Ekki vandamál erlendis, en auðvitað hér.

Það hefur verið þrautaganga fyrir okkur Íslendinga að tileinka okkur gróna erlenda umferðarmenningu, sem hefur lengi skort sárlega á hjá okkur. 

Síðustu þrjú ár hef ég notað bæði bíla og hjól og hjólin eru nú komin með um 70 prósent innan borgar, en þar að auki er kominn minnsti og ódýrasti rafbíllinn í hendurnar. 

Þegar maður tekur þátt í umferðinni á svo fjölbreyttan hátt stingur í augu hvað við eigum langt í land með að tileinka okkur nauðsynlega hegðun. 

Það á við um alla hópana, gangandi fólk, reiðhjólafólk, vélhjólafólk og bílstjóra. 

Yrði langt mál að telja það allt upp, en varast ber að alhæfa um neinn þessara hópa. 

Enn eru of mörg dæmi um hraðakstur á reiðhjólum á hjólastígum og göngustígum, þar sem þeir eru notaðir af hjólafólki. 

En hjólafólkið er ekki eitt um tillitsleysi og kæruleysi. Gangandi fólk á þetta líka til, til dæmis að loka fyrir leiðina, þar sem hún er með merktum reinum, annars vegar fyrir hjól og hins vegar fyrir gangandi fólk. 

Notkun á reiðhjólabjöllum þekkist varla, en notkun hennar er öryggisatriði en þarf ekki að vera frekja. 

Einstaka hraðhjólamenn eru beinlínis hættulegir. 

Og síðan eru það bílstjórar sem eru tilbúnir til að svína á hjólafólki þar sem það fer löglega á grænu ljósi yfir götur. 

Meira seinna, af nógu er að taka.  

 


mbl.is Mikið kvartað undan hjólafólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný tilhneiging á suðaustan- og austanverðu landinu?

Síðuhafi hefur verið með annan fótinn á norðausturhálendinu nær stanslaust á síðustu 25 ár, eða allt frá því að Fljótsdalsvirkjun komst á kopinn og þættirnir "Aðeins ein jörð" voru gerðir 1992 þar sem meðal annars var fjallað um hina risastóru virkjanaáætlun, sem hlaut heitið LSD, þ. e. Lang stærsti draumurinn. DSC02819

Í henni fólst að virkja allt vatnsmagn hálendisins og sett var á blað áætlun um allt að tug stórra miðlunarlóna virkjunar, þar sem öllum stærri ám á svæðinu yrði veitt niður í risavirkjun með stöðvarhúsi í Fljótsdal.  

Við lauslega talningu upp úr dagbókum á ferðum frá Reykjavík austur á Sauðárflugvöll og þaðan um hálendið og Austurland eftir að flugvallarstæðið var uppgötvað að nýju árið 2003, kemur í ljós að þessar ferðir eru alls hátt í hundrað bara síðustu 14 ár og hafa tekið samtals meira en hálft ár. 

Þessar myndir eru teknar í nýjustu ferðinni,  sem lauk í gærkvöldi. 

DSC02811

Með tilkomu nýs kerfis sjálfvirkra veðurathugunarstöðva um allt hálendið hefur aðstaða til veðurathugana gjörbreyst til batnaðar og með því að fylgjast stanslaust og náið með veðrinu með því að skoða athuganir þeirra auk ferðanna austur, má sjá áberandi loftslagsbreytingu. 

Hún felst til dæmis í því að í stað þess að "úrkomuskugginn" svonefndi norðan Vatnajökuls, svo lítil úrkoma að hún var í áttina að eyðimerkurloftslag, næði austur að línu, sem draga mátti um Snæfell til suðvesturs, hefur þessi lína nú færst vestur að ánni Kreppu.DSC02768

Ástæðan er fjölgun öflugra heitra lofmassa frá Evrópu, sem hafa komið úr suðvestri og skollið á suðaustanverðu landinu af nægilegu afli til að senda úrkomugusur vestur að Kreppu. 

Þar fyrir vestan hefur verið afar snjólétt á vorin undanfarin ár og rennsli leysingavatns úr Brúarjökli verið svo mikið í Hálslón, að það er sumar eftir sumar komið á yfirfall í ágúst í stað septembers. 

Ræætt hefur verið um að gera viðbótarvirkjun við Kárahnjúkavirkjun til þess að nýta þetta mikla yfirfallsvatn. 

Snæfell ber nú nafn með rentu á hverju vori, snævi þakið eftir veturinn. 

En vegna hlýrri og lengri sumra er snjórinn í því samt ekkert afbrigðilega mikill þegar vetur gengur í garð. 

Á facebookp-síðu og þessari bloggsíðu hefur gusunni síðustu daga verið lýst. 

Loftslagsbreytingar af sömu orsökum og Afríkuhiti norður alla Skandinavíu með tilheyrandi sviðnu og brunnu landi? 

Nokkuð, sem sænskir ráðherra kalla dæmalausar gerbreyttar aðstæður sem kalli á dæmalausar aðgerðir? 

 


mbl.is Hlýjasti júlí á öldinni fyrir austan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hvalkýr synti með nýfæddan kálf, sem plastið drap.

Eitt af mörgum áhrifaríkum myndskeiðum í náttúrlífsmyndum Davids Attenboroughs í vetur, var af því þegar hvalkálfur drapst af því að innbyrða plast. 

Myndir náðust af því þegar móðir kálfsins synti með hann dauðan og hegðaði sér líkt og um mannlegt sorgarferli eða umhyggjuferli væri að ræða. 

Þetta átakanlega myndskeið var áminning um hvernig mannkynið hegðar sér gagnvart náttúrunni og talar um "skynlausar skepnur" þegar sífellt fleiri dýr og fuglar líða mikla nauð að óþörfu af mannavöldum. 

Hefur þó verið leitt í ljós að margt er líkt með skyldum, manninum og öðrum spendýrum. 

Fyrir um 30 árum var ég viðstaddur réttarhald í Reykjavík vegna hvalveiða. 

Deilt var um hvort eða hve miklar þjáningar hvala væru þegar þeir væru veiddir og dauðastríðið tæki margar mínútur, allt upp í hálftíma. 

Málið var sótt gegn hvalveiðimönnum, og mig minnir að það hafi verið notað til að sýkna hina ákærðu á grundvelli þess að allur vafi skuli jafnan túlkaður sakborningi í vil.  

Oft er gert gys að anfóf dýraverndurfólks gegn illri meðferð dýra og það sakað um óhemjuskap og tilfinningasemi. 

Í framhaldinu er þessu fólki enginn skilningur sýndur, né heldur skilingur á því af hverju boðleg meðferð á dýrum er lýst sem "mannúðlegri." 

Og vanlíðan fólks við að verða vitni að miklum kvölum, þjáningum dauðastríði flokkuð undir aumingjaskap. 

Er hægt að yppta öxlum sem ekkert sé, þegar horft er yfir þau svæði, sem fara stækkandi, þar sem fuglar liggja þúsundum saman ýmist dauðir eða heyjandi dauðastríð af völdum plastáts?

 

 


mbl.is Syndir með hræ kálfsins um hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband