"Íslandsbaninn" orðinn "Króatíubaninn"?

Í byrjun útsláttarkeppninnar á EM 2016 skoraði Paul Pogba dýrmætt mark gegn Íslandi, sem gerði í raun út um vonir okkar til að komast lengra. 

Nú endurtekur hann leikinn hér með því að hefja sókn með draumasendingu og enda sóknina sjálfur með frábæru marki. Og rétt á eftir bætir hinn eldingarhraði samherji hans við öðru marki. 

Ef hægt var að tala um Paul Pogba sem "Íslandsbanann" frá EM 16 væri hægt að bæta Króatíu við Ísland. 

En rétt í þessu var besti markvörðurinn á HM fram að þessu, fyrirliði franska liðsins, að gera ótrúleg mistök og viðhalda markaregninu sem þegar er komið í þessum fjöruga úrslitaleik. 


mbl.is Frakkar eru heimsmeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðaástand flesta júlímánuði þessara ára.

Gott er að valmennið Pétur Guðfinnsson, fyrsti framkvæmdastjóri Sjónvarpsins, er enn á lífi og að hægt sé að ræða við hann um hið sérstæða fyrirkomulag hér á landi, að engar sjónvarpsútsendingar væru í júlímánuði hátt í tvo áratugi fyrstu starfsár þess. 

Pétur var maður sátta og skilnings, og enda þótt hann hefði engan áhuga á íþróttum í upphafi, geta ég vottað um það, að hann kunni að meta viðleitni mína til þess að setja framsetningu íþróttaefnis í sjónvarpi í sem áhugaverðastan og skemmtilegastan búning. 

Hann fór persónulega með mér á árangurslausan fund með þáverandi útvarpsstjóra til þess að fá endanlegt samþykki hans fyrir því, sem búið var að ganga frá að öllu leyti: Að vera með fyrstu beinu útsendinguna úr Laugardalshöll. 

Svarið var: "Nei." Rðkin: "Úr því að þetta er nýjung segi ég nei." 

Og það tafðist um nokkur ár að þessi hræðilega nýjung yrði tekin upp. Í staðinn reyndi ég að hafa beinar útsendingar úr sjálfum sjónvarpssal á íþróttum, sem rúmuðust inni í þessu gamla viðgerðarsal Bílasmiðjunnar. 

Þar urðu til viðburðir eins og þegar þeir Skúli Óskarsson og Jón Páll Sigmarsson hrópuðu upp sín frægu orð á borð við "Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál!" 

Eins og sjá má á fundargerðum útvarpsráðs á þessum árum var við ramman reip að draga varðandi einstaklega forneskjuleg viðhorf ýmissa áhrifamanna, sem sýndu íþróttum og íþróttaefni lítinn skilning og afgreiddu slíkt sem lágmenningu og ómerkilegt efni. 

Áður en vandaræðaástandið myndaðist 1982 hafði hið óframkvæmanlega prinsíp varðandi algera lokun sjónvarpsins í júlí í raun verið brotið nokkrum sinnum, beint eða óbeint, til dæmis beint við fyrstu tunglferðina 1969 og óbeint við komu Danadrottningar til Íslands 1972. 

Ég hyggst við hentugt tækifæri segja frekari "skemmtisögur" af þessu ástandi síðar. 


mbl.is Vildi senda RÚV á Þjóðminjasafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband