Það þarf greinileg og óyggjandi fingraför.

Fréttaröðin um bílinn sem var ekið inn í Adam og Evu leiðir hugann að því, að Fingraför eru eitthvert persónulegasta einkenni manna, næst á eftir DNA. Þess vegna er lagt mikið upp úr þeim við rannsókn sakamála. 

Fyrir um sex árum var stolið frá mér Toyota 4runner 92 árgerð af bílasölu, sem var með nýjum 38 tommu dekk og breytingar í samæmi við það. 

Ég ákvað, eftir að lögreglan vildi ekkert gera í málinu, að reyna að rannsaka málið sjálfur eftir að bíllinn fannst á ræfladekkjum og felgum og búið að saga af honum alla brettakanta, gangbretti og aðrar breytingar og bora gat á bensíntankinn til þess að ná bensíninu af honum. 

Á skrifstofu lögreglunnar var mér bent á gríðarstóran skýrslubunka um bílaþjófnaði sem dæmi um óupplýst þjófnaðarmál. 

En smám saman sýndist mér málið vera að upplýsast hjá mér þegar ég gat fært líkur að því að þjófurinn væri mjög lágvaxinn og gengdi meira að segja viðurnefni af þeim sökum. 

Hann hafði nefnilega gleymt að færa ökumannssætið aftur eftir akstur eða drátt bílsins og var líkast til ekki meira en 1,65 á hæð. 

Við áframhaldandi skoðun var ég ekki aðeins kominn með nafn hans heldur líka hvar geymslustaður þýfisins væri. 

Þegar ég greindi lögreglunni frá þessu og einnig því, að enginn hefði ekið þessum bíl marga undanfarna mánuði á nema ég, ákvað lögreglan að fá bílinn til sín og láta leita fingrafara. 

Þeir sögðust annars ekki getað fengið leyfi fógeta til að rannsaka meintan geymslustað, jafnvel þótt mikill fengur gæti verið í því að finna þar þýfi úr mörgum þjófnaðarmálum. 

Fingraförin fundust, en sérfræðingur sagði, að þau þyrftu að vera örlítið skýrari til þess að þau gögnuðust sem fullnaðar sönnunargögn. 

Við leit að 38 tommu dekkjunum fínu var einn þeirra viðmælenda minna, sem vissu ansi margt um undrheima bíla- og vélhjólaþjófa, furðu fljótur að finna bráðabirgðalausn fyrir mig. 

Hann útvegaði mér slitin en þó nothæf 38 tommu dekk á brúklegum felgum fyrir gjafverð! 

Ekki vildi hann gefa upp nafn hinna örlátu seljenda, og mig grunar, að þessi hjálpsami maður hafi komist að þvi hverjir þjófarnir voru og getað fengið þá til að iðrast lítillega og gauka að mér þessari sárabót!   


mbl.is Rannsókn á bílnum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sömu "breyturnar" í jafnréttislandinu um aldir?

Fyrir fimm árum blöskraði mér sú firring gagnvart kjörum alþýðu um aldir hér á landi og þáverandi forsætisráðherra hélt fram 17. júní að hefðu verið hér alla Íslandssöguna. 

Nú les maður aftur hér á blogginu að Ísland sé jafnlaunaland og að í gegnum aldirnar hafi verið sömu "breyturnar" í þeim efnum hér á landi. 

Fólk hafi getað "valdið sér foreldri" ef það var heppið og líka komist vel af ef það var óheppið með foreldri. 

Ég hef aldrei heyrt það fyrr að fólk geti valið sér foreldri og talið um jöfnuð í gegnum aldirnar passar ekki við mína reynslu af fyrrum samtíðarfólki mínu. 

Amma mín heitin valdi sér ekki foreldri þegar hún var send að heiman sjö ára gömul frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand í skiptum fyrir kú. Og hún valdi sér ekki heldur verðmiðann. 

Það er ekki lengra síðan. Ég er að tala um ömmu mína. 

Afi minn var sendur frá 16 ára aldri í tíu vetur gangandi um vegleysur frá Landbroti í Skaftafellssýslu til Suðurnesja til að róa á vertíð um hávetur á litlum bátum við hættulegar og útrúlega frumstæðar aðstæður. 

Hann gekk heim í maí og afhenti húsbónda sínum launin, en þáði húsnæði og fæði í staðinn fyrir vertíðarvinnuna og stritið heima síðari hluta árs. 

Það er ekki lengra síðan. Ég er að tala um afa minn. 

Á bænum þar sem ég var í sumardvöl í sveit í fimm sumur sem drengur kynntist ég fjórum konum, sem hvorki "völdu sér foreldri" né áttu þess kost að ráða kjörum sínum eða búsetu. 

Ein þeirra, Margrét Sigurðardóttir, var niðursetningur á bænum, þá orðin fjörgömul en hélt heilsunni með göngum um dalinn í hlutskipti förukonu.  

Skarpgáfuð og fjölfróð um ljóð og fagurbókmenntir, en hún var fædd á bæ ómegðar og hörmulegra kjara, þar sem fjölskyldan flosnaði snemma upp og henni var holað niður sem barn. Hún valdi sér hvorki foreldri, fósturforeldri né búsetu og lýsti fyrir mér þeim kulda, sulti og eymd sem hún ólst lengstum upp við. 

Systir hennar varð næstum úti í óveðri og missti fæturna vegna kals. Var uppnefnd Steinunn fótalausa en Margrét "Manga með svartan vanga." 

Þótt vistarbandið hefði í orði kveðnu verið aflagt, var fólk af hennar toga í raun haldið í fátæktrargildru vistarbands. Það hafði ekki atkvæðisrétt. Vesturfarirnar voru úr sögunni og ráðandi öfl á Íslandi höfðu haldið myndun þéttbýlis við sjóinn niðri eftir föngum. 

Manga átti sér draum um bónda og fjölskyldu á eigin jörð, en missti eina barn sitt við fæðingu af völdum vinnuhörku á bænum. Eftir það var hún jafnvel kölluð Gelda Manga. 

Barnsfaðirinn hljóp frá henni, enda öll kot í Húnavatnssýslu setin, allt upp í 330 metra hæð á Laxárdal, þar sem 200 manns bjuggu á 30 kotum, og einnig var búið langt inn á heiðar og hálendi, allt upp í Rugludal í 440 metra hæð langt inni á Auðkúluheiði. 

Á því koti bjó Ásdís Jónsdóttir skáldkona, um hríð með heilsuveilum bónda sínum sem lést um aldur fram. Ég á í fórum mínum bréf frá henni til vinkonu sinnar sem lýsir vel ófrelsinu og ömurlegum kjörum hennar líka. 

Það er ekki lengra síðan. 

Hún varð niðursetningur ásamt tveimur dætrum sínum og var þeim holað niður í ömurlegasta hreysi Húnavatnssýslu, hálfhrundan torbæ í Hvammi, þar sem ég var í sveit. 

Engin þeirra valdi sér foreldri né búsetu. 

Þær bjuggu við ömurleg kjör sem ég reyni að lýsa í bókinni "Manga með svartan vanga - sagan öll." 

Síðan koma menn í dag og halda því fram að um aldir hafi ríkt hér frelsi og jafnrétti. 

Eins og áður sagði lýsti þáverandi forsætisráðherra því meira að segja í hátíðarræðu 17. júní, hvílíkur jöfnuður hefði verið hér á landi alla tíð, og þetta tal stingur enn og aftur upp kollinum. 

En ennþá eru þeir þó til sem geta borið vitni um hið sanna í þessum málum. 

Vitnað til samtíðarfólks og ættingja fyrr á tíð. 

Það er ekki lengra síðan. 


mbl.is Eignaskipting mjög ójöfn á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband