Brauð, leikir, að fá að taka þátt í ævintýri og verða "einn af þeim".

Keisararnir og yfirstéttin í Rómaveldi gættu þess vandlega að lýðurinn fengi "brauð og leiki." 

Alþýðan sylti ekki og ætti kost á að vera þátttakandi í dýrum sýningum í Colosseum  og öðru tilstandi valdhafanna. 

Hve oft hefur ekki verið gagnrýnt það dýra sjónarspil sem er í kringum konungsfjölskyldur Bretlands og annarra konungsríkja Evrópu? 

Hve miklu betur þessum bruðlpeningum væri varið í annað?

Enn þrátt fyrir rökfasta gagnrýni heldur konungsfjölskyldan með öllu sínu prjáli og bruðli velli. 

Það er eitthvað sálfræðilegt á bak við þetta, eins og var forðum í Róm. 

Eitt af því, sem velta má upp, er ákveðinn tvískinnungur í röðum lágstétta og öreiga, sem felst í draumnum um að fá að öðlast ríkidæmi og völd og verða "einn af þeim". 

"Ameríski draumurinn" spilar inn á þetta. Í brjóstum flestra býr nefnilega þrá eftir að verða flugríkur og lifa í vellystingum, verða hluti af "þeim", þ. e. hinum ríku og valdamiklu. 

Bryndís Schram lýsti þessu á athyglisverðan hátt í skrifum um það hvernig sumir af fátækasta fólkinu í Reykjavík, meðal annars þeir, sem bjuggu í "Pólunum", sem var hrörleg timburblokk þar sem nú er Valssvæðið, en Flugvallarvegurinn lá fyrrum um, einmitt fram hjá Pólunum. 

Þegar Friðrik Danakonungur kom í heimsókn til Íslands 1955, lenti hann á Reykjavíkurflugvelli og eina leiðin þaðan í bæinn lá fram hjá Pólunum. 

Þá voru þeir gerðir að eins konar Pótemkintjöldum, flikkaðir upp og málaðir að framanverðu, þótt þeir væru sama hreysið bakatil. 

Og íbúarnir bjuggust í sitt fínasta púss til að standa fyrir framan og veifa kóngkaslektinu. 

Árum saman naut lunginn af fólkinu sem þarna bjó ekki atkvæðisréttar og var í raun annars flokks þjóðfélagsþegnar. 

Síðan kom þó að því að mótspyrna auðstéttarinnar gegn því að þetta "hyski" fengi þessi réttindi var brotin á bak aftur með breytingu á lögum í boði flokka sem komust til valda á Alþingi og kenndu sig við alþýðu og framsókn. 

Þá brá svo við, að margir af þessum stigum fátæklinga á borð við þá sem bjuggu í Pólunum, skröpuðu saman aurum fyrir flottum klæðnaði, klæddu sig upp á kjördegi til að fara á kjörstað þannig útlitandi, að halda mætti að svokallað "fyrirfólk" væri á ferð, neytti nýfengis kosningaréttar síns með stæl á borð við hina ríku og lýstu því jafnvel yfir í heyranda hljóði, að þeir ætluðu að kjósa þá, sem hefðu áður barist gegn þessum réttindum!  

Jú, það blundar sennilega í flestum þráin til að "verða maður með mönnum", verða í vinningsliði. 

Það er sama hve fátækt fólk er eða illa statt, að í gegnum sjónvarp eða jafnvel með því að fara til Windsor, getur það orðið hluti af hinum hátimbraða draumi um glys, glingur, dýrindi og því að velta sér upp úr auði og vellystingum. 

Þrátt fyrir hinn yfirgengilega mun á kjörum konungsslektisins eru kóngafólkið samt í hugum margra í svipuðu sambandi við þegnana og gildir í nánum fjölskyldusamfélögum. 

Þetta eru þeirra drottning, þeirra prinsar og þeirra ríkiserfingjar, sem milljónum finnst þeir vera í beinu sambandi við. 

Þetta kom mjög vel í ljós varðandi Díönu prinsessu og ekki síður þegar Georg Bretakonungur kom þannig fram af hugrekki og samkennd með þegnum sínum í Seinni heimsstyrjöldinni, að það sameinaði þjóðina og myndaði sterk tengsl á milli kóngaslektsins og almúgans að konungsfólkið heldur enn velli. 

Enn í dag virðist draumurinn í gömlu ævintýrunum um kóng, drottningu og prinsessu í konungshöllinni andspænis karli, kerlingu og syni í koti sínu, vera furðu lífseigur. 

Hinn gamli Öskubuskudraumur. 

Ein af elstu minningum mínum frá frumbernsku var þegar ömmur mínar lásu fyrir mig ævintýri um syni karls og kerlingar í koti. 

Önnur amma mín fylgdist náið með öllum málefnum í Danmörku og gegnum dönsk blöð og timarit, þar með talið málefnum þáverandi konungs Íslands, Kristjáns tíunda og fjölskyldu hans. 

Það fylgdi með í frásögnninni af þeim, að konungsdóttirin væri jafnaldra mín og það þurfti oft minna en það til þess að ímyndunaraflið færi á kreik á þessum bernskuárum.  

 


mbl.is Athöfnin engri annarri lík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útnes lýsir svæðinu best, er stutt nafn og laggott, rökrétt og auðskilið.

Á ysta hluta Reykjanesskaga eru tvö nes. Annað þeirra, sýnu stærra en hitt, er norðan línu frá Höfnum yfir í botn Stakksfjarðar og ber heitið Miðnes eða Rosmhvalanes. Ysti hluti þess heitir Garðskagi. 

Yst á Reykjanesskaga, um 12 kílómetra í suðvestri frá þessari línu, er mun minna nes Reykjanes, og heitir ysti hluti þess Reykjanestá. 

Sameiginlegt heiti þessara nesja og þar með ysta hluta Reykjanesskaga er Suðurnes. 

Reykjanesskagi er út af fyrir sér rökrétt heiti á þessum stóra skaga, af því að ef dregin er bein lína eftir Reykjanesfjallgarðinum, sem liggur eftir endilöngum skaganum, endar hún úti á Reykjanesi, fjarri Reykjanesbæ. 

Allt var þetta rökrétt og auðskilið. 

En á síðustu áratugum hefur ruglingur með þetta allt farið vaxandi og sér ekki fyrir endann á því, heldur er verið að bæta í. 

Eftir tilkomu Reykjaneskjördæmis var farið að tala um Reykjanesskagann allan sem Reykjanes og jafnvel er nú orðið farið að tala um að Bláfjöll, Selvogur og Krýsuvík séu á Reykjanesi. 

Og nú bætist við efni í enn meiri rugling.  

Á syðri hluta Miðness, vestan Stakksfjarðar, voru sveitarfélögin Keflavík, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík, sem fengu eftir sameiningu heitið Reykjanesbær, sem er ruglandi nafn í meira lagi, af því að þetta sveitarfélag liggur langt frá Reykjanesi. 

Heitið Miðnesbær hefði verið nær lagi. 

Bæjarfélögin Sandgerði og Garður eru á ytri hluta Miðness og það væri því fullkomlega rökrétt að kalla það sveitarfélag Útnes eða jafnvel Útnesbæ, enda oft talað fyrrum um Útnesjamenn.

Heitið Útnesjamenn eða Útnesingar þarf ekki að fela í sér neikvæða merkingu eins og sumir halda fram, heldur voru þetta fyrrum einhverjir hörðustu sjósóknarar landsins eins og vel kemur fram í ljóðinu og laginu Suðurnesjamenn. 

Þar er túlkuð vel sú virðing sem var borin fyrir þessum köppum sem sóttu sjóinn svo fast og sækja hann enn.  

Hinum megin við suðurströnd Faxaflóa er bærinn Akranes og íbúar hans eru kallaðir Akurnesingar. 

Það væri því fullkomlega rökrétt að þarna kölluðust á Útnes og Útnesingar annars vegar, og  Akranes og Akurnesingar hins vegar. 

Akurnesingar eru stundum kallaðir Skagamenn, af því að Skipaskagi er annað heiti á Akranesi. 

Kannski mætti leika sér með heitið Garðskagamenn um þá, sem búa á Útnesi eða í Útnesbæ. 


mbl.is Óvissa um nafnið þrátt fyrir kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband