Flókið viðfangsefni að fást við þessi aurflóð.

Skaftárhlaup er afar flókið fyrirbæri þegar kemur niður á láglendið. 

Hluti vatnsins fer niður í þröngan farveg hjá Ásum, en afar mikið fer niður sléttlendið norðvestan við ána og hefur sem slíkt engin áhrif á vatnið, sem fer undir brúna hjá Ásum. 

Í umfjöllun fjölmiðla í gær kom fram, að frétta- og blaðamenn gerðu sér ekki grein fyrir þessu. 

Þó kom fram í einni umfjöllun að vatnið dreifði sér æ meira eftir því sem hinn mikli aurframburður hlæðist upp. 

Sú dreifing er langmest á svæðinu fyrir norðan, norðaustan og austan Eldvatnsins og eftir því sem Eldhraunið kaffærist í sandi, berst hann lengra inn í hraunið. 

Hægt er að hafa áhrif á dreifinguna á ýmsan hátt, með fyrirstöðum og varnargörðum annars vegar og hins vegar með því að rjúfa vegi og garða þar sem heppilegra er að hlaupvatnið fari fram. 

Um það eru stundum skiptar skoðanir, sem eðlilegt er. 

Á fróðlegri ráðstefnu um þessi mál fyrir um áratug kom fram að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær, aurinn yrði búinn að taka fyrir vatnsrensli í hina vinsælu silungslæki, sem renna niður um austanvert Landbrot.  


mbl.is Afleggjari rofinn vegna hlaupsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt dæmið um "eitthvað annað". Konur á barneignaaldri.

Í meira en þúsund ár var það grundvöllur byggðar á Íslandi að framleiða efnisleg gæði. 

"Bókvitið verður ekki í askana látið" var orðtak, sem var algilt, og réði áfram hugsunarhætti okkar allt fram á 21. öldina. 

Þegar Sovétríkin hrundu og þar með iðnaður á Akureyri, sem flutti út vörur í austurveg, var eina ráðið, sem menn komu auga á, að reisa risaálver norðan við bæinn. 

Aðeins það gæti "bjargað Norðurlandi." Allt annað, "eitthvað annað", væri vonlaust. 

Ekkert álver reis, en stofnaður var háskóli og ljós kom að það var einmitt "eitthvað annað" sem varð megin drifkrafturinn í þeim vexti, sem síðan hefur ríkt á Akureyri. 

Svipað, en enn stærra, gerðist þegar efnahagslífið hrundi 2008. Stóriðjan var talin það eina sem gæti bjargað okkur og "eitthvað annað" kom ekki til greina og var púað niður. 

Ekkert risaálver reis í Helguvík en mestu verðmæti landsins, mannauðurinn og einstæð náttúra, sem höfðu verið töluð niður sem hið vonlausa "eitthvað annað", skópu öflugasta atvinnuveg þjóðarinnar. 

Íslensku þjóðgarðarnir skapa til dæmis það, sem skiptir máli, störf fyrir konur á barneignaaldri. 

3,8 milljarðar á ári renna í gagnum ferðaþjónustuna inn í Snæfellsjökulsþjóðgarð, þar af tæpir tveir milljarðar árlega beint inn á svæðið sjálft. 


mbl.is Íbúum á Flateyri fjölgar um 20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök tryggð við gamla landið. K.N. lifir.

Þegar sagt er að á Íslendingahátíðinni í bænum Mountain í Norður-Dakota séu fleiri Íslendingar en íbúar er það að vissu leyti ekki rétt; slík er sú einstaka tryggð sem íbúarnir halda við gamla landið, sem langafi, langamma og langalangafi og langalangamma komu frá. 

Ég átti þess kost að fylgjast með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta þegar hann var þar sérstakur gestur 1999 og gera um það sjónvarpsþátt. 

Í tengslum við það var vígður sérstakur minnisvarði um skáldið K.N. sem þar lifði og samdi sín óborganlegu ljóð og vísur; stundum með skemmtilegri blöndu af íslensku og ensku, samanber þegar hann rímaði saman hendingarnar 

"Skammastu þín, svei þér!"

- og -

"Go to hell and stay there!" 

Nafn bæjarins, "Mountain" er drepfyndið, því að í Norður-Dakota er hægt að aka dögum saman á flatlendi. 

En rétt við bæinn er ein brekka á þjóðveginum, álíka að stærð og Ártúnsbrekkan, og af þeirri lágu hæð sem brekkan liggur upp á, er heitið Mountain dregið!  


mbl.is Fleiri Íslendingar en íbúar í Mountain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband