Við höfum sjálf reynst fullfær um hernaðinn gegn tungunni.

Fyrir um 200 árum var hart sótt gegn íslenskri tungu í barnalegri aðdáun og snobbi fyrir dönskunni. 

Samt höfðu Danir ekki verið eins aðgangsharðir við Íslendinga og Englendingar voru gagnvart keltnesku þjóðunum og það munaði mikið um það að strax í upphafi siðskipta fengu Íslendingar að eiga sína Biblíu á tungumáli heimamanna og að nota íslenskuna í dómskerfinu. 

Fyrir tæpum tveimur öldum var það gæfa Íslendinga að öflugur danskur baráttumaður fyrir íslenskunni, Rasmus Christian Rask, gerðist brautryðjandi í baráttunni og tókst, ásamt Fjölnismönnum, - sem voru réttir menn á réttum stað og réttum tíma, - að bjarga "ástkæra ylhýra." 

Mest munaði um þá heppni að snjallasta skáld og íslenskumaður sögunnar, Jónas Hallgrímsson, notaði snilligáfu sína til að smíða stórkostlega góð íslensk nýyrði þar sem þeirra gerðist þörf. 

Á þessum tíma var áhrifamönnum í Danmörku ljóst mikilvægi íslenskra fornbókmennta fyrir danska og norræna menningu og það hafði drjúg áhrif. 

Nú má sjá marga nota nýjasta hernaðinn gegn íslenskri tungu til að amast við svonefndri fjölmenningu og saka hana um að ráðst gegn íslenskunni. 

En það þarf ekki að skyggnast mikið um til að sjá, að við Íslendingar höfum reynst fullfærir um þennan hernað með barnalegri aðdáun og snobbi varðandi enskri tungu. 

Svo langt gengur þetta, að atburðir í landnámssögu Bandaríkjanna og hátíðisdagar þar í landi tengdir landnáminu vestra, eru látnir verða að upptöku tyllidaga á borð við Black Friday og Cyber Monday, og Íslendingar sjálfir standa óstuddir að því að kasta Flugfélagi Íslands og Nýherja fyrir borð og taka upp Iceland Air Connect og Origo í staðinn. 

Og varla verður opnað svo dagblað að Tax free og Outlet sé flaggað. 

Nú er enginn hliðstæða Rasmus Rask í augsýn til að leggjast á árar við varðveislu málsins, enda er vandamálið heimatilbúið og okkar sjálfra að leggjast á árar til verndar okkar merku þjóðtungu.  


mbl.is Allir tapa ef íslenskan glatast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegt að það kosti sitt að falla á prófunum.

Þegar ferðamannastraumurinn til Íslands fór að vaxa með dæmalausum hraða 2011 var aðstaða Íslendinga lík því sem er hjá unglingi, sem þarf að hefja nám þar sem gangast þarf undir próf á hverju ári. 

Íslenska prófið fólst í ígildi þess að standast próf í nýju og flóknu námsefni árlega. 

Námsefnið lá fyrir ef skoðað var hvernig aðrar þjóðir hafa farið að því að verjast afleiðingum mikillar umferðar og ágangs á jafn viðkvæmum svæðum og hér eru á þann hátt að náttúruverðmætin væru varin, innviðir byggðir upp og skammtímagræðgi ekki látin ráða. 

Skemmst er frá því að segja að þegar ástandið á hliðstæðum ferðamannaslóðum erlendis er borið saman við ástandið hér, höfum við falli árlega á þessum prófum, og það kostar sitt að falla á prófum. 

Núna eru til dæmis liðin fjögur ár síðan þáverandi ferðamálaráðherra lagði fram hugmyndir um svipaða aðgangsstýringu og grundvöll og hefur reynst mjög vel í amerískum þjóðgörðum, en þessar hugmyndir Ragnheiðar Elínar og aðrar voru kyrfilega kveðnar í kútinn. 

Það sem nú er "eytt" í þessi mál hér er innan við eitt prósent af tekjunum, sem ferðaþjónustan gefur af sér. 

Meðan slíkt er látið viðgangast er samdrátturinn óumflýjanlegur og raunar æskilegur, úr því að við vildum hvorki læra neitt af öðrum né gera neitt til að koma í veg fyrir ófarir. 

Hægt er að nefna fjölda erlendra ferðamannasvæða sem eru alveg eins viðkvæm og jafnvel enn viðkvæmari en svæðin hér og samt með mun meiri eftirspurn en hér er. 

Því er í grundvallaratriðum mætt annað hvort með vandaðri umgjörð, skipulagi og verndaraðgerðum í formi innviðauppbyggingar eða með ítölu eða takmörkunum á umferð. 

Miðað við hin nánasarlegu og nískulegu framlög hér á landi og enga beitingu ítölu né nokkra yfirsýn yfir verkefnið stóra, er einkunn okkar á prófunum undanfarin ár langt fyrir neðan lágmarksframmistöðu.  


mbl.is Allt að 50% færri bókanir en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun dýpri upplifun en á bíl.

Eftir að hafa verið mikið hjólafrík til 19 ára aldurs og hjólað bæði upp í Norðurárdal og austur yfir fjall, kom langt hlé hjá mér, ef frá er talin ferð á reiðhjóli milli Egilsstaða og Fljótsdals 1969. Náttfari við Engimýri

Síðan kom 56 ára hlé þar til rafreiðhjólið Náttfari kom til sögunnar. Það reiðhjól er hægt að knýja áfram á fernan hátt: 1. Með fótafli eingöngu. 2. Með rafafli eingöngu í gegnum not handgjafar. 3. Með samtvinnun fótafls og rafafls. 4. Með samtvinnun fótafls og rafafls í gegnum handgjöf. 

Fyrstu ferðirnar sumarið 2015 voru út á land voru fjórar sunnanlands, einu sinni upp í Hveradali, einu sinni til Hveragerðis, eitt sinn til Þorlákshafnar, og eitt sinn frá Selfossi austur á Hvolsvöll. 

Næst var hjólað á Náttfara frá Akureyri upp í Bakkaselsbrekku, en lengsta ferðin á landsbyggðini var 18. ágúst á rafreiðhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur um Hvalfjörð, 25 klst nettó en 40 klst brúttó með sex tíma næturstoppi og 9 tíma hleðslustoppum samtals. 

Svona farartæki hafa yfirburði yfir öll önnur hvað varðar kostnað og kolefnisspor. 

Orkukostnaðurinn án nokkurs fótafls er 0,25 krónur á kílómetrann, eða 25 krónur á hundraðið, eða sem svarar 0,12 lítrum af bensíni á hundraðið.  

Það er allt önnur og dýpri tilfinning sem fylgir því að hjóla heldur en að aka. 

Bæði gefst miklu betri tími til að njóta og upplifa, en einnig fylgir því alveg sérstök nautn að finna fyrir vindi, regni og sól eftir atvikum og heyra hljóð náttúrunnar truflunarlaust. 

Ógleymanleg verður ferðin á Náttfara upp Þelamörk og Öxnadal, þar sem maður heyrði jafnvel tíst í ungum, nýskriðnum úr eggjum í síðdegiskyrrðinni. 

Næsta upplifunn kann að verða sú, að fara á hraðskreiðara rafhjóli þar sem útivistin á hljóðlausu farartækinu seytlar inn í upplifunina. 2015-honda-pcx150-9_800x0w

En því miður skortir enn á að framleidd hafi verið nógu langdræg rafhjól. 

Ástæðan er fyrst og fremst þyngd rafhlaðnanna, sem eru svo miklu stærri hluti af heildarþyngd hjóls en bíls. 

En nú fer að styttast í stórt framfarastökk í því efni.Honda PCX rafhj. 

Þegar hafa verið framleidd rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum, þannig að hægt sé að skipta þeim út á orkuhleðslustöðvum líkt og gaskútum, setja tómar rafhlöður inn og taka hlaðnar út. 

Kerfi skiptistöðva fyrir taivönsk Gogoro rafhjól er komið á höfuðborgarsvæði Tapei á Taivan, sjá neðstu myndina.

Í haust kemur Niu N-GTX rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum, hraðagetu upp í 100km/klst, og drægni upp í allt að 180 km, en þá á mun minni hraða. 

Hægt að spila saman drægni og hraða, fara kannski 60 km vegalengd á 90 km hraða eða ca 150 km vegalengd á 45 km hraða. 

En stóra fréttin er sú, að á þessu ári má búast við Honda PCX hjóli á markaðinn, sem er af sömu gerð og létta "vespu"vélhjólið mitt, nema að það verður bæði hægt að fá það sem rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum og sem tengiltvinnhjól. 

Á myndinni í miðið eru rafhlöðurnar bláleitar þar sem áður var 20 lítra farangurshólf, en smá hólf verður afgangs þar fyrir aftan.  Gogoro

 


mbl.is „Með paradís allt í kringum okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband