Kerfin eru kröfuhörð. Millinafninu getur verið ofaukið!

Einu sinni var orðið "kerfið" notað nær eingöngu um það kerfi sem rekstur ríkisins er. 

Nú hefur þetta hugtak í fjölbreyttum myndum mikla þýðingu í flestu stóru og smáu, jafnt í einkamálum og fyrirtækjum og gagnvart ríkinu. 

Svokölluð stýrikerfi leynast á bakvið stórt og smátt í daglegu lífi okkar, allt frá smá tölvukubbum í litlum tækjum upp í heilu stofnanirnar og stærðar fyrirtæki, mannvirki og samgöngutæki, og það verður að hafa varann á að ekkert fari úrskeiðis eða misskiljist. 

Pínulítið dæmi: Ég hef um árabil verið félagi í litlum áhugamannahópi, sem kemur reglulega saman á hálfs mánaðar fresti yfir veturinn, en þó geta fundardagar breyst ef svo ber undir.

Til þess að allir geti fylgst sem best með því, hefur verið ákveðið áminningar- og boðunarkerfi í tölvupósthópi, sem hefur sent tilkynningu út fyrir hvern fund og einnig tilkynnt um breytingar eða flutt fréttir innan hópsins. 

Nú brá svo við fyrir síðustu jól að sá, sem hefur frá upphafi séð um boðunarkerfið, hefur verið langdvölum erlendis, og tók þá annar þátttakandi í hópnum að sér boðunina út frá sinu netpóstfangi. 

Þessi útskipting fór fram hjá mér, þannig að ég var alveg grunlaus þegar það fór að dragast að senda út tilkynningu um næsta fund. 

Gátu ýmsar skýringar verið á því, og því beðið átekta. 

Þegar liðið hafði á annan mánuð sendi ég tölvupóst á einn í hópnum, sem ekki var svarað, en á því gátu líka verið skýringar. 

Um síðir, eftir lengsta hlé í starfsemi klúbbsins í 23 ár hvað mig varðaði, kom síðan í ljós að búið var að halda tvo fundi án minnar vitneskju og ég sá því fram á alls tæplega fjögurra mánaða hlé sem byrjaði á hléinu yfir hátíðirnar og áramótin og endaði á raunverulegu hléi fram til 12. apríl. 

Ástæðan var hlægilega lítil og einföld: Við yfirfærslu á listanum yfir þátttakendur hafði tölva nýs póstfangs fyrir tilkynningarnar hent nafni mínu út, af því að kerfið í henni réði ekki við stafinn Þ. sem er millinafn mitt! 

Hér höfum við sem sagt öfugt dæmi miðað við það sem gerðist hjá Wow air, að ég hefði ekki sett þetta millinafn mitt (Þ=Þorfinnur) inn á listann, hefði allt verið í stakasta lagi.

Já, það getur verið erfitt og varasamt að lifa á tímum hinna lúmskustu kerfa. 

 


mbl.is Misstu af flugi vegna millinafns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynistríð og staðgenglastríð.

Þótt skæruliðar ættu víða stóran þátt í stríðsrekstrinum í Heimsstyrjöldunum tveimur voru línur þó yfirleitt nokkuð skýrar varðandi það hver væri að fást við hvern. 

Hermenn voru yfirleitt í einkennisbúningum og flugvélar og önnur stríðstól merkt með einkennismerkjum. 

Í helstu árásum var nokkuð ljóst hver réðist á hvern. 

Stríðsþjóðirnar forðuðust það í Seinni heimsstyrjöldinni að beita efnavopnum, bæði vegna hættunnar á að gasið bærist óvart til sendandans eða að slíkur hernaður gæti stigmagnast öllum  stríðsþjóðunum til bölvunar og tjóns. 

Flugvélum og öðrum hernaðartækjum stjórnuðu menn í merktum einkennisbúningum. 

Það var helst í skæruhernaði sem tala mátti um staðgenglastríð, svo sem í vaxandi aðgerðum andófsfólks í Júgúslavíu, Noregi og Frakklandi í Seinni heimsstyrjöldinni eftir því sem leið á stríðið.

Þar lék leyndin oft stórt hlutverk og dæmi voru um stríðsaðgerðir þar sem gerendur þrættu fyrir verknaði sína, svo sem morðin í Katynskógi, sem upplýstust ekki til fulls fyrr en við fall Sovétríkjanna. 

Í Sýrlandsstríðinu og fleiri átökum í Miðausturlöndum virðast leynd og staðgenglastríð verða æ fyrirferðarmeiri atriði. 

Eldflaugaárásir og árásir með drónum verða æ meiri hluti af hernaðinum og þar með leyndin yfir því, hverjir beri ábyrgð á hverju og hver ráðist á hvern. 

Þetta á víð þegar hernaðarþjóðir koma hergögnum til leynilegra andófshópa og herja eins og gert hefur verið ótæpilega í Sýrlandi. 

Þegar leitað var að nýyrði yfir mannlausar flugvélar kom fram tillaga um heitið mannleysu. 

Það hefði að mörgu leyti átt vel við það þegar menn sitja í leynilegum og vel földum og vörðum húsakynnum og dunda sér við að drepa mann og annan úr launsátrum sínum með mannlausum drápstækjum. 

Það er ekki mikil reisn yfir slíku, heldur vekur frekar viðbjóð. 

Munurinn er að vísu ekki mikill á því og aðferðum í lofthernaði Seinni heimsstyrjaldarinnar þar sem flugmenn í sprengjuflugvélum gátu stundað þá miklu firringu sem felst í því að limlesta og drepa fólk í hundraða þúsunda tali án þess að sjá neitt, hverjir það eru sem verða fyrir sprengjunum og hvernig þeir eru drepnir. 

En friðsamleg notkun dróna, svo sem við kvikmyndagerð og björgunarstörf er þess eðlis, að yfirbragð orðsins mannleysa hefði ekki verið viðeigandi nýyrði á slíkum vettvangi.  

 


mbl.is Árás á herstöð Sýrlandshers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband