Merkilegar minjar, líkt og Skansinn í Eyjum.

Rústir ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli á Hornströndum eru merkilegar minjar um Kalda stríðið, sem ber að varðveita að mínum dómi. Skaftið, Straumnes fjall.

Það er afar áhrifamikið að koma í þessa stöð og undrast stærð hennar og staðsetningu. Ekki skemmir víðsýnið þar fyrir upplifuninni. 

Á myndinni er eins manns örfisinu Skaftinu flogið yfir fjallsbrúnina sumarið 1994.

Þegar svæðið var hreinsað 1991 heyrðust raddir um að fella ætti alla veggina og koma þeim fyrir kattarnef. 

Hvers vegna?

"Það skemmir fyrir þeim mörgu, sem hingað koma" var svar, sem heyrðist. 

Með þessu svari gleymist hvers vegna svona margir leggja á sig að ganga upp á fjallið á hinum enda þess og alla leið að þessum stað. 

Hvers vegna ekki að að gera vandaða úttekt á ástandi mannvirkisins og sýna víðsýni við ákvörðun á því hvernig skynsamlegri varðveislu þess verði háttað? 

Hinum megin við Aðalvík standa rústir ratsjárstöðvar Breta uppi á fjallinu Darra, sem eru jafnvel enn merkari, þótt sú stöð hafi verið margfalt minni í sniðum en stöð Kanans á Straumnesfjalli. 

Ekki á að láta mismunandi skoðanir á veru herafla Bandaríkjamanna hafa áhrif á ákvarðanir um örlög rústanna á Straumnesfjalli.  Ekki fremur en að láta atbeina einvaldskonungs Dana að byggingu hernaðarmannvirkisins Skansins í Eyjum hafa áhrif á örlög hans. 

Breska stöðin á Darra var notuð gegn herafla nasista og þegar komið var upp á fjallið 1991, sást, að báðum loftvarnarbyssunum, sem enn voru þar, þótt önnur væri fallin, miðað út á Grænlandssund í átt að þeim slóðum þar sem Bismarck og Prinz Eugen sigldu til þess að herja á kaupför Bandarmanna í átt að vettvangi einnar af stærstu sjóorrustum stríðsins.

Það er miður, að á sínum tíma skyldi ekki vera gert eitthvað til að bjarga annarri loftvarnarbyssunni, sem þar stóð enn 1991.  


mbl.is Óljóst hver á rústir herstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins örfá ár síðan heyra mátti svona réttlætt.

Ekki hefur þurft að vera lengi á ferli á Reykjanesskaga til þess að sjá umhverfisspjöll, sem eru orðin margra áratuga gömul. Dæmi eru nöfnin sem letruð eru ofarlega í Vífilsfelli og sáustu áratugum saman langar leiðir, en um allan fólkvanginn má sjá ljót för eftir farartæki. Vélhjól slóði

Löng og ljót för eftir utanvegaakstur í viðkvæmum mosa við Fjallabaksleið hafa skorið í augun í meira en hálfa öld. 

Það eru ekki mörg ár síðan furðu margir réttlættu þá skoðun á fundi um vélhjólaakstur að um allar göngugötur, reiðgötur og kindagötur á Íslandi ætti að vera frjálst að fara á fjallahjólum. Vélhjól slóði Hengli

Þegar sýndar voru myndir hér á síðunni af miklum spólförum í Krepputungu í ljósgulum vikri, sem fyrir vikið var skorinn þannig í sundur sumarið 2014 að kolsvört aska undir honum rótaðist upp í gegn, mátti sjá því haldið fram í athugasemdum það væru bara sandar, sem verið væri að spóla í og að það væri í góðu lagi. 

Þeir, sem þessu halda fram ættu að koma í þjóðgarðinn Canyonlands eða Giljalönd í Bandaríkjunum og sjá hvernig þar er að málum staðið. 

Í þjóðgarðinum eru 1600 kílómetra langir jeppaslóðar, sem eru merktir og stranglega bannað og liggja þung viðurlögð við brotum, að aka út fyrir þá. 

Þó er þetta í næsta nágrenni við bæinn Moab, sem er nokkurs kona Mekka torfærubílaökumanna í Bandaríkjunum.  

 


mbl.is Alvarlegur utanvegaakstur á Fjallabaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

74 ár frá hruni fyrstu Ölfusárbrúarinnar.

1944 var Ölfusárbrú ein af stærstu brúm landsins, byggð árið 1891 og þá ætluð umferð hestvagna, hesta og gangandi fólks, því að þá var hafið stutt tímabil í samgöngusögu landsins, sem kalla má hestvagnatímabilið og lauk skyndilega fyrir einni öld. 

Eðli málsins samkvæmt voru bílarnir 1944 orðnir margfalt þyngri og fleiri en hestvagnarnir höfðu verið, og brúin því orðin úrelt. 

Brúin var hengibrú, líklega eina stóra brúin af þeirri gerð á landinu á þeim tíma , því að Þjórsárbrú var haldið uppi af tveimur stálbogum, og nokkrar smærri brýr síðar með trapesulöguðu burðarvirki, svo sem yfir Jöklu hjá Klausturseli. Fnjóskárbrú 1908 og Hvítarárbrú 1929 voru steinsteyptar bogabrýr og brýrnar yfir margar ár voru á steinstöplum.

Þegar tveir þungir vörubílar voru eitt sinn á Ölfusárbrúnni í einu, brast annar tveggja strengja, sem brúin hékk í, og féllu bílarnir í ána. 

Mannbjörg varð, en atvikið var áminning um að gæta að burðarþoli brúa landsins. 

Búið er að gera nýjar brýr yfir Borgarfjörð, Markarfljót, Þjórsá og fleiri fljót og fyrir löngu er orðið tímabært að gera nýja aðalbrú yfir Ölfusá, auk þess sem endurbæta þarf þá brú, sem er að verða sjötug og var barn síns tíma. 

Nýja Þjórsárbrúin er sérstaklega hönnuð fyrir stóra jarðskjálfta og raunar stóðust bæði elsta brúin og brúin frá 1945 stóra skjálfta. 

Nokkrar gamlar brýr í vegakerfinu eru með þyngdartakmörkunum, sem stundum eru virtar að vettugi. 

Þannig ætlaði flutningabílstjóri einn að láta á það reyna, hvort bíll hans kæmist yfir eina af þess tíma elstu brúm á Suðurlandi, þótt hann bryti með því bæði gegn breiddartakmörkunum og þyngdartakmörkunum. 

Af ummerkjum eftir á var svo að sjá að bílstjórinn ætlaði að fara það hratt yfir brúna að hún hefði ekki tíma til að bresta. 

Hann varaði sig hins vegar ekki á því að vegna þyngdar bílsins svignaði burðarvirki brúarinnar inn á við, svo að það þrengdi svo mjög að bílnum beggja vegna, að hann stórskemmdist við að hálffestast í brúnni. 

En honum tókst með naumindum að sleppa yfir með bílinn stórlega laskaðan.  


mbl.is Hrun brúarinnar: Hvað vitum við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband