"Engin þjónusta." Gott net- og farsímakort óskast, - takk!

Um aldir hefur staðið yfir þróun í gerð landakorta, sem við njótum nú í formi korta, sem leiðbeina okkur um hvaðeina. 

En síðan farsiminn kom til sögunnar eru aðeins liðin augnablik samanborið við þann langa tíma sem landakortin hafa þróast. 

Ég byrjaði á þessum bloggpistli fyrir um hálftíma eftir að hafa byrjað á leit að heppilegum stað á nágrenni Sauðárflugvallar á Brúaröræfum fyrir netsamskipti með notkun lykils, svona svarts kubbs, sem kemur tölvu í samband við netið. 

Þessi svarti lykill er merktur með stöfunu HUAWE, sem mér skilst að sé nafn á Suður-Kóresku fyrirtæki, sem hefur sett sér það markmið að verða búið að ná ráðandi stöðu á sviði netþjónustu og fleira eftir áratug. 

Ég hef ekki áður haft tíma á ferðum um þetta svæði til að leita að heppilegum blettum, en undanfarin ár hef ég verið i hreinum vandræðum með netsamskipti, allt frá Holuhraungosinu í aðeins tíu mínútna fjarlægð á flugi frá flugvellinum, en þá hefði verið gott að geta sent frá sér myndir og komast í bærilegt facebook- eða netpóstsamband. 

Eftirgrennslan hjá símafyrirtækinu leiddi í ljós, að stöð uppi á Sauðafelli við norðanvert Snæfel hefði verið lögð niður og aðrar tvær settar, önnur suður af Snæfelli en fjallinu fyrir vestan Hrafnkelsdal. 

Við þetta hafði sambandi á BISA (alþjóðleg skammstöfun fyrir Sauðárflugvöll) hrakað svo mjög, að aðeins var hægt að tala í síma, og það ekki einu sinni á öllum flugvellinum. 

Leitin í kvöld fékk snubbóttan endi í fyrstu atrennu. Til að byrja með var ágætt símasamband en afar lélegt og seinlegt netsamband. 

Og allt i einu birtist á HUAWE-lyklinum: "No service", engin þjónusta. 

Ég varð því að hætta við og fara að leita að skárri stað. 

Er nú staddur á honum og vona að detta ekki aftur út fyrirvaralaust.  

Leitin að öruggum sambandsstað sennilega rétt að byrja. 

Svona á ekki aðeins við úti á landi, heldur er "merkið" í sjálfri Reykjavík afar misjafnt. 

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er merkið afar veikt uppi á Borgarholti við Spöngina þar sem ég bý, og meira að segja dettur farsíminn stundum út. 

Þó stendur húsið uppi á hæð þar sem sést um allan sjóndeildarhring höfuðborgarsvæðisins. 

Mikið væri nú gott að sima- og netfyrirtækin tækju sig nú til og útbyggju gott kort yfir þær stöðvar og mannvirki um allt land, sem skipta máli á þessu sviði. 

Og á þessu korti væri líka hægt að sjá hvar væri kominn ljósleiðari. 

Rafhleðslustöðvakort er komið á koppinn strax í upphafi þeirrar byltingar. 

Net-og farsimakort óskast, - takk! Og mikið hlakka ég til að víðar verði hægt að senda frá sér tölvupóst, ljósmyndir og kvikmyndir. 

P.S. Staðurinn, sem ég skrifa þennan bloggpistil á er hæðin, þar sem fyrrum stóð verktakaþorp Kárahnjúkavirkjunar. Kannski gefst tími til að leita að betri stöðum vestan við Kárahnjúka. En ég er fyrst og fremst að leita að stað sem næst BISA. 


Hjólin hafa yfirburði sakir léttleika og einfaldleika.

Ekkert farartæki kemst hvað hagkvæmni og einfaldleika í hálfkvisti við tví- eða þríhjól, sem geta skilað tveimur persónum jafn hratt eða hraðar leiðar sinnar en bílar. 

Nýjasta rafhjólabyltingin eru hjól, þar sem drægnin getur farið upp í 180 kílómetra, eða hraðinn upp í 80 km/klst, en hægt að skipta um rafhlöður á svipstundu eða hlaða þær heima hjá sér. 

Á myndunum er Niu N-GTX sem er að koma á markað með þessum eiginleikum. 

Og Honda PCX rafknúið og líka Hybrid eru væntanleg. 

Í Taipei á Taivan er búið að koma á kerfi þar sem það tekur innan við mínútu að skipta um rafhlöður á hjólum með heitinu Gogoro í ótal sjálfsölum út um allt í 350 þúsund manna höfuðborgarsvæði. 

Það gefur auga leið að á venjulegum rafbíl er engin leið að skipta út 300 kílóum eða meira. 

Meira að segja á minnsta rafbíl landsins vega rafhlöðurnar 130 kíló. 

Bíll getur farið heim undir dyr fólks með varning en rafhjól getur farið með hann upp að ísskápsdyrnum. 

Þannig mætti lengi telja. Niu N-GTX rafhjól


mbl.is Hjólar umhverfis jörðina á veltipétri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn standa vörð um "menningarlandslag".

Röð sveitabæja þar sem stundaður er búskapur allt árið um kring og eigendurnir eru þar með reksturinn og fasta búsetu er dæmi um menningarlandslag, bæði í Noregi og á Íslandi. 

Í slíku landslagi eru margar helstu bókmenntir og tónlist þessara grann- og frændþjóða sprottin. 

Í Noregi eru það ekki aðeins norsku firðirnir, annað af tveimur helstu náttúruundrum Norðurlandanna, sem heilla erlenda ferðemenn, sem kynnst hafa verkum Björnsson, Hamsuns og Grieg, eða dáðst að vinningslögunum í Eurovision 1995 og síðar hjá Ryback, heldur einnig sá vettvangur stórbrotinnar menningar Norðmanna, sem landið og byggðirnar eru. 

Þetta er nefnt menningarlandslag og er ekki aðeins tekjulind fyrir ferðaþjónustuna, heldur einnig grunnur að sjálfsvitund þjóða. 

Í Noregi er í gildi ýmis konar löggjöf sem tryggir, að á mikilvægustu svæðunum sé svona menningarlandslagi viðhaldið. 

Hér á landi má bæta við því menningarlandslagi og vitnisburði um "survival" eða lífsbjörg þjóðarinnar í þúsund ár, sem felst í litlum sjávarþorpum og sjávarbyggðum landsins. 

Rétt eins og aðkomumaður vill upplifa umhverfi "Sunnudags selstúlkunnar" í Noregi, er dýrmætt fyrir hann og alla að upplifa litlar sjávarbyggðir á Íslandi. 

Ekki má gleyma þessu gildi strandveiðanna, sem hafa þurft að berjast fyrir tilveru sinni síðustu áratugina hér á andi. 


mbl.is „Eitt verður yfir alla að ganga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband