Fleiri bakteríur í okkur og á okkur en frumurnar eru í okkur.

Flest okkar vita að í líkama okkar eru milljarðar af frumum af ýmsum gerðum. Hitt vita sennilega færri, að bakteríurnar í okkur og á okkur eru ennþá fleiri. 

Þetta kom mér til dæmis á óvart þegar ég fékk stórkostlega kennslustund í sýklafræðum í innanlandsflugi fyrir meira en áratug hjá sessunaut mínum, sem var sérfræðingur í sýklafræðum. 

Þessi yfirgengilegi fjöldi af bakteríum kann að sýnast ógnvænlegur, ekki síst fyrir bakteríuhrætt fólk, en nær allar þessar bakteríur eru nauðsynlegar á mjög fjölbreyttan hátt, svo sem í meltingunni og við það að halda ónæmiskerfinu við. 

Margar þeirra hafa það hlutverk, að ef þeirra nyti ekki við, gætum við ekki lifað. 

Tengdri frétt á mbl.is fylgir ekki nákvæmur fróðleikur um það, hvers kyns bakteríur það eru, sem handþurrkarar ku dreifa, en minnst er á saurgerla. 

Það minnir mig á það, að þegar ég var drengur í sveit fyrir norðan, var fjósið í kjallaranum í íbúðarhúsinu og hægt að ganga beint þaðan upp í eldhús. 

Það var gengið beint þarna á milli og raunar hægt að fara hringleið upp og niður beint af flórbakkanum, og maður fór tvisvar í bað yfir sumarið. 

Aldrei varð maður nokkurn tíma veikur eða verða meint af því að lifa og hrærast í umhverfi sem var fullt af hvers kyns bakteríum af ýmsu tagi án þess að verða nokkurn tíma meint af. 


mbl.is Sjúga til sín bakteríur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg nýtt fíkniefnaumhverfi.

Nikótín er fíkniefni, það er alveg á hreinu. Tölur úr rannsóknum tala sínu máli, nikótínið hefur lengi trónað efst á lista þeirra fíkniefna, sem erfiðast er að hætta við að nota. 

Talan er 33 prósent, þ. e. þriðjungur þeirra sem byrja að reykja tóbak ánetjast svo mjög, að þeir ráða ekki við fíknina og geta ekki án fíkniefnisins verið. 

Næst fyrir neðan er heóín, með 23% og kókaín kemr næst með 18%. 

Svo erfitt er nikótínið viðfangs, að þegar áfengissjúklingar eða neytendur annarra fíkniefna fara í meðferð, mega þeir sleppa því að fást við nikótínið vegna þess hve erfitt er að fást við það og hve niðurbrjótandi það er að bæta því erfiða verkefni ofan á baráttuna við Bakkus eða önnur fíkniefni. 

Á örfáum misserum hefur umhverfi neyslu fíkniefna breyst mjög hratt, og meira að segja eru breytingarnar í fullum gangi.  

Neyslan í gegnum rafrettur hefur vaxið tvöfalt hraðar en nemur minnkun tóbaksreykinga, sem þýðir, að í grófum dráttum er er í gangi nýliðun upp á mörg þúsund alveg nýtt reykingafólk sem mun þurfa að standa frammi fyrir þeirri áhættu, að geta ekki hætt að reykja rafretturnar. 

Einnig hefur verið mikil hreyfing á neyslu ópíaóðaefna, svo að talað hefur verið um faraldur bæði í Bandaríkjunum og hér á landi. 

Það verður fróðlegt að sjá hverju framvindur í þessum málum, sem eru í mikilli þróun um þessar mundir.  


mbl.is Rafrettufrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump vill trompa Nixon og Kissinger og "heiðra skálkinn."

Heimurinn stóð á öndinni af undrun þegar tilkynnt var um heimsókn Richards Nixon til Kína 1972.

Í Kína ríkti kommúniskt einræði Maos og ógnarstjórn með aðgerðum á borð við "Stóra stökkið fram á við" og "Menningarbyltingu" ásamt fleiri aðgerðum sem kostuðu milljónir manna lífið. 

Bandaríkjamenn höfðu neitað að viðurkenna stjórn kommúnista og meinað Kínverjum inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar.

Í staðinn var viðurkennd stjórn þjóðernissinna, sem hafði flúið til eyjunnar Formósu, síðar Taívan, og fór með aðild Kína að Sþ, sem var auðvitað fráleitt.  

En Henry Kissinger, hinn snjalli ráðgjafi Nixons, lagði ískalt mat á það að líkt og Bandaríkjamenn höfðu sætt sig við að lofa Kastró að vera í friði á Kúbu yrði að viðurkenna raunverulega stöðu stórveldanna í Austur-Asíu og viðurkenna de facto yfirráð kommanna í Kína. 

Það þýddi að sætta sig við að Kína yrði áfram kommúniskt ríki. Raunsæispólitík (real politics). 

Af tvennum slæmum kostum virðist Trump nú velja illskárri kostinn, líkt og stundum hefur verið orðað svona á íslensku: Heiðraði skálkinn svo hann skaði þig ekki.

Kommúnískt alræði hefur verið tryggt í Norður-Kóreu líkt og gert var á áttunda áratugnum í Kína með þíðunni milli Bandaríkjanna og Kína og slökunarstefnu gagnvart Sovétríkjunm.  

Og heimurinn andar léttara um sinn.  


mbl.is Trump og Kim undirrituðu sáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband