Pawel er laginn í samstarfi.

Nú, þegar Viðreisn er í afar sterkri oddaaðstöðu í borgarstjórn, verður forvitnilegt að sjá hvernig borgarfulltrúar flokksins spila úr sínum spilum. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur reynslu af ýmiskonar vettvangi, sem kann að koma sér vel í borgarstjórn, og Pawel Bartoszek hefur getið sér gott orð hvað varðar samningslipurð og lagni í stjórnmálastörfum. 

Um það get ég borið varðandi formennsku hans í C-nefnd stjórnlagaráðs, þar sem fyrirfram virtist vonlaust að komast að niðurstöðu vegna flækjustigsins varðandi kosningar og kjördæmi og ekki síður vegna þess hve gríðarlegur skoðanamunur var á milli nefndarmanna í upphafi. 

Meira að segja hafði í erindisbréfi stjórnlagaráðs verið lögð blessun yfir að engu yrði breytt í þeim málum. 

En fyrir sakir eindregins vilja nefndarmanna til þess að vinna sig fram til niðurstöðu, sem drægi fram sem flesta kosti mismunandi sjónarmiða, heits áhuga nokkurra nefndarmanna á þessu snúna sviði og ekki síst vegna þess að í nefndinni voru tveir stærðfræðingar, sem telja mátti mestu sérfræðinga á þessu sviði hér á landi, Pawel og Þorkel Helgason.

Farið var í víðtæka könnun á skipan þessara mála í öðrum löndum, en útkoman varð séríslensk lausn, sem byggði þó að sumu leyti á þeirri hollensku.  

Fyrirfram vissi ég að Pawel var í mörgu hægra megin í pólitíska litrófinu, en í vandasömum störfum sínum sem formaður, stóð hann sig að mínu mati afburða vel og sýndi mikla lipurð og sanngirni. 

Afraksturinn af góðu starfi kom bæði nefndarmönnum og öðrum stjórnlagaráðsfulltrúum þægilega á óvart. 

Það tókst að koma fram afnámi misvægis atkvæða og upptöku persónukjörs auk möguleika á því að kjósandi gæti skipt atkvæði sínu á þann hátt að það stæðist "álagspróf" þeirra Þorkels og Pawels.   

Ég hygg að þegar tímar líði fram muni kosningakaflinn verða talinn einn sá merkasti meðal lýðræðisþjóða.  


mbl.is Kominn í draumastarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi Sósíalistaflokksins vekur athygli. Refsing til handa Vg.

Í vetur hefur Sósíalistaflokkurinn verið eins konar athlægi margra sem hafa velt sér upp úr fylgisleysi flokksins. 

Annað er uppi á teningnum nú. Hann er risi miðað við Vinstri græn, sem bíða afhroð. 

Þetta slæma gengi Vg hefur lítið með frambjóðendur Vg að gera, heldur er þetta augljóslega landspólitíkin, sem spilar inn í, flokkurinn er klofinn að þessu leyti um landsmálin, og hin óánægðu í honum finnst borgarstjórnarkosningarnar ágætt tækifæri til að gefa honum risastórt gult spjald og refsa honum fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. 

Í minni er lágt ris á Alþýðuflokknum í kosningum til bæjarstjórnar Reykjavíkur 1958 þegar flokkurinn var í vinstri stjórn, sem átti í erfiðleikum. 

Kratar guldu fáheyrt afhroð í þeim kosningum, en í tvennum kosningum 1959 réttu þeir heldur betur úr kútnum og sigldu inn í breytt stjórnarsamstarf sem entist í 13 ár. 

Núna liggja línurnar talsvert öðruvísi en 1958 til 1959 og orsakir atburðarásarinnar eru flóknari. 

Megin atriðið er þó óánægja með árangur í landspólitík. 

1958 var Sósíalistaflokkurinn gamli, sem hét raunar Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn, ekki með sérstakt framboð, það síðasta var 1954, fyrir 65 árum, árið eftir að Stalín dó. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband