Gegnsýrt af virkjanahugsun að láta túrbínustærð ráða mati.

Enn er val orða og túlkun hugtaka gegnsýrð af hugsun virkjanafíkla á mörgum sviðum hér á landi. 

Virkjanahugmyndir í rammaáætlun eru þannig nefndar nöfnum, sem eru leiðandi: Orkunýtingarflokkkur, verndarflokkur og biðflokkur. 

Með því er því stillt upp að nýting og penningalegur hagnaður geti aðeins falist í virkjun en ekki í vernd. 

Gullfoss og þar með vatnasviðið ofan hans eru gott dæmi um það, að með vernd geti fengist meiri fáist peningalegur hagnaður en með virkjunum.

"Það er nefnilega vitlaust gefið´" orti Steinnn Steinarr. 

Réttara væri að flokkarnir þrír hétu virkjananýtingarflokkur, verndarnýtingarflokkur og biðflokkur, - eða - bara einfaldlega: 

Virkjanaflokkur, verndarflokkur og biðflokkur. 

Nú hrúgast upp hugmyndir um 9,9 megavatta virkjanir, alls 55 stykki. 

Reynslan af virkjunum eins og Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun sýnir, að virkjanamenn komast upp með að reisa stærri virkjanir en leyfilegt var. 

Þess vegna gætu 55 virkjanir sem á pappírnum eiga að vera 9,9 megavött, orðið samtals 700 megavött, eða jafnstórar og Kárahnjúkavirkjun, en samt komist alveg hjá því að fara í mat á umhverfisáhrifum. 

Það er auðvitað fáránlegt að flokka umhverfisáhrif virkjana eftir túrbínustærð. 

Álíka fráleitt og að flokka túrbínugerðir eftir umhverfisáhrifum virkjananna, sem þær eru í. 

9,9 megavatta virkjun getur auðveldlega valdið miklu meiri umhverfisáhrifum heldur en 30 megavatta virkjun. 

Síðan er auðvelt að fela eðli virkjana með því að nefna þær nöfnum, sem segja nákvæmlega ekkert um þær. 

Gott dæmi er fyrirhuguð virkjun þriggja stórfossa efst í Þjórsá, sem nefnd er Kjalölduveita og var áður nefnd Norðlingaölduveita. 

En auðvitað er alls ekki verið að virkja malaröldurnar Kjalöldu eða Norðlingaöldu. 

Slík virkjun á að sjálfsögðu að vera nefnd eftir stórfossunum þremur, sem ein og sama virkjunin á að drepa, Þjórsárfossavirkjun, rétt eins og að Einar Ben nefndi Urriðafossvirkjun eftir fossinum, sem átti að virkja, en ekki eftir Þjórsárholti, sem fyrirhuguð fallgöng verða í. 


mbl.is Leggja til friðlýsingu þriggja svæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkadrættir um mál, sem krefst fyllstu athygli.

"Er það nokkuð frekar nauðsynlegt að innleiða 3. orkupakka ESB hér á landi en að innleiða viðamikla tilskipun um járnbrautarlestir?" spurði Jón Baldvin Hannibalsson í spjalli á Hringbraut. 

Í spurningu Jóns felst mótsögnin í þessu máli. 

Annars vegar er sagt að engin þörf sé á innleiðingu pakkans vegna þess að hann eigi hvort eð er ekki við á méðan Ísland sé ekki tengt inn í orkunet Evrópu. Sem sagt: Nei.  

Hins vegar er sagt, að vegna þess að við séum ekki tengd við orkunetið, sé það bara allt í lagi að lögleiða orkupakkann og halda okkur þannig inni í EES-ferli, sem hafi reynst okkur vel. Sem sagt: Já. 

Athyglisverðir flokkadrættir og skiptar skoðanir eiga sér stað innan stjórnmálaflokkanna um málið. 

Í ljósi þess að yfirlýsingar ráðamanna um að sæstrengur muni koma er nauðsynlegt að sýnd verði alúð og framsýni við að skoða málið eins vel fram í tímann og unnt er, að stilla upp mismunandi sviðsmyndum. 


mbl.is Þriðji orkupakkinn í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkir vængir!

Þegar ég fór að kynna mér flug af ástríðu og gefa mig því á vald, varð lofteðlisfræði eftirlætis fyrirbærið. Örn á flugi

En enda þótt NASA og færustu sérfræðingar á sviði hennar hafi hannað flugvélavængi með svo mikilli tækni og fullkomnun, að aðdáun vekur, bliknar það í samanburði við það sem náttúran sjálf hefur þróað. 

Á best hönnuðu flugvélum nútímans má sjá afar flókinn búnað varðandi margraufa flapa, hallastýri og blöndu af þessu tvennu; vængendaugga, smágerða stýriodda (vortec generators) ofan á vængjum o.s.frv., en miðað við hina dásamlegu fullkomnun í loftstýringu hverrar fjaðrar og sveigjanlegra beinanna í fuglsvæng, eru mannanna verk hjóm eitt. 

Í vængjum fugla getur hver einasta fjöður hreyfst sjálfstætt á svo flókinn hátt, að tölvur myndu ekki ná fram neinu svipuðu.  

Tveir stærstu ránfuglar Íslands, örninn og fálkinn, hafa ólíka vængi að mörgu leyti, og miðast vænglagið og vænggerðin við ólíka eiginleika þessara fugla. 

Fálkinn er einfaldlega það dýr jarðar, sem nær mestum hraða, á fjórða hundrað kílómetra hraða á klukkustund þegar hann steypir sér niður á bráð sína, en vængir arnarins miðaðast við að skapa sem mestan lyftikraft á tiltölulega litlum hraða, þegar hann hrifsar bráð sína upp af jörðu eða jafnvel fiska á sjónum. 

Vængir arnarins eru sérstaklega breiðir miðað við lengd, líkt og er á hægfleygum skammbrautarflugvélum á borð við Helio Courier og Fieseler Stork. 

Á flugi verður örninn nánast aðeins vængirnir, en um leið og hann sest, hverfa þeir inn að búknum og fuglinn verður næstum ekkert nema skrokkurinn! 

Á árunum 1987 til 1991 bar vél af gerðinni Dornier D27 einkennisstafina TF-FRÚ, en hún var þýsk eins og Storkurinn forðum og sérstaklega gerð til notkunar á stuttum og ófullkomnum flugbrautum. 

Vængbúnaðurinn var afar fullkominn, miðað við stærð vélarinnar. Fastar vængraufar voru á frambrun vængjanna, stórir flaparnir voru með tveimur raufum, - en merkilegast voru þó hallastýrin, sem voru ekki aðeins með tveimur raufum, heldur féll innri hluti þeirra niður á sama tíma og flaparnir voru felldir og virkuðu sem blanda, eins og konar flapa-hallastýri (flaperons). 

Hinn breiði og þykki vængur gat með þessum búnaði náð áfallshorni upp á 25 gráður, sem er langtum meira en tíðkast á venjulegum flugvélum. 

Svo mikla loftmótstöðu sköpuðu þessi reistu vængir, að vélin hélt ekki hæð, nema á fyllsta leyfilegu stöðugu vélarafli (maximum constant power). 

Létthlaðinni var leyfilegt að fljúga vélinni svo hægt í þessari flugstellingu, að hraðmælirinn sýndi aðeins 24 hnúta, eða 46 km/klst. 

Mörg slys urðu vegna ofriss í hægflugi í óstöðugu lofti á þessum vélum vegna þessara eiginleika; nokkuð sem hinn fullkomni flugfugl örninn, þarf aldrei að óttast.  

Það er hins vegar vafasamt að það standist, sem segir í íslensku vísunni: Örninn flýgur fugla hæst / í forsal vinda. 

Það sést best með því að skoða vængi flugvéla, til dæmis svifflugvéla, og fugla sem hafa vængi miðaðaða við háflug, langa og mjóa. 

 


mbl.is Ákærður fyrir dráp á 137 örnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband