"Náttfari," rafreiðhjólið sem breytti lífsstíl og sló á fordóma.

Hér er smá skýrsla um stöðuna í verkefninu "Orkuskipti - koma svo!", sem hófst í apríl 2015.   

"Náttfari",rafreiðhjólið sem breytti lífsstíl mínum 2015 og kvað í kútinn fordóma í garð reiðhjóla og vélhjóla, sem höfðu myndast á hálfrar aldar hjóllausi tímabili, er nú búið að fara í endurnýjun lífdaga eftir dapra daga í kjölfar slæms hjólaslyss í apríl 2016. Náttfari og Léttir.

Síðustu þrjú ár hefur engin vika verið án notkunar þessa hjóls og létta "vespu"vélhjólsins "Léttis" sem er Honda PCX 125cc hjól, svo framarlega sem ég hef verið heill heilsu. 

Náttfari er búinn að fara 3000 kílómetra og Léttir tæp 12000, helming í borginni og helmingin út um allt land. 

Fyrir daga Náttfara hélt ég að ég ætti heima of langt austur í bæ, í norðausturhluta Grafarvogshverfis, og að ég yrði alltof lengi í ferðum og veður og færð yrðu óyfirstíganleg.Náttfari við Engimýri

Allt reyndist þetta samt vel yfirstíganlegt og sparnaðurinn að sjálfsögðu því meiri sem rafreiðhjólið þurfti að fara lengri vegalengdir.  

Við undirbúning rafhjólsferðar frá Akureyri til Reykjavíkur sumarið 2015, ofhitnaði rafmótor Náttfara í Bakkaselsbrekkunni, af því fyrirfram krafan fyrir þessa ferð var sú að nota fótaflið ekki neitt og fara þessa ferð fyrir 115 krónu orkukostnað. 

Myndin af honum er tekin við Engimýri, áður en lagt var á Öxnadalsheiðina, búið að fjölga mótorum úr einum upp í fjóra. Sörli í Olís, Borgarnesi, tölva o.fl.

En við það þyngdist hann um 10 kíló, og eina leiðin til að komast á Náttfara upp Bakkaselsbrekkuna var að fara hana í kröppum krókabeygjum zikk-zakk að næturlagi, og af því var nafn hjólsins dregið. 

Hjólið gafst upp efst í brekkunni, og ferðin var farin á heppilegra rafhjóli með utanáliggjandi gíruðum mótor sem Gísli Sigurgeirsson smíðaði og nefndi Sörla. 

Á myndinni hefur Sörli komist suður í Borgarnes og verið að hlaða hann og knapann orku, auk þess sem unnið er við tölvu í sambandi við ferðina á borðinu á bak við hann. 

Ekki var handbært fé til að kaupa nýjan mótor í Náttfara, en Gisla Sigurgeirssyni tókst að laga brunna lóðningu í mótornum og koma honum til lífs til bráðabirgða, en býsna döprum. Náttfari í Elliðaárdal

Auðséð var að hann ætti ekki langt líf fyrir höndum. 

Eftir harða ákeyrslu bíls á hjólið á gangbraut í apríl 2015, mátu tilkvaddir sérfræðingar það svo fyrir tryggingarfélag bílstjórans, að það myndi kosta 185 þúsund krónur að gera við hjólið, sem hafði kostað 250 þúsund krónur nýtt. 

Ég notaði þetta fé í kaup á vespuhjólinu "Létti" sem kostaði 450 þúsund kall nýtt og breiddi hjólabyltingu mína um allt land þar sem hægt var að fara um þjóðvegina á sama hraða og bílar, en með 60% minni eyðslu en sparneytnustu bílar.Léttir, Djúpavogi 

Hringinn á rúmum sólarhring fyrir 6500 kall 2016 og 2000 km, bæði hringinn og Vestfjarðahringinn 2017 í einum rykk með hljómflutningskerfi og tölvu til tónleikahalds, kynninga á safndiskinum "Hjarta landsins", blogg- og facebookskrifa með myndum jafnóðum úr ferðinni. 

Myndin er úr þeirri ferð, tekin á Djúpavogi. 

Léttir varð nú aðalfarartækið hjá mér og kolefnisfótspor mitt til persónulegra ferða innalands fór niður um 60 prósent. 

Náttfara var tjaslað saman og hann gerður ökufær til bráðabirgða með slappan mótor, einn af þremur rafgeymum sínum lélegan og lélegt afturhjól. Náttfari, Léttir og RAF

Hlutur Náttfara í ferðum mínum varð mun minni næstu tvö ár en ef hann hefði verið tekinn betur í gegn, skipt um mótor og sett á hann fullkomið drif og afturhjól. 

Milli 2016 og 18 var skyggnst um eftir endurbótum og að önglað saman fyrir þeim. 

Og í fyrrakvöld höfðu þeir Gísli Sigurgeirsson og Helgi Friðþjófsson lokið við ódýra lausn sem hefur gerbreytt Náttfara. 

Versti dragbíturinn hafði verið slappleiki mótorsins upp langar, brattar brekkur á leiðum mínum, þar sem fótaaflið varð að duga eitt að mestu og hraðinn varla gönguhraði. 

Mér taldist svo til að ég tapaði alls um kortéri við að fara heiman frá mér niður í Útvarpshús og til baka vegna ömurlegs ástands hjólsins. 

Nú hefur reynsluferð hins vegar sýnt, að við það að losna við lötrið og tafirnar upp langar brekkur, er Náttfari orðinn verður þess að bera nafn frægasta gæðingsins á Vindheimamelum 1972. 

Meðalhraðinn á leiðum mínum hefur aukist úr 15 km/klst í 22 km/klst, því að hægt er að fara á 25 km hraða upp brekkurnar þar sem aðstæður leyfa. 

Í nóvember 2017 komst lang minnsti og ódýrasti rafbíll landsins í mínar hendur og kolefnisfótsporið hefur minnkað um 85 prósent. 

Náttfari hefur yfirburði. Orkukostnaðurinn samsvarar 0,15 lítrum af bensíni á hundraðið. 

Orkukostnaður Tazzari rafbílsins samsvarar 1,5 lítrum á hundraðið. 

Léttir eyðir 2,2 lítrum á hundraðið en er 10 sinnum léttari og 10 sinnum ódýrari en venjulegur rafbíll.

Ef tífalt meiri tilkostnaður rafbíls er tekinn með í reikninginn og kolefnisfótsporið vegna framleiðslu hans, vinnu, kostnað og vaxta vegna rekstrar hans og eignar, auk kolefnisspors vegna framleiðslu og förgunar, er hugsanlegt að vespuhjólið sé ekki með meira samanlagt fótspor en rafbíll.  


mbl.is Google með leiðsögn fyrir mótorhjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Spennandi"? Sérkennilegur spenningur, það.

Á næstu dögum skellur hver loftmassabylgjan af annarri úr suðaustri á landinu okkar og veldur bæði úrhelli og roki. 

Undanfarnar vikur hefur mátt sjá næsta kunnuglega ástæðu á veðurkortum: Eldrauðan risastóran flekk sem teygir sig frá Afríku alveg norður yfir Noreg. 

Minnir á spákort frá ýmums tölvulíkönum síðustu tveggja áratuga, sem hafa sýnt þetta fyrirbæri og varað við þeim afleiðingum, sem það muni hafa að sjóðheitt og þurrt loftslag í Norður-Afríku muni ryðja sér til rúms á meginlandi Evrópu. 

"Spennandi" eins og haft er eftir norskum veðurfræðingi? Ætli orðið ógnvænlegt sé ekki nærtækara. 

Eini bláleiti eða litlausi flekkkurinn á veðurkortunum, bæði raunverulegum og líka á tölvuspákortum, er fyrir suðvestan Ísland. 

Þar eru átök þverrandi máttar kalds heimskautalofts við vaxandi mátt Afríska Evrópuloftið. 

Rigning og rok og vaxandi fyrirbæri hér á landi: Hlý og rök norðaustanátt. 


mbl.is 117 ára gamalt hitamet í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Sæmi! Furðu seinlegt ferli.

Sæmi Rokk er nú skrifað með stórum staf sem viðurkenning á þessu nafni, sem allir hafa kallað hann í 60 ár án þess að það væri viðurkennt í þjóðskrá sem nafn hans. 

Sæmi er einn af þeim, sem hefur þurft að berjast fyrir sínu alla sína ævi og hafist til virðingar og trausts af sjálfum sér. 

Ég minnist hans og Magnúsar tvíburabróður hans frá þeim tíma sem við lékum okkur sem smástrákar við Samtún í Reykjavík og kynnin við Sæma endurnýjuðust þegar leiðir okkar lágu oft saman á vettvangi skemmtanalífsins. 

Ástæða er að óska Sæma til hamingju með það að fá að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að heita því nafni, sem hann kýs sjálfur og almenningur hefur reyndar nefnt hann.  

Þegar börn eru skírð eða gefið nafn tekur það stutta stund. Því vekur furðu hve svifaseint kerfið er oft að afgreiða svipað mál varðandi það þegar fulltíða og sjálfráða fólk velur sér nafn. 


mbl.is Sæmi Rokk heitir hann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband