Flugfélag Íslands og Loftleiðir voru mjög ólík flugfélög.

Þegar flugfélögin Loftleiðir og Flugfélag Íslands voru sameinuð í félaginu Icelandair voru félögin afar ólík. 

Flugfélagið var með einokun í áætlunarflugi innanlands en Loftleiðir stunduðu eingöngu millilandaflug. 

Flugfélagið var í IATA, alþjóðlegum samtökum flugfélaga, en Loftleiðir stóð fyrir utan samtökin og byggði tilveru sína á því. 

F.Í. varð að hlíta fargjöldum alþjóðasamtakanna, en Loftleiðir gátu róið á önnur mið, komið sér upp ódýrum flugflota, sem var í fyrstu fólginn í hægfara DC-6 bulluhreyflavélum, sem þurftu að millilenda í Gander á leið yfir Atlantshaf, en Flugfélag Íslands tók Viscount skrúfuþotur í notkun 1957 og Boeing 727 þotur 1967. 

Á þeim tíma höfðu Loftleiðir skipt yfir í skrúfuþotur af Canadair 44 gerð, sem voru að vísu hraðfleygari og langfleygari en sexurnar gömlu, en hins vegar ekki eins hraðfleygar og þotur. 

En flugflotinn réð úrslitum um það að Loftleiðir gátu rutt braut sem lággjaldaflugfélag og risið gegn IATA. 

Mikilvægi Íslands í hernaðarlegu tilliti hjálpaði til við það að Loftleiðir gátu notað loftferðasamninga við Bandaríkin, sem voru grundvöllur þessa merka flugs. 

Með sameiningu flugfélaganna tókst að koma í veg fyrir ófarir þeirra á erfiðum tímum rekstrarlega, þegar olíukreppur dundu á 1973 og 1979 og það var sennilega ákveðinn kostur fólginn í því hve ólík félögin voru. 

Að þessu leyti gæti sameining Icelandair og Wow hugsanlega gengið upp, en spurningin er bara hvort tapi á rekstri slíks sameinaðs félags yrði afstýrt. 

Íslensk stjórnvöld pressuðu á sameiningu Flugfélagsins og Loftleiða vegna ríkra íslenskra almannahagsmuna, hagsmuna þjóðar, þar sem lega landsins em eyland langt frá öðrum löndum, gerðu millilandaflug að skilyrði sjálfstæðis þjóðarinnar. 

Slíkt er ekki fyrir hendi nú, og því verður að telja ólíklegt að til sameiningar verði gripið. 


mbl.is Sameinast flugfélögin fyrr en síðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hugsa sér, að þetta skuli vera einstakt.

Þeir frammámenn í íslensku efnahagslífi, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, sem og stjórnmálum, sem hafa oft talið sig eiga kröfu á svimandi háum launum og sporslum, hafa venjulega gert það með þeim rökum að svo mikil áhætta og ábyrgð fylgi þessum störfum þeirra og stöðu, að launin verði að vera svona há. 

Hingað til hefur ástandið hins vegar hér á landi verið þannig, að talað er um það sem tímamót í íslensku viðskiptalífi að forstjóri Icelandair segi af ser vegna atburða "sem gerðist á hans vakt" eins og hann orðar það. 

Þetta er nokkuð, sem varla hefur nokkurn tíma gerst í áratugi hér á landi, á sama tíma sem þetta hefur verið alsiða í öðrum löndum. 

Það segir sína sögu um margt í þjóðlífi okkar, að Bjögólfur Jóhannsson teljist vera brjóta blað í íslenskri viðskptasögu.  


mbl.is Braut blað í íslenskri viðskiptasögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef vindur feykir grjóti á hlut?

Ofangreind spurning kom upp í kringum 1990 þegar gríðarleg vindhviða, sem mældist 85 hnútar, eða um 43 metrar á sekúndu feykti flugvél þannig til á Akureyrarflugvelli, að báðar skemmdust. 

Í gögnum málsins kom fram að báðar flugvélarnar voru bundnar, en í spá fyrir Akureyrarflugvöll var reiknað með að vindhviður gætu farið upp í 35 hnúta, eða 19 metra á sekúndu. 

Vindhviðan kom úr suðvestri, ofan af Súlunum og skall svo snöggt á flugvélunum, að sérstakur krókur í væng þeirrar stærri, slitnaði úr vængnum!  Á vindmælum vallarins sást hvernig vindurinn rauk á augabragði úr um 10 metrum á sekúndu upp í 85 og snerist um leið. 

Það varð svolítið þóf í málarekstri út af þessu atviki, af því að það var fastur hlutur, í þessu tilfelli flugvél, sem olli snertingunni eða árekstrinum, líkt og til dæmis snjór, möl eða grjót. 

Einnig var ljóst og "hafið yfir skynsamlegan vafa", að flugvélin, sem fauk, væri eins tryggilega bundin samkvæmt notkunarhandbók hennar og hægt væri að ætlast til. 

Niðurstaða þáverandi Viðlagatryggingar Íslands varð samt það, að tjónið skyldi ekki bætt og tók eigandi flugvélanna það á sig að fullu, en fyrir einskæra tilviljun voru báðar flugvélarnar í eigu sama manns!  


mbl.is Þyrfti lagabreytingu fyrir skýstrókana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband