Fyrsti rafbíllinn með útskiptanlegum rafhlöðum?

Ekki þarf annað en að líta á línurit yfir hratt vaxandi orkueyðslu jarðarbúa í formi jarðefnaeldsneytis til að sjá, að á seinni hluta þessarar aldar í síðasta lagi, mun hún hrapa hratt niður á við. Rafbíll Frankfurt

Þótt engin loftslaghlýnun væri í gangi, verður það tröllaukið verkefni að mæta þessu hruni olíualdarinnar. 

Meira að segja Sádi-Arabar eru sagðir búa sig undir hrunið hjá sér, sem verði eftir hálfa öld, meðal annars með því að leggja drög að kjarnorkuverum. 

Af þessum sökum eru smá farartæki, sem rokseljast ekki nú, líkleg til að leika stórt hlutverk í samgöngubyltingunni, sem koma skal, og örbílar og hjól því á undan sinni samtíð. 

Á bílasýningunni í Frankfurt mátti sjá örbíl, sem svipar um margt til Renault Twizy, en býr yfir endurbót á hinum litla franska bíl. Renault Twizy

Það er ókostur Twizy, sem hægt er að leggja þversum í stæði, svo að þrír bílar komast léttilega þar sem einn venjulegur bíll er, að loftmótstöðustuðull hans er afar stór, 0,68 cx, eða meira en tvöfalt meiri en á venjulegum bíl, og það takmarkar hámarkshraðainn við 80 km/klst og drægnin getur farið niður í 50 kílómetra. 

Twizy er aðeins 1,23 m á breidd og því situr bílstjórinn í miðju bílsins og farþegi þétt aftan við hann, líkt og á vélhjóli. 

Bíllinn líkist því yfirbyggðu vélhjóli og þetta fyrirkomulag skapar möguleika á því að hafa autt rými sitt hvorum megin við sætin, sem getur aukið öryggi i hliðarárekstri. 

Í Twizy er þessi mögleiki ekki notaður nægilega og inndregnar hliðarnar og útstæð hjólin skapa óþarfa loftmótstöðu. 

Á sýningarbílnum í Frankfurt sést, að við þessu er reynt að bregðast á lagi bílsins, sem er mun straumlínulagaðra en á Twizy, einkum afturhlutinn, rýmið er meira og bíllinn er 2,50 m, en Twizy er 2,32.  

En merkilegast við þennan bíl er hins vegar það, að hann er með útskiptanlegum rafhlöðum, eins og nú er á fjölmörgum nýjustu rafbifhjólunum. 

Þetta er bylting á rafbíl, því að það er erfitt á venjulegum rafbíl að hugsa sér lausn á því vandamáli að skipta út 500-700 kílóum af rafhlöðum. 

En nýi örbíllinn er aðeins rúmlega hálft tonn, og með betri rafhlöðum, sem von er á,  ætti að vera hægt að ná fram meira en 100 kílómetra drægni á ca 120 kílóa rafhlöðum. 

Það þarf ekki að vera óyfirstíganlegt að bera jafngildi sex bensínbrúsa nokkur fet á milli skiptistöðvar og bíls, og ef sett yrði upp skiptistöðvakerfi líkt því sem Gogoro hefur gert á Tævan, yrði slíkt frábær lausn. 

Þess utan væri hægt að hlaða bílinn á hefðbundinn hátt eða hraða rafhlöðurnar innadyra. Rafbíll Frankfurt

Dyrabúnaður er betri en á Twizy, og seins og sést opnast dyrnar beint upp, svo að þær taka ekkert pláss.  


mbl.is Segway spanar inn á nýtt svið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirðing við Grænlendinga.

Athyglisvert er að frétta um þau viðbrögð Dana við kröfum Bandaríkjaforseta um að eignast Grænland, að af Dana hálfu verði eftirlit með landinu hert hernaðarlega og það sett efst á lista öryggismála, á undan mögulegri ógn hryðjuverka og netglæpa. 

Þetta eru eðlileg viðbrögð, ekki aðeins gagnvart kröfu Trumps um að eignast Grænland og auðlindir þess, heldur ekki síður gagnvart þeirri hugsun hins bandaríska auðjöfurs, að allt sé falt fyrir peninga. 

Með því að krefjast þess að fá að kaupa Grænland og firtast síðan við og fara í fýlu með því að hætta við heimsókn til Danmerkur þegar Danir hlýddu ekki, sýndi Bandaríkjaforseti Dönum og ekki síður íbúum Grænlands einstæða lítilsvirðingu. 

Hann leit á Grænlendinga eins og hvern annan varning sem hægt væri að versla með og kaupa og selja. 

Þar að auki hafði hann ekki kynnt sér það, að samkvæmt grænlenskum lögum á enginn landið, heldur er eignaréttur á landi ekki til. 

Ef rætt er um landareignarrétt á Grænlandi, er helst hægt að orða það svo, að Grænland eigi sig sjálft og að Trump megi eiga sig. 


mbl.is Danir auka eftirlit með Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sáuð þið, hvernig ég tók hann!"

Eina af þekktustu setningum íslenskra leikbókmennta lagði Matthías Jochumsson í munn Jóni sterka í Skugga-Sveini eftir að Jón féll í glímu, en spratt eins og fjöður upp og hrópaði: "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"

Jón kemst þó ekki með hælana þar sem Bandaríkjaforseti hefur tærnar hvað varðar umfang og tiðni svipaðra ummæla alls hans viðskiptaferils, þar sem hann hefur fullyrt, að hann hefði haft frækinn sigur í öllum sínum mörgu gjaldþrotamálum. 

Enn stærri eru upphrópanirnar á stjórnmálaferlinum, svo sem það að hann hefði í raun borið sigurorð af Hillary Clinton 2016 hvað snerti bæði atkvæðamagn og kjörmannafjölda. 

Þó er það staðreynd að Clinton fékk tæplega þremur milljónum fleiri atkvæði samtals en Trump!

En Trump fær allt annað út með því að segja að ef hann hefði viljað fá fleiri atkvæði en Hillary, hefði honum tekist það léttilega; það hefði bara verið einfaldara og öruggara að stefna að meirihluta kjörmannanna!  

Þótt Bandaríkjamenn skuldi Kínverjum hrikalega háar fjárhæðir er Trump efst í huga frækinn sigur í tollasstríði við sem hafi orðið til þess að þeir hafi beygt Kínverja, en ef Hillary hefði verið kosin hefðu Kínverjar brunað fram úr Bandaríkjamönnum á kjörtimabilinu! 

Trump mærir mjög hve langt hann hafi komist í að gera Ameríku mikla,

Í krafti þessa kjörorðs síns setti hann meira en 200 prósenta toll á ákveðna stærð af nýjum þotum af kanadískum uppruna, sem voru miðaðar af miklu hugviti við stækkandi markhóp flugfarþega, sem sætaskipanin 2 plús 3 í stað 3 plús 3 hentaði afar vel og skapaði meira rými og þægindi á hvern farþega en áður hafði þekkst í þessum stærðarflokki.  

Á Trump er svo að skilja að útilokun þessara þotna frá bandarískum markaði og hámarks hindranir í því að þær fengju góðar viðtökur myndi eiga þátt í að gera Ameríku mikla á ný, sem er dálítið skondið í ljósi þess að Kanada er í Norður-Ameríku rétt eins og Bandaríkin. 

Þetta dæmi er táknrænt fyrir margt af því, sem þröng hugsun múra og hindrana getur komið til leiðar á þann hátt að einn þátttakandi í heimsframleiðslunni þjösnist fram í krafti ítrustu síngirni á kostnað heildarinnar. 


Bloggfærslur 30. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband