Leikið lausum hala. Eftirlitsstofnanir "hafa engin úrræði."

"...hefur engin úrræði..." er gegnumgangandi setning, sem notuð er í útskýringum stofnana, sem eiga að hafa eftirlit í umhverfismálum á Íslandi. Skaftárfossar

Nú er það verksmiðja United Silicon í Helguvík, sem þetta hefur átt við, en í áratugi hefur rányrkja og ill meðferð beitilands á Íslandi viðgengist vegna þess að Landgræðsla Íslands "hefur engin lagaleg úrræði" til að beita í líkingu við þær heimildir, sem Fiskistofa hefur í sambærilegri meðferð á fiskistofnum landsins. 

Verksmiðjunum sjálfum hefur verið falið að annast loftmælingar og virkjanaaðilum hefur verið falið að sjá sjálfum um mat á umhverfisáhrifum. Skaftárhraunkvíslar

Til þess velja þeir þær verkfræðistofur, sem duglegastar eru í að hagræða staðreyndum og fela þær og hafa sérhæft sig í þessu. 

Allt er morandi í þessu, og þar er við löggjafarvaldið að sakast, ráðandi stjórnmálaöfl hér á landi. 

Eitt af fjölmörgum dæmum er það hvernig ekki er minnst einu orði á þau náttúruverðmæti, sem eyðilögð yrðu með Búlandsvirkjun þegar Skaftá verður veitt úr farvegi með einstaklega fallegu kvíslamynstri í gegnum Skaftáreldahraun við Skaftárdal og fimm fallegir fossar hverfa, sem heldur er ekki minnst orði á. 

Myndin hér að ofan er loftmynd af hluta þeirra og fyrir neðan hana er önnur mynd með hluta af kvíslanetinu, en hvorugt þessara fyrirbæra, sem erlendir ljósmyndarar hafa hrifist af í ferðum með mér, er talið vera til samkvæmt skýrslu hinnar "sérhæfðu" verkfræðistofu. 


mbl.is Engin úttekt á búnaði verksmiðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri staða fyrir Dag en við síðustu kosningar? Sósíalísk undiralda?

Samkvæmt skoðanakönnun Gallup myndi flokkafjöldinn í borginni gefa Samfó og Pírötum færi á að mynda einir meirihluta í borgarstjórn, sem er vænlegri staða fyrir Dag en var í síðustu kosningum. Þá þurfti hann tvo flokka með sér en þarf nú aðeins einn, þótt samanlagt meirihlutafylgi næðist hvorki með einum meðreiðarsveini né tveimur.  

2014 greip hann til þess ráðs að kippa Pírötum með Bjartri framtíð og Vinstri grænum til að styrkja meirihlutann, en nú þarf hann aðeins Pírata og VG, og Viðreisn hefur misst þá oddaaðstöðu, sem hún hafði í síðustu skoðanakönnun. 

Fylgistap VG og sérkennileg fylgisaukning Sósíalistaflokksins eru merki um undiröldu óánægju með verkalýðsforystuna og stjórnarforystu VG sem hefur birst í róttækum forystuskiptum í stærstu verkalýðsfélögunum að undanförnu. 

Eyþór Arnalds hefur að vísu dregið fram þann veruleika, að of fáar íbúðir hafa verið byggðar, þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða, en á móti kemur, að hann lofar lækkun skatta á sama tíma sem fara á í að efna fokdýr kosningaloforð. 


mbl.is Sjö flokkar næðu inn manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert nýtt að líkja innflytjendum við dýr - Hitler líkti gyðingum við rottur.

Oft snýst stefna stjórnmálamanna um það að afla sér fylgis, með því að skipta fólki í hvítt og svart, nánar tiltekið í tvo hópa: "Við" og "þau", eða "við" og "hinir." 

Þetta getur snúist upp í harða aðskilnaðarstefnu með tilheyrandi múrum milli "okkar" og "þeirra." 

Aðskilnaðarstefnan sést í ýmsum birtingarmyndum. Hún var stunduð í suðurríkjum Bandaríkjanna langt fram eftir síðustu öld, og teygði anga sína meira að segja langt út fyrir þau. 

Þegar Nina Simone átti að koma fram sem undrabarn í tónlist í kirkju í Fíladelfíu var foreldrum hennar skipað að sitja aftast í kirkjunni, af því að þau voru blökkufólk. 

En sú stutta neitaði að spila nema þessu yrði hnekkt. Henni var ekki fyrirgefið þetta og var meinað að útskrifast sem konsertpíanisti frá tónlistarskólanum vegna hörundslitar hennar. 

Nokkrum dögum fyrir andlát hennar fékk hún heiðursnafnbót og afsökun frá skólanum. 

Trump heimtar að reisa múr á landamærunum við Mexíkó á þeim forsendum að innflytjendur úr suðrir séu þvílíkt hyski, að þeir séu líkari dýrum en mönnum. 

Hliðstætt orðalag stuðlar að því að afla sér fylgis með því að benda á aðsteðjandi ógn frá "þeim", það er, hreinum skepnum og glæpahyski. 

Slíkt orðfæri á sér langa sögu.  Þegar Hitler vildi leysa svonefnd "gyðingavandamál" Evrópu líkti hann gyðingum við rottur eða meindýr, sem þyrfti að útrýma. 

Hér er aðeins verið að tala um orðfæri af þessu tagi, því drápsæði Hitlers á sér enga hliðstæðu. 

Æ ofan í æ tekst forystumönnum ríkja að fylkja þjóðum sínum að baki sér með því að finna sameiginlegan ytri óvin og sýna fram á nauðsyn þess fyrir þjóðina að eiga "sterkan" leiðtoga. 

Hugsanlega er Vladimir Pútín slægasti forystumaður heims, jafnvel töfrandi í viðkynningu á sinn hátt, -  svo mjög, að í hugum meirihluta þjóðar hans og margra útlendinga kemur enginn annar til greina við að stjórna landi hans, jafnvel á þann hátt sem sumir fyrri stjórnendur Rússlands fengu viðurnefnið "mikli" eða "mikla" fyrir.   

 


mbl.is Trump líkti farandfólki við dýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband