"Guð blessi Ísland" ef Messi verður eins og Ronaldo?

Ef Lionel Messi verður í svipuðum ham og Christiano Ronaldo var gegn Spánverjum nú í kvöld, koma hin frægu orð "Guð blessi Ísland" upp í hugann. 

Spánverjar voru öllu betri í æðislegum gæðaleik, sem stóð undir öllum væntingunum fyrir stórleik. 

En í liði Portúgals var einn maður, Christiano Ronaldo, sem lék 100 prósent fullkominn leik að öllu leyti, fiskaði spyrnur fyrir tvö mörk og skoraði öll mörkin þrjú, sem þurfti, þar af ævintýralegt draumamark úr einstæðri aukaspyrnu undir lokin. 

Það kom fram að hann hefði átt hátt á þriðja tug sendinga sem voru allar fullkomnar. 

Hann var í góðu markfæri í eitt skiptið, gaf boltann af fullkominni óeigingirni á félaga sinn, sem fataðist spyrna í dauðafæri. 

Það var engan veikan blett að finna á þessum nýlega kjörna besta knattspyrnumanni heims. 

En við höfum svo sem áður leikið landsleiki á móti Ronaldo, þar sem þáttaka hans í liði andstæðinganna varð til lítils. 

Sá möguleiki er hins vegar fyrir hendi á morgun og eins og rakið hefur verið áður, hafa stórstjörnur áður brugðist vonum gegn íslenska landsliðinu og það getur auðvitað orðið raunin á morgun. 


mbl.is Skúraveður á meðan á leik stendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sum HM hafa ekki orðið HM besta leikmanns heims .

Þegar spáð er að HM 2018 verði HM Messis er djarflega mælt. Oft áður hafa svipuð ummæli verið sögð en alls ekki ræst. 

Dæmin eru mýmörg, og meira að segja hefur þetta verið sagt áður um argentínska liðið eftir að Messi varð annar af tveimur bestu knattspyrnumönnum heims, og líkast til sá besti. 

Ef allt hefði verið með felldu hefði HM 1966 átt að verða mót Peles, sem þá stóð á hátindi getu sinnar. 

En þær vonir hrundu eins og spilaborg, Portúgalinn Eusebio varð stjarna mótsins og útreið Peles og liðs hans svo hrakleg, að vísu að miklu leyti óverðskuldað, að Pele var á báðum áttum varðandi HM 1970. 

En þá varð það mót hans mót. 

Gríðarlegar vonir voru bundnar í Argentínu varðandi HM 1982, varðandi hina rísandi stjörnu Maradona og feikna gott landslið Argentínu. 

En það fór gersamlega á aðra lund. 

Hollendingar með Johann Cryuff sem besta leikmann heims, voru með stjörnulið árum saman en fengu aldrei HM bikarinn. 

Ungverjar höfðu á að skipa langbesta landsliði heims 1950-1956 með Puskas sem besta mann, rótburstuðu Vestur-Þjóðverja í fyrri leik liðanna á HM 1954 en töpuðu naumlega úrslitaleiknum. 

Við Íslendingar höfum orðið vitni að því að erlendum stórstjörnum var spáð stjörnuleik í viðureign við okkur. 

Eftir 14:2 tapið fyrir Dönum 1967 var staðan þannig, að við höfðum ekki unnið einn einasta landsleik við Dani í 24 ár, allt frá því að leikur við þá varð fyrsti landsleikur okkar 1946. 

1970 kom upprennandi stjörnulið Dana til Íslands til að fylgja sigurgöngunni eftir með Alan Simonsen sem manninn, sem myndi gera leikinn að sínum. 

Það fór á aðra lund. Simonsen og félögum hans var alveg haldið niðri og úrslitin urðu jafntefli. 

Þremur árum fyrr hafði Eusibio komið með gullaldarliði Benfica til Íslands til að keppa við Val í Evrópukeppni. 

Met aðsókn var á leikinn en Eusibio komst ekki upp með neinar kúnstir og leikurinn endaði með jafntefli. 


mbl.is Verður keppnin hans Messis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband