Albert lumaði á ýmsum þaulæfðum snilldartöktum.

Faðir minn heitinn, Ragnar Edvardsson, ólst upp í sama hverfinu í kringum Lokastíginn á Skólavörðuholtinu og Albert Guðmundsson og spiluðu þeir mikið saman fótbolta sem strákar, já, daglega og klukkustundum smaman, ef það var hægt. 

Hann talaði síðar mikið um það hve ólíkur öllum öðrum Albert hefði verið alla tíð, fylginn sér og eindæma duglegur og einbeittur við hvað, sem hann tók sér fyrir hendur. 

Til dæmis nægði honum ekki öll spilamennskan með hinum strákunum, heldur æfði hann alls kyns knattleikni einn tímunum saman. 

Sum brögðin, svo sem "skærin" gátu fleiri strákanna tileinkað sér, en enginn í líkingu við öll þau tilbrigði, sem Albert æfði og náði valdi á. 

Þegar Albert spilaði í Stjörnuliðinu svonefnda á eldri árum, orðin tugum kílóum þyngri, og kominn á sextugs- og sjötugsaldur, voru gabbhreyfingarnar og leiknin þarna enn hjá honum, en þá gafst tækifæri til að spyrja hann nánar út í nokkur sératriði, svo sem eftirfarandi 

1. Að taka þannig við langri sendingu, að "grípa boltann" á ristina, án þess að hann snerti jörðina, og halda honum þar kyrrum, líkt og þegar maður grípur handbolta og heldur honum, og nota síðan mismunandi snúninga á hinum fætinum í framhaldinu til að senda boltann í hvaða átt sem var á samherja. Albert gerði þetta nokkrum sinnum, kominn á elliár, og ég hef aldrei fyrr né síðar séð nokkurn annan gera þetta. 

2. "Skærin", að hlaupa yfir boltann í gabbhreyfingum, á fjölbreytilegan hátt. 

3. Að "taka boltann með sér" með því að snúa sér með hann, líkt og Sindri Snær Magnússon gerði í leik ÍBV gegn Stjörnunni með svonefndum Zidane-snúningi, og skapa sér þannig færi til að skora eða senda í lok viðsnúningsins. 

4. Að ganga rólega að boltanum við að taka vítaspyrnu og hreyfa sig nákvæmlega eins og menn gera oft, beygja sig niður til hagræða boltanum með hendinni en spyrna á sama augnabliki í boltann á þann hátt, að hreyfing handarinnar dregur alla athygli frá spyrnunni og boltinn syngur í netinu augnabliki siðar. Bragð, sem byggist á því að beita sjónblekkingu og notað er af töframönnum til að blekkja áhorfendur, þar með talinn markvörðinn. Í vítaspyrnukeppni, sem oftast var bætt við leiki Stjörnuliðsins, gerði Albert þetta reglulega og það klikkaði aldrei. 

5. Að skjóta boltanum að marki með snúningi af löngu færi, allt að 35 metra færi, þannig að boltinn stefndi hátt út fyrir markið hægra megin. En loftmótstaðan vegna snúnings boltans sneri honum síðan niður efst í bláhornið! Þetta gerði Albert tvisvar í sama leiknum við erlent lið á Melavellinum og skoraði með því bæði mörk Vals. 

6. Að skora mörk frá eigin vallarhelmingi með því að gera það að reglu að fylgjast allan leikinn með markverði andstæðinganna, ef hann skyldi fara eitthvað út úr markinu þegar verið var að spila hinum megin á vellinum. Á ferli sínum í ítölsku og frönsku úrvaldsdeildunum skoraði Albert nokkur svona mörk. 

7. Að fá leyfi til þess í vináttu körfuboltaleik, að taka vítakast utan við vítapunkt með því að nota fótinn en ekki höndina! Og skora!!  

Albert var dáður víða um lönd fyrir færni sína þegar hann spilaði bæði með Frakklandsmeisturunum og Ítalíumeisturunum og til dæmis var skrifað um það í blöðunum ytra, eftir einn blaðamannafundinn með honum, þar sem tekin var fræg mynd af honum sparibúnum á jakkafötunum og blankskónum, hátt á lofti með boltannn á tánum, að hann gæti gert hvað sem er með boltann, nema kannski ekki að láta hann tala! 

 


mbl.is Zidane-snúningur Sindra var skyndihugmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófyrirséður siður ryður sér til rúms.

Ef einhver hefði spáð fyrir nokkrum árum um það fyrirbæri, sem grasserar nú og kallast rafrettur með tilheyrandi gufustrókum um víðan völl, hefði sá spámaður þótt fara ansi langt fram úr sjálfum sér. 

En tölurnar sem nefndar eru um útbreiðslu hins nýja siðar eru ótrúlega háar, en sýna, að meira en tvöfalt fleiri hafa tekið þennan sið upp en nemur þeim, sem hafa hætt að reykja tóbak, eða nota rafretturnar til að hjálpa sér við það. 

Sjá má í umferðinni bíla á ferð, þar sem engu er líkara en að kviknaði hafi í inni í fremri hluta bílsins, vegna þess hvernig reykurinn liðast út um hálfopinn framgluggann. 

Miðað við þessar vinsældatölur er ekki furða, þótt nú hefjist deilur um ágóðann af því að versla með retturnar eins og sjá má á tengdri frétt á mbl.is.

Fyrir tæpri öld skrifaði Halldór Laxness hressilega um siði þess tíma, svo sem að spýta tóbakslegi upp um veggi, og þætti slík iðja ekki boðleg á okkar tímum. 

En varðandi þá siði eða ósiði, sem viðgangast á hverjum tíma við neyslu fíkniefna, því að nikótín og koffín eru í raun fíkniefni, sést glögglega að þörfin fyrir slíkt getur fundið sér nýja og nýja farvegi á hverjum tíma. 

Og einnig að þörf er á að taka upp umræðu og umfjöllun um kosti og galla nýrra siða.  


mbl.is Borga „heilt raðhús“ fyrir leyfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband