Hafi verið afsökun er hún löngu, löngu úrelt.

"Ef fyrir hendi er gæðingur, verður honum hleypt." Þetta var ein af afsökununum hér í gamla daga fyrir því að fara í kappakstur á götum og vegum, og einnig var það notað sem skýring, að Ísland væri eina landið í Norður-Evrópu þar sem engin aðstaða væri fyrir akstursíþróttir eftir alþjóðlegum reglum, sem giltu í öðrum löndum. 

Fyrstu fjögur árin sem ég hafði bílpróf, kom það fyrir að kitla pinnann, en með tilkomu góðaksturskeppni 1963 var því háttalagi snarhætt sem betur fór.  

Senn verður liðin hálf öld frá því að stofnað var til akstursíþróttafélaga með möguleikum á keppni á vélknúnum farartækjum af ýmsum gerðum á fullkomlega löglegan hátt. 

Raunar er enn lengra síðan að Vélhjólaklúbburinn Elding var stofnaður, og það var meira að segja lögreglumaður sem gekk undir heitinu Siggi Palestína, sem stofnaði klúbbinn með unglingum, sem vildu reyna færni sína og vélfáka sinna, sem voru að mestu skellinöðrur. 

Sigurður var lögreglumaður á bifhjóli, sem tók hlutverk sitt alvarlega en sýndi á hinn bóginn fágætan skilning á löngun ungra manna til að taka fáka sína til kostanna.

Tengd frétt á mbl.is er um "spyrnukeppni" í Kópavogi, sem engin afsökun er fyrir, vegna þess að fyrir hendi er Kvartmílubraut í Kapelluhrauni, þar sem hægt er að stunda slíkt á löglegan hátt, en einnig er hægur vandinn að fletta upp í erlendum bílablöðum og yfirlitsritum og sjá þar tölur yfir hröðun bíla.   


mbl.is Á 148 km hraða í spyrnukeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðum lík elíta að eigin dómi?

Fróðlegt yrði ef einhver gæti kannað það til hlítar hvernig þróun launa hefur verið hjá forstjórum í ýmsum mismunandi greinum atvinnulífsins borið saman við laun undirmanna þeirra. 

Ofurlaunin og ofurbónusarnir hafa verið réttlætt með því hvers mikils virði störf þessara forstjóra hefur verið fyrir afkomu og rekstur fyrirtækjanna og að það sé eðlilegt að þeir fái sérstaka umbun þegar vel gengur. 

Hins vegar eru dæmin mýmörg um það að þegar reksturinn hefur gengið erfiðlega hefur þessi samtenging hagnaðar og launa stjórnenda ekki verið talin í gildi, en sjálftaka og sérhygli í fyrirrúmi. 

Sjá mátti í fjölmiðli fyrir nokkrum dögum að laun 28 forstjóra í bankakerfinu væru samtals jafnmikil og næmi öllum barnabótum ríkisins. 

Og laun upp á milljón á viku þekktust. 


mbl.is „Þetta eru goðsagnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi eru um núll stig dómnefnda. Ari fékk 15 stig frá dómnefndum.

Íslenska lagið í Eurovision setti ekki met í fáum stigum dómefnda þótt illa gengi. Dæmi eru um að land eins og Noregur hafi hlotið alls ekkert stig. 

Ari Ólafsson er góður og efnilegur söngvari og ekkert út á flutning hans á laginu að setja, en lenti í því að verða í riðli, þar sem hann varð neðstur meðal of margra jafningja, sem treystu allir /öll á háa og dramatíska tóna í lögunum, sem þau fluttu. 

Það var einfaldlega offramboð af slíkum lögum á þriðjudagskvöld og því fór sem fór, úr því að íslenska lagið stóðst hinum lögunum ekki snúning að mati áhorfenda. 

Það er hvorki ástæða til þess að örvænta né að breyta í grundvallaratriðum um fyrirkomulag keppninnar hér heima. 

Þegar litið er á umfang þess sjónvarpsefnis og umræðu, sem söngvakeppnin fær, auk allra þeirra ca 200 laga, sem send eru inn í hana hér á landi ár hvert, verður að líta bæði á tekjuhlið í formi auglýsinga og dagskrárefnis og á gjaldahliðina. 

Þá er hætt við að erfitt sé að benda á annað sjónvarpsefni sem gefur betur af sér. 

Keppnin er mikil örvun og hvatning fyrir íslenskst tónlistarfólk og skilar miklu meira af sér en sést og heyrist á yfirborðinu. 

 

 

 

 


mbl.is Ísland hafnaði í neðsta sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband