"Útlit fyrir litla rigningu í dag? Jæja? "Það rignir alltaf."

Í dag stóð til að taka nokkrar æfingalendingar hjá mér um fjögurleytið í dag, enda "útlit fyrir litla rigningu" eins og segir í tengdri frétt mbl.is og sama var að sjá á spákortum, sem sýndu úrkomu innan við einn millimetra. 

En annað kom á daginn. Það var eins og allar flóðgáttir opnuðust á fjórða tímanum og ekkert varð af lendingunum, enda varð rigningin 10 millimetrar nú síðdegis.

Viðbrögð við þessu í söng liggja nokkuð beint við hjá mér. 

Eitt af 72 lögum á 4 diska safndiskinum "Hjarta landsins" ber nefnilega heitið "Hann rignir alltaf" og textinn er 416 ára gamall, eftir William Shakespeare, nánar tiltekið lokasöngur í leikritinu "Þrettándakvöld. 

Þetta er elsti textinn á safndiskinum. 

Herranótt sýndi leikritið 1959 og Helgi Hálfdanarson þýddi það. 

Halldór Haraldsson, þá nemandi við skólann, samdi lag sem hefur oftast verið kennt við hirðfíflið Fjasta og nefnt Söngur Fjasta. 

Gegnumgangandi setning í söngnum er "...og hann rignir alltaf dag eftir dag." 

Ég stökk með Hauki Heiðari Ingólfssyni í hljóðver til að syngja lagið aftur 60 árum eftir að ég söng það í Herranótt og breytti laginu lítillega til þess að tengja betur á milli erinda og auka á vægi "húkk"-setningarinnar "...hann rignir alltaf." 

Það er nefnilega ótrúlega mikill hluti upprunalega textans, sem fjallar um veðrið í hverju erindi:  "...hann rignir alltaf dag eftir dag..."  og  "hæ, hopp, út í veður og vind." 

Þegar ég hafði samband við Halldór Haraldsson var hann alveg búinn að gleyma að hann hefði samið lagið, sem sungið var 1959, baðst í fyrstu undan því að vera tengdur við eitthvað sem hann myndi alls ekki eftir. 

Hann samþykkti þó það, að maður sem hefði sungið þetta lag sérstaklea einn á tugum sýninga og æfinga hlyti að muna eftir því, og niðurstaðan var að skrifa okkur báða fyrir laginu. 

Hér kemur textinn, en lagið mun verða sett á facebook-síðu mína nú á eftir.    

 

Ég var lítill angi með ærsl og fjör, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

og stundaði glens og strákapör - 

- og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir...

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

en klækjarefum er kastað á dyr - 

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir, rignir...

 

Mér varð til gamans að gifta mig - 

hæ, hopp út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir rignir, rignir ....

Hæ, hopp, út í veður og vind! 

 

Ég hátta prúður í hjónasæng, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Og brennivínsnefi bregði í væng - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir ...

 

Hæ, hopp út í veður og vind! 

 

Sem veröldin forðum fór á kreik, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Enn vöðum við reyk, nú er lokið leik, 

en við lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu dag eftir dag. 

 

Og hann rignar alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag

út í veður og vind, - 

dag eftir dag! 

 


mbl.is Heggur nærri rigningarmetinu í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunaði landsbyggðarþingmenn þetta 1999?

Íslensk kjördæmaskipan hefur frá upphafi byggst á þeirri skoðun, að pólitísk hagsmunamál væru það ólík eftir byggðum og landsvæðum, að til þess að sem nánast og best samband næðist milli kjósenda og fulltrúa þeirra í fulltrúalýðræði, ætti að skipta kjósendum eftir búsetusvæðum. 

Í C-nefnd stjórnlagaráðs voru uppi ólík sjónarmið í þessu. Þrjú dæmi. 

1. Landið ætti allt að vera eitt kjördæmi. 

2. Landið ætti að verða mörg kjördæmi eftir búsetusvæðum.

3. Skipta mætti kjósendum eftir menntun, störfum, menningarhópum og áhugamálum eins og að skipta þeim eftir landsvæðum og landsháttum. 

Þegar kjördæmum var fækkað 1999 úr átta niður í tólf var reynt að hafa þau sem jafn fjölmennust. 

Ein undantekning var þó á, fjölgun á einum stað:

Reykjavík, sem er eitt sveitarfélag, var skipt niður í tvö kjördæmi, alveg á skjön við fækkun kjördæma. 

Rökin voru meðal annars þau, að borgin bæri slíkan ægishjálm yfir önnur kjördæmi varðandi mannfjölda og miðlæga stöðu, að það þyrfti að sporna við því. 

Enn skrýtnari var þó skipting Reykjavíkur. Í stað þess að virða sjónarmiðið varðandi ólíka hagsmuni og viðhorf eftir landsvæðum og skipta Reykjavík um Elliðaár, - í vesturborgina annars vegar og úthverfin hins vegar, - var ákveðið að skipta henni eftir endilöngu, til þess að koma í veg fyrir að "kjördæmahagsmunir og kjördæmapot" væru stunduð í höfuðborginni! 

Sagt var að landsbyggðarþingmenn svokallaðir vildu þetta, en fékkst aldrei staðfest, enda hefði með staðfestingu á þeim orðrómi fengist upplýst að myndun kjördæma hefði í för með sér kjördæmapot í ljósi kjördæmahagsmuna. 

Skoðanakönnunin, sem sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is, staðfestir hins vegar að kjósendur skynja ólíka hagsmuni eftir því hvort þeir eiga heima í vesturhluta borgarinnar eða í úthverfunum. 

Einmitt það! Það skyldi þó ekki vera að landsbyggðarþingmenn hafi grunað þetta í lok síðustu aldar? 


mbl.is Ólík viðhorf eftir búsetu í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Látið ekki karlinn komast upp með þetta!"

Sumum leikmönnum í boltaíþróttum eru gefnir hæfileikar til þess að "lesa" stöðuna í leiknum og vera ævinlega á þeim stað þar sem boltinn kemur. 

Einn knattspyrnumaður fyrr á árum, sem hafði þennan hæfileika, var Ellert Schram. 

Hann var einn af þessum "klettum í vörninni", batt hana saman, stjórnaði spilinu og stöðvaði sóknir andstæðinganna.  

Var herforinginn á sínum vallarhelmingi. 

Ellert var um nokkurra ára skeið í útvarpsráði og kom einu sinni inn í lið Sjónvarpsins í árlegum leik við KEA þegar þessi fyrirtækjalið mættust á Melavellinum. 

Þá voru liðnir um tveir áratugir frá því að hann hætti að keppa, en hann hafði greinilega engu gleymt þegar komið var á Melavöllinn til að fást við knáa KEA menn, sem á tímabili státuðu af landsliðsmönnum úr ÍBA. 

Í fyrri hálfleiknum stöðvaðist hver sókn norðanmanna af annarri á Ellerti, oftast á höfði hans, þar sem hann virtist ævinlega geta stokkið hærra upp en aðrir, bæði á eina hárrétta augnablikinu og eina hárrétta staðnum. 

Fóru smám saman að heyrast formælingarhróp frá áhorfendum, sem höfðu komið með liðinu að norðan: "Látið ekki kallinn fara svona með ykkur!" "Stoppið þið helvítis kallinn!"  "Látið ekki kallinn komast upp með þetta!"

Ef ég man rétt varð rekistefna út af því í hálfleik að Ellert væri að spila með RÚV-liðinu vegna þess að hann væri ekki fastráðinn starfsmaður þar. 

Ekki man ég hver úrslit þess máls urðu, en Ellert spilaði ekki aftur með liðinu. 

Ég spilaði innanhússbolta með hópi um margra ára skeið í hópi, þar sem þeir Ellert og Óli Schram voru meðal þátttakenda. 

Betri og ljúfari menn var ekki hægt að finna á vellinum, hvort sem þeir voru með manni í liði eða ekki. 

Því svæsnara sem orðbragðið varð í köllum áhorfenda á leik KEA og RUV, því betur og ljúflegar spilaði Ellert. 

Ég reikna með að ókvæðisorðin hafi hljómað eins og dýrlegt tónverk í eyrum hans. 

Því fyrirbæri kynntist ég þegar ég var hálffimmtugur enn að keppa í rallakstri og flestir keppinautarnir voru mun yngri. 

Einu sinni heyrði ég út undan mér að einhver hinna yngstu sagði í hálfgerðum formælingartóni við aðra ungliða í hópnum: "Djöfull keyrir helvítis kallinn!" 

Þetta hljómaði eins og dýrlegt hól og var eins og hrein vítamínssprauta.  


mbl.is „Hún er náttúrulega 1,87!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband