Ruglingur og ringulreið síðan 2010.

Samfelld og ör fjölgun ferðamanna síðan 2010 ætti að vera búin að skapa grundvöll fyrir heillegri og vandaðri stefnu í reglum og skipulagningu varðandi þjónustu og samskipti við hinn mikla ferðamannafjölda, að ekki sé nú talað um nauðsyn verndunar náttúruverðmætanna og gerð nauðsynlegra innviða vegna hinna miklu umsvifa. 

En hver höndin virðist uppi á móti annarri og ruglingur og ringulreið ríkjandi víða um land. 

Hugmyndin um náttúrupassa var steindrepin fyrir fjórum árum með samstilltu átaki furðulega ólíkra hópa sem töldu það, sem erlendis væri tilefni til að telja passahafa "stolta þátttakendur", væri þvert á móti tákn um "niðurlægingu og auðmýkingu" hér á landi. 


mbl.is Sérstakt eftirlit við Hraunfossa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýnið eitt í Rvík nálgast milljón fermetrinn, á hálendinu er talan núll.

Sífellt er verið að minna okkur á það, hve óskaplegt dýrmæti sé fólgið í útsýni í Reykjavík, svo að nú selst fermetrinn með góðu útsýni á "vel á aðra milljón króna", sem þýðir, að mismunurinn einn varðandi útsýnið er að nálgast milljón á fermetrann.DSCN9665 

Á sama tíma lifum við tíma, þar sem enn gildir það, sem ákveðið var með Kárahnjúkavirkjun, að útsýni á hálendi Íslands eða annars staðar utan byggðar skyldi metið á núll krónur. 

Þessi hugsun skín alls staðar í gegn í mati á náttúruverðmætum. 

Hér á opnum ársfundi Landsvirkjunar segir ráðherra í ræðu, að valið í þessum málum hafi staðið á milli nýtingar og verndunar. 

Í því felst að virkjanir feli í sér nýtingu og þar með tekjur, en verndun alls ekki og sé þar með ekki krónu virði. DSCN9669

Svona rétt eins og að ósnortin og einstæð náttúra, sem um 80 prósent erlends ferðafólks segjast vera komin til Íslands til að njóta, sé ekki krónu virði.  


mbl.is Þakíbúð á rúmar 400 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má aðeins annar aðilinn "bera fé á" heimamenn?

Nú hefst skyndilega umræða um að það, að þegar einstaklingur, sem á engra beinna hagsmuna að gæta, býðst til að kosta óháða rannsókn á mismunandi möguleikum á umgengni við náttúruverðmæti, sé hann að bera fé á heimamenn. 

Þeir, sem þetta segja nú, hafa hins vegar ekki nefnt það einu orði í áratugi hvernig risastór alþjóðafyrirtæki hafa boðist til að kosta alls kyns óskyldar framkvæmdir ef þau fá í staðinn vilja sínum og beinum pengingahagsmunum framgengt. 

Listinn er mjög langur. Þegar Kárahnjúkavirkjun var á koppnum var sett upp stórt auglýsingaskilti við vegamót Kverkfjallaleiðar hjá Möðrudal þar sem stóð að Kárahnjúkavirkjun gæti orðið forsenda fyrir stofnun þjóðgarðs! 

Alcoa hefur veitt og veitir ýmsa styrki til óskyldra verkefna eystra sem eru aðeins örlítið brotabrot af þeim tugmilljarða skattfríðindum, sem fyrirtækið nýtur samkvæmt orkusölusamningi, sem gengur ofar stjórnarskrárvörðu valdi Alþingis í skattamálum. 

Þegar sótt var fast að virkja neðri hluta Þjórsár hér um árið var virkjun sögð forsenda fyrir því að komið væri á þráðlausu símasambandi á svæðinu. 

Í Árneshreppi hefur Vesturverk boðist til ýmissa fjárframlaga svo sem við sundlaug, hafnaraðstöðu, veg o. fl. sem þó eru örlítið brot af komandi gróða virkjunaraðilans en gætu skipt heimamenn einhverju. 

 


mbl.is Risastór virkjanafyrirtæki svífast einskis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útileguhelgin, sem hefur svo oft komið of snemma.

Meðalhiti í Reykjavík í kringum 20. maí er innan við sjö stig. Það er álíka heitt, eða öllu heldur kalt og er að meðaltali síðast í september þegar útihátíðir sumararsins eru vel að baki. 

Samt erum við Íslendingar haldnir svo heitri þrá eftir því að fara í útilegur og halda útihátíðir að hér á árum áður var ár eftir ár reynt að halda slíkar hátíðir með afar misjöfnum árangri, svo ekki sé meira sagt.

Voru fregnir af slíku hátíðahaldi oft að mestu um vandræði, vosbúð og ölvun. 

Í textanum "Á útihátíð" á diskinum "Sumarfrí", safndiski nr. 4 á "Hjarta landsins" syngur Matthías Matthíasson um þetta stuð af mikilli innlifun, meðal annars þennan miðhluta: 

 

Íslenska veðrið er samt við sig, 

sífellt að gleðja mig og þig. 

Ef voða flott er tjaldið, þá vinsælt að er

að láta vindinn rífa það ofan af sér. 

 

Og ofan af himninum fossar þá flóð

sem í faðmlögum kælir sjóðheitt blóð

og bindindismenn geta´ei barist því gegn 

að verða blautir af því sem er kallað regn. 

 

Það er vel útilátið

á útihátíð, á útihátíð, 

á útihátíð, á útihátíð, 

þar sem allir komast í stuð. 

 

Gaman verður að sjá hvernig útkoman verður í veðrinu, sem er spáð um hvítasunnuna núna og virðist ætla að koma of snemma, - einu sinni enn. 


mbl.is Spáir leiðindaroki á hvítasunnudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband