Pútínspillingin blasir alls staðar við og meirihluti Rússa í raun meðvirkur.

Það, að Pútín skuli hafa þá stöðu sem hann hefur í Rússlandi segir mikið um það hvílíkt tak hann hefur á meirihluta þjóðarinnar. 

Gögnin blasa við, "Rússland Pútíns" eftir Önnu Politskovskaja, sem hún var drepin fyrir, íslenskur vinkill í frásögn Ingimars Ingimarssonar í bókinni "Sagan, sem varð að segja" og nú síðast fróðlegir þættir í sjónvarpi. 

Ekkert í fyrsta þættinum kom á óvart varðandi mafíósann Pútín og meira að segja í fyrrakvöld datt ég í eina mínútu inn í sýningu, þar sem við blasti hvernig Pútín hyglir vinum sínum úr ólíkustu áttum og felur meira að segja gömlu júdófélaga sínum að standa fyrir brúnni miklu milli Rússlands og Krímskaga. 

Spillingin og kúgunarástand blasa hvarvetna við en í risastóru landi þar sem "sterkir" og "miklir" leiðtogar hafa litað þjóðarsöguna öldum saman og verið æ síðan í hávegum hafðir, er eins og að þessu sé tekið sem eins konar samfélagslegu náttúrulögmáli. 

Andstæðingar keisarans slæga og skarpa með sína miklu persónutöfra og íðilsnjalla framkomu eru kúgaðir, fjarlægðir og drepnir með hæfilega löngu millibili til að ekki sé um hreina Stalíniska ógnaröld að ræða en þó nægilega sterk skilaboð um það, hvers sé máttúrinn og dýrðin. 

Og þetta virðist nægja,  auk þess sem Pútín og aðrir þjóðarleiðtogar eru iðnir við kolann að búa til ástand, þar sem auðvelt er að gefa Pútín til að sameina þjóðina getn utanaðkomandi ógn. 


mbl.is Rússneskur blaðamaður myrtur í Kiev
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sama hver á í hlut.

Það er ekki sama hver á í hlut þegar um skráningu fólks á lögheimili er að ræða og meðferð Þjóðskrár á slikum málum. 

Árum saman hefur það viðgengist að ráðherrar og þingmenn flytji lögheimili sín á staði, sem þeir koma varla á. Þjóðskrá lætur óátalið. 

Einn komst til dæmis á þing og í ríkisstjórn í gegnum pólítíkina í einu af nágannabæjarfélagi Reykjavíkur, innvígður og gróinn þar, en flutti síðan lögheimili sitt óátalið austur fyrir fjall til þess að geta hirt á aðra milljón króna í styrk vegna langrar vegalengdar á milli þings og heimilis. 

Annar var forsætisráðherra og búsettur í Reykjavík, en flutti skyndilega yfir á eyðibýli austur á landi, nokkurn veginn eins langt frá þinginu og hægt var. Allt í góðu með það og ráðherranum tryggður árlegur búsetustyrkur upp á ca níu mánaða ellilaun láglaunamanneskju. 

Söngur Bubba:  "Þingmaður og svarið er: Jaaaaáá" kemur upp í hugann.  

Ofbeldismenn flytja lögheimili sín léttilega inn á gafl hjá ofsóttum konum og börnum. Þjóðskrá hafnar því að blanda sér í málin. 

Síðan blasir við að þegar nokkrir einstaklingar flytja lögheimili sín norður í Árneshrepp, þá er allt í einu brugðist skjótt við og send lögregla inn á viðkomandi heimili til þess að kveða meintan ósóma niður varðandi lögheimilaflutninginn.  


mbl.is Ofbeldismenn flytja lögheimili án afleiðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smábarnamál í fjölmiðlum hjá háskólamenntuðu fólki?

Það færist í vöxt hjá íslenskum blaðamönnum að tala eins og lítil börn, sem eru að læra móðurmál sitt en eru komin skammt á veg. 

Þetta málfar er oft ekki aðeins frumstætt, heldur beinlínis órökrétt svo að úr getur orðið tómt rugl. 

Ágætt dæmi um þetta er tengd frétt á mbl.is um það að óður maður, vopnaður hnífi, réðst á tvo lögreglumenn í borginni Liege í Belgíu, náði af þeim skotvopnum þeirra og skaut þá síðan. 

Í upphafi er raunar talað um lögreglukonur sem samt talað um þær í karlkyni. 

Hingað til hafa aðeins börn notað eftirfarandi orðbragð, sem lesa má í þessari frétt: 

"...réðst á lögreglu vopnaður hnífi, náði af þeim byssunum og skaut þá með þeirra eigin vopni."

Hér er í það minnsta þrefalt rugl á ferðinni. 

Orðið lögregla er aðeins til í kvenkyni eintölu, en samt er talað í fréttinni um lögreglu í fleirtölu og karlkyni í orðunum "þeim" og "þá", en ekki er samt fyrr búið að slá því föstu að fleirtala skuli notuð en að talað er um þeirra eigið vopn í eintölu. 

Jafnvel þótt notaður hefði verið greinir í orðinu lögreglu og sagt: "...réðst á lögreglurnar.." gengur dæmið ekki upp þegar búið er að tala um "lögreglurnar" í fleirtölu, því að sagt er að óði maðurinn hafi náð af þeim þeirra eigin "vopni", sem er eintala. 

Um aldir hafa heiti fyrirbæra iðulega verið í öðru hvoru kyninu á Íslandi, þótt bæði hafi verið um kvenkyn eða karlkyn að ræða.

Þannig er heitið kennari í karlkyni, þótt 80 prósent kennara séu konur.

Konur eru nefnilega líka menn. 

Heitið lögregla er samheiti í kvenkyni eintölu, enda segir enginn: "Hann er lögregla", eða "hún er lögregla" eða þaðan af síður "..þau / þeir / þær eru lögreglur." 

En kornung börn eiga það til að tala svona. 

Nú eru tímar háskólamenntaðs fólks og því skyldi maður ætla að háskólamenntað fólk skrifi fréttir, þar sem eina verkfærið er íslensk tunga. 

En kannski er skammt þangað til sjá megi svona frétt í fjölmiðli: 

"Fimm vopnaðar lögreglur voru sendar til að fást við hinn óða mann,  en þegar lögreglurnar komu á vettvang, hræddi maðurinn þá með hnífi og náði vopninu af þeim."    


mbl.is Skaut lögreglu með þeirra eigin vopni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þung og vaxandi undiralda, sem von er.

Hröð fylgisaukning Sósíalistaflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar og það, að samanlagt fylgi hans og Flokks fólksins meira en tvöalt meira en fylgi Vinstri grænna eru merki um vaxandi undiröldu, sem ætti ekki síður að beinast gegn ónýtum stjórnmálamönnum en núverandi verkalýðsforystu. 

Stjórnmálastéttin ber nefnilega alla ábyrgð á ofurlaunahækkunum sínum og helstu forstjóranna, bæði í opinbera geiranum og einkageirunum. 

Stjórnmálastéttin bjó til Kjaradóm og þegar hann setti hér allt á hvolf, hafði hún auðvitað vald til að snúa því til baka, rétt eins og hún hafði nýtt sér vald sitt til að skapa ófreskjuna. 

En það hefur hún ekki gert og undravert er að sjá, hve andvaralaust stjórnmálastéttin er, sem horfir, fljótandi sofandi að feigðarósi, á óánægjuölduna rísa og vaxa, án þess að aðhafast neitt nema að hirða hinar stórfelldu launahækkanir.  


mbl.is Vantrauststillaga samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband