Maður stansar ekki á hraðbraut út af hverju sem er.

Á ferð eftir norskri hraðbraut fyrir 16 árum trúði ég varla mínum eigin eyrum. Var virkilega búið að þýða textann við lagið Söknuð og koma því á framfæri erlendis eftir svona mörg ár frá því að það var samið? 

Ég heyrði aðeins lok lagsins, en þegar ég heyrði það aftur nokkrum dögum síðar, varð óumflýjanlegt að finna tækifæri til að stansa til að hlusta betur. 

Jú, víst var aðal "húkkið" í laginu á sínum stað, en að öðru leyti var eins og að sá, sem bæri ábyrgð á þessari erlendu útgáfu hefði verið eitthvað slappur við að pikka það upp og ganga frá því. Eða farið afar frjálslega með það. 

Að laginu hefði verið stolið og endursamið að hluta var eitthvað svo ótrúlegt. Hvar hafði sá sem það gerði getað heyrt lagið, sem hafði aðeins heyrst heima á Íslandi 24 árum fyrr? 

Svarið kom nokkru síðar: Hann hafði unnið í íslensku hljóðveri og orðið þar vel kunnugur íslenskri tónlist. 

Það eru aðeins tólf nótur í tónstiganum og því geta tilviljanir valdið miklu um það hvernig lög verða til. 

Einnig er mannsheilinn furðuskepna og sumt, sem "gleymist" getur samt sokkið niður í undirmeðvitundina og annað hvort verið þar á meðan ævin endist eða komið aftur upp við ólíklegustu tækifæri. 

Sjálfur á ég gott persónulegt dæmi: Þegar ég var 22ja ára og fyrsta barnið var fætt gerði ég vögguvísu við frumsamið lag og setti á disk. 

Asnaðist til að syngja lagið sjálfur í stað þess að fá söngvara til þess, sem lagið hentaði betur. 

Niðri í gamla útvarpshúsi við Skúlagötu hitti ég nokkru síðar Ólaf Gauk, sem sagðist vera steinhissa yfir því hvar ég hefði getað grafið lagið upp. 

Ég sagðis hafa samið það sjálfur, en hann sagði það af og frá, því að þetta lag væri afar lítt þekkt erlent lag, sem hann hefði spilað með hljómsveit í örfá skipti á útmánuðum 1948. 

Ég var ekki síður undrandi en hann, því að þá var ég aðeins sjö ára og hafði að sjálsögðu ekki verið á ferli á skemmtistöðum þess tíma. 

Hvernig mátti þetta vera? 

Jú, allt í einu datt mér í hug að spyrja Ólaf hvort þeir hefðu ekki stundum spilað í beinni útsendingu þessa mánuði. 

Hann kvað það rétt vera, og að sennilega hefðu þeir þá spilað lagið einu sinni í útvarp í beinni útsendingu frá Hótel Borg, en þá var útvarpið í húsi beint hinum megin við Austurvöll.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér að á þessum bernskuárum hafði ég yndi af því að hlusta á tónlist í útvarpinu og hefði sennilega heyrt þetta lag í það eina sinn sem það var spilað í útvarp. 

Nú var Norðmaðurinn sem skrifaði sig fyrir laginu "You Raise Me Up" á fullorðinsaldri þegar hann heyrði lagið Söknuð á Íslandi en engu að síður útilokar Jóhann Helgason það ekki að hann hafi ekki áttað sig sjálfur meira en tuttugu árum síðar að hafa fiskað lagið upp úr undirmeðvitund sinni. 

En hvað varðar höfundarrétt skiptir það engu máli þegar dæmt er um líkindi milli tveggja tónverka eða bókverka.  


mbl.is Vill ekki naga handarbök á gamals aldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1968, hið "ofboðslega" ár.

1968 mátti kalla hið "ofboðslega" ár. Árið byrjaði með látum sem stóðu árum saman, og öldur þess umróts hefur ekki lægt enn í dag. Meira að segja hér á Íslandi varð til hugtakið "68 kynslóðin", ungt fólk, sem í ljós hinna róstusömu tíma allt frá Vietnam til Bandaríkjanna, Frakklands, Tékkóslóvakíu og Íslands, gerði gagngera uppreisn gegn ríkjandi ástandi. 

Árið byrjaði með Tet-sókn Viet Cong, sem fékk sjónvarpsfréttaþulinn Walter Cronkite til að segja að Bandaríkin gætu ekki sigraði í stríðinu. 

Í kjölfarið hætti Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti við að bjóða sig fram til endurkjörs. 

Fyrir nákvæmlega hálfri öld var Martin Luther King myrtur og Robert Kennedy í kjölfarið. 

Eldar loguðu á götum margra bandarískra borga þegar ég fór í Bandaríkjaför þetta sumar til að skemmta Íslendingum á fullveldishátíð. 

Forsetaframbjóðandi á Íslandi, sem hefði flogið inn á Bessastaði fjórum árum fyrr, ef þá hefðu verið forsetakosningar, fór herfilega hrakför gegn forsetaframbjóðanda í anda ársins 1968. 

Óeirðir skóku Frakkland og sjálfan Charles De Gaulle forseta, sem á endanum hrökklaðist frá völdum. 

Herir Varsjárbandalagsríkja með Sovétríkin í fararbroddi réðust inn í Tékkóslóvakíu og bundu enda á "Vorið í Prag". 

Hvað skildi árið 1968 eftir. Kannski voru það áhrif Martins Luther King sem lengst munu lifa. Sovétríkin og kommúnisminn í Austur-Evrópu hrundu 1989 til 1991. 

Eitt gerðist á Íslandi, sem er merkilegt: Á örfáum árum upp úr 1970 aflögðust þéringar fullkomlega á Íslandi.  

 


mbl.is King: Ég óttast engan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðstír Mario Kempes má ekki gleymast.

Um þessar mundir er verið að sýna á RÚV myndir frá HM í gegnum tíðina og þá birtast okkur stjörnur fyrri móta eins og Eusebio 1966 og Garrincha 1962. 

Aðeins þrír leikmenn á HM, Garrincha 1962, Mario Kempes 1978 og Paolo Rossi 1982 hafa hlotið eins konar þrennu á HM, heimsmeistaratitil með liði sínu, gullskóinn sem mesti markaskorarinn og viðurkenningu sem besti leikmaður mótsins. 

Sú viðurkenning byggðist kannski ekki síst á því að Kempes bjó yfir einstæðu baráttuþreki, úthaldi, hraða og ósérhlífni í vörn og sókn sem olli því að hann var heilu leikina allt í öllu hjá heimsmeisturum Argentínumanna. 

Það þýðir að vísu ekki sjálfkrafa að viðkomandi komist jafnfætis Pelé, Maradona, Messi og Ronaldo þegar allt er tekið með á löngum, farsælum ferli, en engu að síður er alltaf jafn magnað að sjá frammistöðu Mario Kempes fyrir Argentínsku meistarana á HM 1978, - nokkuð sem ekki má falla í gleymskunnar dá.  


mbl.is Hægt að bera þá saman við Maradona og Pelé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband