"Búið að klippa af manni nafnnúmerin".

Fyrir allmörgum áratugum kom einn vinur minn til mín og sagði sínar farir ekki sléttar. 

Kannski hef ég sagt þessa sögu einhverntíma áður hér á blogginu eða facebook, en það gerir lítið til.

Þessi vinur minn hafði tapað öllum skilríkjum sínum í bruna á Grænlandi og sagði að hann fengi ekkert af þeim aftur. Stæði hann nú í stappi við yfirvöld og það væri ekkert grín að hafa ekki lengur nein skilríki, til dæmis hvorki ökuskírteini né vegabréf.

"Það er fjandi hart að það skuli vera búið að klippa af manni nafnnúmerin" sagði hann, en á þessum árum var fyrirbærið kennitala ekki komin til sögu, heldur var hver maður með fjóra tölustafi í svonefndu nafnnúmeri.  

Á því tímabili sem svona stóð á fyrir manninum,  stöðvaði lögregla hann eitt sinn eftir að hann hafði ekið yfir gatnamót á umferðarljósum, og töldu lögreglumennirnar hann hafa ekið á rauðu ljósi. 

Vinur minn harðneitaði sök og neitaði líka að gefa upp nafn, enda þyrfti hann þess ekki og gæti það hvort eð er ekki, því að það "væri búið klippa af honum nafnnúmerin." 

Stóð hann fast á sínu, og var því handtekinn og færður í fangaklefa. 

Þar dúsaði hann í heila viku og er viðlíka uppákoma líkast til einstæð á Íslandi. 

Loks fór þó svo, að þegar vinur hans, sem vann á Reykjavíkurflugvelli eins og hinn horfni, frétti af því að hans væri saknað úr vinnu, leitaði hann til lögreglunnar, fór niður á stöð og bar kennsl á hann. 

Fékk hann nafnnúmerslausa þverhausinn leystan úr haldi án frekari málalenginga, enda málið ekki síður orðið pínlegt fyrir lögregluna en fangann. 

 


mbl.is Var „ekki til“ í norsku þjóðskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smámunir miðað við drekkingu Hjalladals.

Ríflega 10 milljón rúmmetrar, sem fóru í berghlaupi eða skriðu hálfa leið yfir Hítardal á dögunum, er gríðarlegt magn. Fagraskógarfjskriða.

Þó verður að telja það smámuni miðað við mannanna verk á Norðausturhálendinu.Leirfok, Kárahnjúkar

Hér er átt við það magn jökulaurs sem árnar Jökla og Kringilsá hafa verið á fullu við að fylla upp 25 kílómetra langan og allt að 180 metra djúpan dal á norðausturhálendinu, þar sem áður voru 37 ferkílómetrar af gróðurlendi og góðu beitilandi fyrir fé, auk einstæðra jarðmyndana í formi stórfenglegasta hjallalandslags hér á landi og litfagurra gljúfra í botni dalsins. 

Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum var áætla að 5 milljónir rúmmetra af jökulaur bærust í lónið á hverju sumri. 

Það þýðir 60 milljón rúmmetra síðan byrjað var að sökkva dalnum, eða 120 milljón tonn. 

Við það er siðan að bæta, að vegna mjög hlýnandi veðurlags og aukins graftrar hins minnkandi Brúarjökuls má ætla að þetta magn geti verið tvöfalt meira og sé þegar orðið meira 200 milljón tonn. Hálslón, Kárahn.stífla 17.8.18

Hálslón var sýnt sem blátært og gagnsætt vatn fyrir virkjun en er í raun risavaxinn drullupollur, þar sem skyggni í vatninu er innan við 10 sentimetrar. 

Þegar ísa leysir af vatninu í júníbyrjun eru um 35 ferkílómetrar lónstæðisins á þurru, þaktir fíngerðum leir og sandi, sem myndar leirstorma einmitt bestu veðurdagana, þegar hlýr hnjúkaþeyr stendur úr suðri í heiðskíru veðri. 

Sér þá stundum varla handaskil við lónið.  Þetta ástand getur komið alveg fram yfir miðjan júlí, en þá fer auða svæðið minnkandi jafnframt því sem hækkar í lóninu. Hálslón,landgr. 17.8.18Kringilsá. Vor 2010.

Loftmyndin var tekin viku af júlí þegar lónið hafði hækkað talsvert, en samt sjást stíflurnar ekki og rétt grillir í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk. 

18. júlí síðastliðinn, þegar neðri myndirnar voru teknar, var vatnsstaðan fimm metrum hærri en venjulega á þeim tíma, eða svipuð og hún er venjulega í lok júlí eða byrjun ágúst. 

Daginn eftir að þessar myndir voru teknar dró Völundur Jóhannesson, "nágranni" minn á Brúaröræfum, fánann í hálfa stöng til að minnst undirritunar viljayfirlýsingar við Alcoa 19. júlí 2002 sem innsiglaði örlög Hjalladals. 

Næstneðsta myndin er tekin skömmmu eftir að ísa leysti 2010 og sést þar, að gljúfur Kringilsár, sem hlaut heitið Stuðlagátt vegna stórfenglegra stuðlabergshamra skömmu fyrir drekkingu, er þegar orðið hálffullt á aðeins þremur árum. 

Neðsta myndin er tekin júlíbyrjun uppi á bakkanum fyrir neðan Töfrafoss, sem þá var sokkinn. 

Á öllu svæðinu sem þarna er sandi orpið, var gróið land fyrir drekkingu.  

Fólk í sandi v.Kringilsá


mbl.is Svæðið á hreyfingu fyrir skriðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gigtarsjúkdómar" eru svo fjölbreytilegir, að orðið "gigt" er stundum vafasamt.

Svonefndir gigtarsjúkdómar virðast mun algengari og fjölbreytilegri en flesta grunar. 

Oft tengjast þeir ónæmiskerfinu, til dæmis með því að um sjálfsónæmi er að ræða. Heitið slitgigt, sem upphaflega var nefnt í nefndu tilfelli,  getur því verið rangnefni. 

Við sjálfsofnæmi eru notuð svipuð lyf og gegn krabbameini, sem virka á ónæmiskerfið.

Miklar framfarir hafa orðið í gerð lyfja og meðferð þeirra en það viðfangsefni eitt og sér getur verið misjafnt í samræmi við breytilegar aðstæður.

Hefur til dæmis verið haft á orði, að hver Parkinsonsjúklingur sé með sérsakt tilfelli af þeim sjúkdómi. 

Það getur valdið því að lyfjsmaðferð, sem hentar einum sjúklingi, henti alls ekki öðrum. 

Lyfjalækningar, svo sem við krabbameini, geta verið svo vandasamar, að leita þurfi á náðir gervigreindartölvu til þess að finna réttu meðferðina. 

Nýlega var afar fróðleg umfjöllun um það í þættinum 60 mínútur.  

Það eru ævinlega slæm tíðindi þegar jafnvel fólk á besta aldri fá svona sjúkdóma. 

Ég hef trú á mætti hugarins og það eina sem við hin getum gert, sem á þetta horfum, er að senda borgarstjóranum okkar og ððrum, sem glíma við svipað og hann, heitar bænir og hlýjar óskir. 


mbl.is Dagur með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er orðið alveg nóg í bili.

Sjöfjöldun erlendra ferðamanna á Íslandi á aðeins átta árum á sér líklega enga hliðstæðu hvað umfang snertir í sögu þjóðarinnar. 

Vegna hinnar sérkennilegu blöndu af græðgi og nísku sem einkennir okkur, erum við að klúðra þessum málum herfilega, þannig, að hætta er á slæmu bakslagi, sem er verri kostur en lítilsháttar samdráttur, sem gerir öllu þjóðfélaginu kleyft að anda og segja: Þetta er orðið alveg nóg í bili. 

Fjölgun ferðafólks á stöðum með svipuð náttúruverðmæti og Ísland, svo sem í þjóðgarðinum Yellowstone í Bandaríkjunum, hefur að vísu verið mikil síðustu 20 ár. 

Ferðamönnum i Yellowstone hefur fjölgað úr tveimur milljónum í 3,2 milljónir og þykir varla mega vera meiri.

Það er að vísu drjúg fjölgun, en samt 10 sinnum hægari en hér.  


mbl.is Ferðamenn voru 2,7 milljónir í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband