Eitt í dag og allt annað á morgun.

Í þrjá aldarfjórðunga hefur Bandaríkjaforseti verið í fararbroddi fyrir vestrænar lýðræðisþjóðir í alþjóðamálum og aflað sér trausts með yfirveguðum ummælum og gjörðum. 

Einstaka sinnum hafa aðstæður þó kallað á stefnubreytingar, svo sem þegar Henry Kissinger og Richard Nixon stóðu fyrir því að taka upp samband við kommúnistastjórnina í Kína. 

Það var þó gert á yfirvegaðan og vandaðan hátt. 

Nú bregður hins vegar svo við að í fjölmörgum málum vita menn ekki deginum lengur hvaðan á þá stendur veðrið varðandi einstæðan hringlandahátt núverandi Bandaríkjaforseta í fjölmörgum málum, þar sem hann kemst ítrekað í hrópandi mótsögn við sjálfan sig, jafnvel daglega. 

Lengi vel bauð hann upp á það að fara út í kjarnorkustríð við Norður-Kóreu, síðan söðlaði hann um og sagði að engin kjarnorkuógn stafaði frá þessu lokaða landi, en segir nú, öllum á óvart, allt annað með því að lýsa yfir því að stórfelld kjarnorkuógn stafi frá landinu. 

Þessi vingulsháttur rýrir að sjálfsögðu trúverðugleika leiðtoga lýðræðisþjóða og vekur ugg og óróa. 

 


mbl.is Áfram ógn af Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarar mótast í ósigrum.

Allir helstu meistarar í íþróttum og í lífinu sjálfu verða ekki aðeins til í sigrum sínum. 

Það er aðeins önnur hliðin á verðlaunapeningi orðstírs og árangurs. 

Hin hliðin er mikilvægari, ósigurinn, og hvernig unnið er úr honum, er mikilvægari, því að án þess að nota ósigurinn til að greina stöðuna og bæta hana, verður aldrei neinn raunverulegur árangur.  

Ali, Pele, Ásgeir, Eiður, Gylfi, Mandela, allt menn sem úrvinnsla úr erfiðleikum og ósigrnum skóp. 


mbl.is Líklega erfiðasta stundin á ferlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerir það Bandaríkin mikilfenglegri að banna góða bíla?

Donald Trump virðist ekki skilja af hverju útlendir bílar seljast svo vel þar í landi sem raun ber vitni. Ekki er það vegna þess að þeir séu svo ódýrir, heldur einfaldlega vegna þess hvað þeir eru góðir og tæknilega vel gerðir og saman settir. 

Strax á sjöunda áratugnum söng Janis Joplin bæn til Guðs um að gefa henni Mercedes-Benz og hitti naglann á höfuðið. 

Þegar Japanir og Þjóðverjar réttu úr kútnum eftir heimsstyrjöldina og fóru að mokselja minni, sparneytnari og endingargóða bíla en amerísku bilanagjörnu bensínhákana á bandaríska markaðnum reyndu Kanar að svara með bílum eins og Ford Pinto, Chevrolet Vega og AMC Pacer, sem í flestum bílabókum eru í minnum hafði fyrir það hve mislukkaðir þeir voru. 

Mercedes-Benz S og Lexus 400 réðust síðan á höfuðvígið sjálft, lúxusbílamarkaðinn, og tóku forystuna þar. 

Gamalgróin gæðamerki frá því um miðja öldina eins og Pontiac, Oldsmobile, De Soto og Plymouth lögðu upp laupana í kringum síðustu aldamót. 

Þeirri aðferð Trumps að stöðva innflutning á útlendum bílum með því að setja á þá eins konar refsitoll, og hækka með því verðið á þeim upp úr öllu valdi má líkja við það að í landsleikjum Kananna í knattspyrnu við erlend landslið, fái aðeins níu menn að vera í útlendu liðunum og það muni "gera Bandaríkin stórfengleg á ný."   


mbl.is Hótar 20% tollum á evrópska bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband