Hvað næst? Að jólin byrji um versló með jólaklósetti?

"Við erum að reyna að ná forskoti á keppinautana" segir talsmaður Costco þegar hann er spurður um ástæðu þess að jólin séu hafin þar með tilheyrandi skreytingum og hverju eina í ágúst, fjórum mánuðum fyrir aðfangadag. 

"Jólaskuldir endast fram í mars" var ein setningin í laginu "Þá eru að koma jól", og var þá átt við sérstök jólagjafalán á kreditkortum. 

Úr því að ágúst er á leið að verða jólamánuði virðast aðeins vera eftir rúmir fjórir mánuðir af árinu meeð sæmilegum friði fyrir jólasamkeppninni eða jólakapphlaupinu. 

"Er ekki tími til kominn að tengja?" og brúa bilið yfir sumarið, til dæmis með því að láta "júlísveina" koma til byggða í júlí til að auka jólaverslunina svo um muni og auglýsa "jóla þetta" og "jóla hitt" stanslaust allt árið?

P.S.  Í athugasemd, sem nú er komin við þennan pistil, er greint frá því að fyrir löngu sé komin jólaklósettskreyting á Amazon. Og í svari við þessari athugasemd er því þessi vísa: 

Jólaklósett komið er

að kæta mannabólin.

Hve gleðilegt og gott er hér

að gefa skít í jólin! 

 

 


mbl.is Jólin eru komin í verslun Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsendari Grænlandsjökuls í heimsókn.

Nokkuð hefur verið um tilkynningar um borgarísjaka við landið í vor og sumar. Einhverjir kunna að álykta, að þetta tákni kólnandi loftslag á jörðinni, en stórir borgarísjakar eru einfaldlaga til komnir vegna þess, að risastór stykki hafa brotnað framan af skriðjöklum úr Grænlandsjökli, sem falla í sjó fram á austurströnd Grænlands fyrir norðan Ísland. 

Borgarísjakarnir segja því út af fyrir sig ekkert um útbreiðslu hafíss í Íshafinu. 

90 prósent af rúmmáli íss á floti er fyrir neðan sjávarmál, svo að það þarf að margfalda með tíu til að giska á heildarstærð svona flykkis. 

Þess ber að gæta að austasti hluti Grænlands nær austar en Ísland, og að þetta risastóra eyland fyrir vestan okkur nær allt í senn, sunnar, vestar, norðar og austar en Ísland. 


mbl.is „Þetta er náttúrulega ógurlega stórt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfið fólk á fullu við "talningar."

Skrá embættis ríkislögreglustjóra hefur verið á fullu við að "telja" þá 120 einstaklinga, sem horfið hafa sporlaust hér á landi síðan 1945, og ekki er nú með að skráin sé sjálf búin að vera iðin við þessa talningu, heldur hafa einstaklingarnir verið á fullu við að telja sjálfa sig. 

Sagt er í tengdri frétt um þetta á mbl.is um þá einstaklinga, sem hafa horfið á sjó  að þeir "telji 64 einstaklinga."

Það er málleysa og rökleysa að nota sögnina að telja á þennan hátt, en þetta er plagsiður í fjölmiðlum, til dæmis um að ákveðinn dýrastofn "telji" svo og svo mörg dýr. 

Dýrastofnar telja ekki neitt, heldur eru það menn sem telja dýrin. 


mbl.is 120 einstaklingar hafa horfið á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband