Hátónasamkeppni og "má ég líka vera með á myndinni?"

Þeir voru ansi margir, háu tónarnir sem Ari Ólafsson þurfti að keppa við í kvöld og þótt frammistaða hans væri mjög góð má enginn við margnum. 

Vonir mínar um að hann fengi að vera einn í lokin í nógu löngu og þröngu myndskeiði og láta útgeislun sína "taka salinn" rættust ekki. 

Í staðinn þustu allir bakraddasöngvararnir að honum svo að helst líktist "má ég líka vera á myndinni"-heilkenninu. Myndver Eldhúskrókur

Því miður rættust síðustu setningarnar í laginu "Júróvisionstuðpartí" sem ég gamnaði mér við að setja á facebook um helgina og er þar enn, en þær eru svona eins og þeir geta heyrt, sem skoða það myndband: 

 

"...congratulation and celebration, 

þótt við verðum meðal neðstu einu sinni enn, 

ahahaha!"...

...og ég ætla í Júróvisionpartíi að sleppa mér! Skál!"

 

Og það eru tvö, - já eða minnsta kosti eitt júróvision lokapartí eftir. 

Til gamans set ég hér inn mynd af myndupptökuhljóðverinu í eldhúskróknum að Fróðengi 7, þar sem útlenda formúlan KISS - Keep It Simple Stupid, réði ríkjum. 

Eina statistanum var stillt upp við vegg í orðsins hreinustu merkingu, og til þess að myndavélin gæti staðið kyrr í réttri hæð í staðinn fyrir eina manninn á staðnum, flytjandi höfundur, myndatökumaður, hljóðupptökumaður, upptökustjóri og leikstjóri, voru tiltækir hlutir svo sem bækur, taska, koddar, straubretti o.þ.h. notuð. 

Bjalla af reiðhjóli, sem er jafnan þarna rétt hjá, var notuð í upphafi lagsins og eftir á túlkaði Jónas Þórir Þórisson ímyndaðan undirleik, sem júróvisionpartígesturinn tali sig heyra, og Gunnar Árnason tók upp og hljóðblandaði síðan. Friðþjófur Helgason setti síðan upphafsskilti og enda á þetta þurtfi hið eina samfellda kyrra myndskeið að vera 2:56, svo að tónlistarmyndbandið stæðis Júróvisionkröfur um 3:00 lengd. Kærar þakkir til Jónasar, Gunnars og Friðþjófs auk Gunnars Baldurssonar, sem vissi af ónýtri gínu í hvarfi uppi við rjáfur í geymslu í Útvarpshúsinu og hætti lífi sínu til að klifra upp eftir löngum, mjóum og lausum stiga til að sækja hana og lána mér í þetta verkefni. 

Hún setur deiluna um Nínu í nýtt ljós. Hingað til hefur verið deilt um hvort hún sé lifandi eða dauð en nú kemur upp þriðju möguleikinn: Hún er gína?  


mbl.is Ísland komst ekki áfram í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara þau tvö?

Jæja, þá er tveir opinberir starfsmenn í háum embættum elítunnar búnir að láta lækka laun sín í raun, forsetinn og forstjóri Hörpu, þótt þau notuðu ekki sömu aðferðina.   

Það er ekki einsdæmi að slíkt gerist, því að það var gert í kjölfar Hrunsins 2008 og náði þá yfir alla línuna, ríkisstjórn, þing og aðra. 

Því eru tveir embættismenn nú eins og dropi í hafið og allir hinir topparnir halda sínu striki. Þessir tveir núna hafa hins vegar sýnt, að allar afsakanirnar fyrir því að þetta sé ekki hægt, eru haldlausar, - vilji er allt sem þarf. 

Enda var kerfið, sem bjó til stórhækkun hæstu launa, búið til af elítunni sjálfri. 


mbl.is Vill að laun hennar verði lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er alltaf sama sagan..."

Ofangreind orð voru oft lögð í munn Ragnari Reykási hjá Spaugstofunni í gamla daga. 

Virkuðu að vísu oft hallærisleg, en samt var oft broddur í þeim. 

"Sama sagan" hefur nefnilega ráðið ríkjum hjá háum og lágum í að minnsta kosti tvö ár. 

Hún felst í því að helstu valdamenn þjóðarinnar og hálaunafólk brunar fram úr öðrum í sérhygli í krafti aðstöðu sinnar á meðan allt kerfið vinnur af makalausri smásmygli að því að naga niður kjör þeirra sem minna mega sín. 

Um daginn tók það kunnáttumann um kjör lífeyrisþega og öryrkja langan tíma að telja upp allar þær nánasarlegu og smásmyglilegu aðgerðir sem valdafólkið hefur notað undanfarin misseri til þess að hafa af smælingjunum í smáu og stóru hvaðeina, sem hægt er til þess að rýra kjör þeirra. 

Aðgerðir, sem þekkjast hvergi í okkar heimshluta nema hér. 

Enda sást í yfirliti um framlög til velferðarmála fyrir nokkrum dögum, að Íslendingar eru ekki einu sinni hálfdrættingar á við margar nágrannaþjóðirnar og þarf að fara til Mexíkó til að finna verra ástand. 

Beittar og rökfastar blaðagreinar Björgvins Guðmundssonar hafa líka varpað ljósi á þetta. 

Á sama tíma hefur valdastéttin látið viðgangast kerfisbundnar hækkanir eigin launa, fyrst með dómum Kjararáðs, sem látið var eins og að væri eitthvert utanaðkomandi náttúruafl, en var í raun sköpunarverk Alþingis og stjórnvalda. 

Þegar loks var gert eitthvað í þeim málum var það allt í skötulíki, og það er táknrænt, að aðeins einn þjónn fólksins, forseti Íslands, sagði sig frá þessum ósóma og afsalaði sér hluta af launum sínum.

Þegar láglaunafólkið berst um við að losa fjötra sína, söngla stjórnmálamenn hástöfum um að ekki megi "raska heildinni" á sama tíma sem þeir sjálfir gera það hvar, sem þeir koma því við. 

Rétt er að benda á hvasst blogg Styrmis Gunnarssonar í dag, sem orðar þetta vel. 

 


mbl.is Þjónustufulltrúar í Hörpu segja upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta morðatíðni vesturlanda orðin að fyrirmynd?

Í Bandaríkjunum er tíðni morða miðað við fólksfjölda sú mesta á Vesturlöndum. Einkum eru byssumorð þar tíð og byssueignin sömuleiðis. 

Forsetinn þar er hins vegar í bandalagi við byssueigendur, byssuframleiðendur og byssuseljendur í að tala fyrir enn aukinni byssuegin, en byssutrúarmenn styrkja hann á móti með stórfelldum framlögum í kosningasjóð, sem eru ótakmörkuð með öllu. 

Sú réttlæting að Bandaríkjamenn séu landnemaþjóð (frontier-) stenst ekki þegar litið er á tíðnina í Kanada og Ástralíu sem er miklu minni. 

Það er grátbroslegt þegar forystumaður Bandaríkjamanna kastar úr sínu risastóra glerhúsi steinum á Frakka og Breta og telur eina ráðið fyrir þá til að minnka morðatíðni í þeim löndum að taka sér Bandaríkjamenn til fyrirmyndar! 

Hvað næst? Að taka sér það til fyrirmyndar að Bandaríkin skera sig út hvað varðar fjölda fangelsaðs fólks?  


mbl.is „Fáránlegt“ að líta á byssur sem lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband