrði á Klettafjallasvæðinu sem voru þannig, að þegar ófært var fyrir aðra vegna óvenjulega hættulegrar ísingar, fann hann loftrými á milli tveggja ísingarlaga, sem hann komst í gegnum á sama tíma og engum öðrum var það fært. 

En á endanum biðu hans sjálfs svipuð örlög og "Lóðrétta læknisins", sem lést í snjóflóði í Ölpunum í gær. 

"Lárétti ísingarflugmaðurinn" tók að sér að fljúga með tvo þekkta bandaríska stjórnmálamenn í krefjandi ísingarskilyrðum og lenti sjálfur í þvílíkum vandræðum að einnig hann, sá allra færasti á þessu sviði, fórst ásamt farþegum sínum.  

Nú er orðið svo langt um liðið, síðan þetta gerðist, að ég man ekki lengur nafn þessa flugmanns, sem gerði vandasama glímu við ísingarskilyrði í flugi að sérgrein sinni. 

Þessi saga og sagan af "Lóðrétta lækninum" eru lærdómsríkar fyrir mörg fyrirbæri, þar sem "útreiknuð áhætta" er með í spilinu. 

Ein tegund af þessari áhættu, mjög grimmt reikningsdæmi, blasir við á fyrstu ævistund hverrar manneskju:

Við fæðingu er aðeins tvennt, sem er öruggt: Að vera á lífi - og vera dauðvona.

Lengi vel geymdi ég þau eintök bandaríska flugblaðsins Flying sem ég keypti en gafst á endanum upp á því, enda magnið orðið óviðráðanlega mikið eftir 60 ára lestur. 

 

 


mbl.is Frægur fjallalæknir lést í snjóflóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband