Þeytti tíu hjóla trukki mörg hundruð metra. Húdd upp eins og tappi.

Já, það er víst ekki ofsögum sagt að krafti hvirfilvinda, ekki bara erlendis heldur líka hér á landi. 

Í minni mér er tvö dæmi. 

Á tíunda áratug síðustu aldar fór hvirfilviindur um Eyjafjallasveit í fárviðri, og gerðist þá það ótrúlega atvik, að snarpur hvirfilbylur eða hnútur lyfti upp tíu hjóla trukki eins og fisi og feykti honum mörg hundruð metra án þess að hann snerti jörðina. 

Bíllinn skall siðan, að því er virtist lóðrétt niður en kom samt flatur niður á hjólin, og hafði samkvæmt því flogið flatur alla þessa leið, upp og síðan niður. 

Hitt atvikið gerðist við Tíðaskarð við vesturenda Esjunnar 1962. 

Bálhvasst var og svo mikil ókyrrð, að þegar við Tómas Grétar Ólason, komum þangað á allstórri Internatioanal smárútu Tómasar Grétars, var óhjákvæmilegt að stansa, því að Tómas réði ekkert við bílinn. 

Þarna sátum við dauðskelkaðir og skyndilega byrjaði bíllinn að hoppa upp og lenda aftur á hjólunum, en þó með smá tilfærslu og snúningi á veginum í hverju hoppi. 

En áður en bíllinn hoppaði út af veginum, kom gríðarlegur hvellur, og við horfðum á eftir "húddinu" á honum skrúfast beint upp eins og tappa væri skotið úr flösku. 

Húddið fór í hringsnúningi einhverja tugi metra, en skall síðan niður með miklum hvelli á miðjum veginum fyrir framan bílinn. 

Þegar að var gætt höfðu báðar festingarnar á því upp við framgluggann hrokkið í sundur og sömuleiðis festingin að framanverðu. 


mbl.is Kraftur skýstrókanna „með ólíkindum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við vitum ekki enn að við eigum í raun / auðlind..."

Tregða Íslendinga við að viðurkenna gildi náttúruverðmæta lands, sem eru einstæð á heimsvísu, virðist ótrúlega útbreidd hér á landi.

Í athugasemd við pistil hér á síðunni í gær trúir sá, sem þessa athugasemd ritar, að Hvalárvirkjun muni skapa þúsundir starfa.

Samt viðurkennir hann að virkjunin muni, eftir að hún tekur til starfa, ekki skapa eitt einasta starf í Árneshreppi 

Samt liggur fyrir að þrettán sinnum stærri virkjun á Austurlandi skapar um 400 störf og að raforka Hvalárvirkjunar gæti því aldrei skapað meira en 30 störf í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá Árneshreppi.

Því raforkan frá Hvalárvirkjun fer inn í kerfi Landsnets í meira en hundrað kílómetra fjarlægð frá aflegggjaranum, sem eftir sem áður liggur í sama horfi til Ísafjarðar. 

Fyrir liggur að fjárfesting í ferðaþjónustu og sjávarútvegi skilar næstum þrefalt meiri virðisauka inn í efnahagslíf okkar heldur en stóriðjan. 

Mestu auðæfi Íslands eru mannauðurinn og einstæð náttúra, sem á engan sinn líka í veröldinni, samanber þetta erindi úr ljóðinu "Kóróna landsins": 

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn, 

sem finnast ekki´í öðrum löndum: 

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum. 

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun

auðlind í hraunum og söndum, 

sléttum og vinjum og urðum og ám

og afskekktum, sæbröttum ströndum."

 

 


mbl.is Dýrara en þú hélst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt eins gott að hlaupa ekki of hratt.

Kapp er best með forsjá er stundum sagt, og víst er það rétt. 

Það getur komið sér vel að geta sprett duglega úr spori til að skila fréttum á sem skemmstum tíma eins og sjá má á mynd af sprettharðri bandarískri blaðakonu sem fer eins og eldur í sinu um netið. 

Þó getur verið ástæða til þess að fara ekki fram úr sjálfum sér. 

Þetta mátti ég reyna á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn á 100 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar 2004. 

Þar voru atburðir að gerast sem kröfðust þess að vera fljótir í förum út úr húsinu þar sem var hátíðarsamkoma og ná í skottið á danska forsætisráðherranum á fundi annars staðar. 

Ég tók á rás út um það, sem sýndist vera opnar dyr en reyndist því miður vera svo hreinn guggi, að hann sást ekki.

Áreksturinn varð svo harður að ég hálfrotaðist og fékk stóran skurð á ennið, sem fossblæddi úr.

Ekki varð hjá því komist að fara á slysavarðstofu og láta sauma sjö spor í skurðinn, en mig minnir að fyrst hafi ég farið á vit danska forsætisráðherrans með bráðabirgðaumbúnað á hausnum.

Að minnsta kosti reddaðist að ná viðtali við hann. 

Þetta var ekkert gaman en samt hefði verið gaman að eiga af því mynd ef marka má frásagnir vitna af því hvað þetta var víst fyndið að sjá.  

´þ

 

 

´þ


mbl.is Sprettharður fréttamaður vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband