Trump líklegur til að "taka Harley-Davidson á" BMW og fleiri?

Donald Trump sagði um daginn að hann myndi setja alveg sérstaka refsitolla eða skatta á Harley-Davidson fyrir að ætla að flýja með framleiðslu sína frá Bandaríkjunum til að vera samkeppnisfærir í Evrópu. 

Til að "gera Ameríku máttuga á ný setti Trump meira en 200 prósenta tolla á innfluttar smáþotur frá Kanada, af því að Kanadamenn eru greinilega ekki þess verðugir að vera taldir með Ameríkönum sem geri Ameríku máttuga á ný. 

Glæpur þeirra fólst í því að höfða til ákveðins markhóps kaupenda á 70-140 farþega þotum með nýrri og hugvitsamlegri hönnun, sem áður hefur verið lýst hér á síðunni. 

Sem sagt: Hiklaust refsað fyrir amerískt hugvit og hönnunarsnilli ef hún kemur ekki frá Bandaríkjunum. 

Nú framleiða bílaverksmiðjur í eigu BMW, Benz og fleiri 1,8 milljón bíla árlega í Bandaríkjunum, og Trump hyggst gera Ameríku máttuga á ný með því að hrekja þessa framleiðslu úr landi! 

 


mbl.is BMW flytur hluta framleiðslunnar frá BNA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stærsta vandamál mannkynsins." Bravó, Trump!

Haft er eftir Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í frétt í Fréttablaðinu í morgun, að kjarnavopn séu stærsta vandamál mannkynsins. 

Bravó, Trump! Það var mál til komið að einhver kvæði upp úr með þetta, þótt það blasi raunar við og hafi gert það í hálfa öld. 

Því að þetta er ekki aðeins hárrétt heldur er grundvallarkenningin á bak við hina hrikalegu kjarnavopnaeign Bandaríkjamanna og Rússa fáránlegasta undirstaða í heimspólitík sem um getur í mannkynssögunni. 

Árið 1983 munaði hársbreidd að hafið yrði gereyðingarstríð sem hefði getað drepið allt líf á jörðinni, eða í það minnsta allt mannlíf. 

Bilun í tölvu í aðvörunarkerfi Sovétmanna olli því, að á skjánum birtist fjöldi eldflauga á leið frá Bandaríkjunum til Sovétríkjanna, og umhugsunarfresturinn til að ákveða gagnárás, var talinn í mínútum. 

Sem betur fór ákvað maðurinn, sem var á vakt við aðvörunarkerfið, að hunsa viðvörunina og veðja frekar á bilun en að hinn herskái Reagan hefði látið hefja árás. 

Með þessu tók maðurinn fram fyrir hendurnar á yfirvöldum í Moskvu og var rekinn fyrir bragðið. 

Undirstaða svonefnds ógnarjafnvægis felst í þeirri forsendu að hvor aðilinn um sig geti trúað hinum til að hefja árás og fékk heitið og réttnefnið MAD (Mutual Assured Destruction), lauslega þýtt GAGA á íslensku (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra). 

Til þess að gereyðingin sé algerlega tryggð eiga kjarnorkuveldin nú nægilega mikið af kjarnavopnum til geta eytt óvinaþjóðinni fimm sinnum hið minnsta! 

Og Trump sagði skömmu eftir valdatöku sína að þjóðaröryggi Bandaríkjanna væri ekki tryggt nema að að Kanar gætu eignast það miklu stærra vopnabúr en Rússar, að þeir gætu eytt Rússum einu sinni oftar en Rússar gætu eytt Bandaríkjamönnum! 

Og þar með eytt öllu mannlífi, - eins og það sé einhver huggun hvort maður geti verið drepinn oftar en einu sinni!   


mbl.is Þungt yfir leiðtogunum við upphaf fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Donald Trump, mesti yfirburðamaður á öllum sviðum í sögu mannkyns?

Jú, þetta er þessi maður að eigin sögn,  eins og glögglega má sjá á 2ja mínútna myndbandi, þar sem hann fullyrðir að hann viti nánast alla hluti betur er nokkur annar og sé þar með mesti yfirburðamaður í mannkynssögunni. 

Á netinu hefur verið auðvelt að setja saman 2ja mínútna þulu Trumps, þar sem hann segir fullum fetum að enginn standi honum framar á neinu sviði, hann sé yfirburðamaður í nánast hverju sem er. 

Sennilega hefur aldrei heyrst annað eins frá nokkrum manni í veraldarsögunni. 

Ferill Trumps sýnir hvernig hann hefur alla tíð í krafti síns yfirgengilega stærilætis og hroka efnt til stanslausra illinda og átaka við allt og alla til þess eins að upphefja sjálfan sig. 

Þessi ferill er til dæmis varðaður gjaldþrotum, þar sem Trump hefur samt talið sig hafa farið ævinlega með frækilegan sigur af hólmi. 

Hann hefur meira að segja unnið sigra fyrirfram, svo sem með því að þakka sér það núna, að NATO samþykkti fyrir nokkrum misserum að hækka framlög til hermála. 

Í Bretlandsheimsókn sinni og víðar á opinberum vettvangi lítilsvirðir Trump gestgjafa sína með því að ryðjast fram fyrir þá og gera sig sem breiðastan, sjálft mikilmennið. 

P.S. Nú hefur frést að Pútín láti Trump bíða eftir sér í Helsinki. En Trump á eftir að fara létt með að vinna í hverri þeirri störukeppni sem þar verður boðið upp á.  

 


mbl.is ESB versti óvinur Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegt ástand á Reykjanesskaga og víðar.

Meðferðin, sem Reykjanesfólkvangur og skaginn almennt hefur hlotið af mannavöldum er hræðileg.

Það var ekki tilviljun að fyrstu blaðagreinina um umhverfisspjöll á Íslandi ritaði Sigurður Þórarinsson 1949 og fjallaði hún um svæði, sem nú hefur verið sett í ruslakistu rammaáætlunar, þ.e. Krýsuvík. 

Umhverfisóhiraðan, sem Sigurður skrifaði um, fól í sér smámuni eina miðað við þau spjöll, sem ætlunin er að vinna Krýsuvíkursvæðinu og bæta gráu ofan á svart með því að stunda svipaða rányrkju og stunduð hefur verið á núverandi gufuaflsvirkjunum á skaganum. 

Um allan skagann blasa við svo fjölbreytt spjöll að undrum sætir. Margir fallegrir gígar hafa til dæmis verið eyðilagðir með græðgisfullri og skeytingarlausri malartöku. 

Um allar koppagrundir má sjá ljótar slóðir og för eftir bíla, ofbeit hefur eytt gróðri á stórum svæðum og hafin er herför gegn Eldvörpum, einu gígaröðinni á öllum vesturhelmingi Íslands, sem er svona löng og mögnuð. 

Þar á að herða á þeirri miklu rányrkju á jarðvarma til raforkuframleiðslu, sem hefur orðið til þess að land hefur sigið stórlega og sjór gengið á land vestan við Grindavík. 

Gott dæmi um eðli spjallanna eru nöfnin sem krotuð voru í mosann efst í Vífilsfelli fyrir svo löngu, að þau eru mér í barnsminni og halda enn velli. 

Víða að Fjallabaki má sjá ljótar slóðir í mosa, sem halda velli svo áratugum skiptir. 

 


mbl.is „Sum hjólför hverfa ekki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband