Hreindýr og önnur dýr á bannlista? Já, af fenginni reynslu.

Reynsla síðuhafa af því að fljúga með dýr um borð í flugvélum er ekki góð, svo að ekki sé meira sagt. Þetta hefur að vísu aðeins gerst tvisvar, en tvisvar sinnum reynist vera tvisvar sinnum of oft. 

Fyrra skiptið var á Akureyri, flugvélin var fjögurra sæta vél af gerðinni Cessna 172 Skyhawk og farþeginn, sem setti svo sannarlega mark sitt á þetta eftirminnilega flug með dýr um borð.  

Atvikið gerðist raunar í framhaldi af algerri neitun varðandi þetta flug, en konan, sem átti hundinn, hafði samið um það að fá að verða samferða frá Akureyri, og sótti það afar fast að fá að vera með sitt elskulega, ljúfa og yndislega dýr með sér, nánar tekið hund af tæplega meðalstærð.

Konan kom samt út á völlinn með hundinn meðvitundarlausan í stórri köru eftir sérstaka lyfjagjöf að hennar sögn, auk þess sem hundurinn var kyrfilega bundinn niður af "sérfræðingi" að sögn konunnar.

Svo fór að samþykkt var að skorða hundinn niður í öryggisbelti í aftursæti vélarinnar við hliðina á hinum elskandi eiganda. 

Allt gekk vel í fyrstu og hundurinn lá alveg grafkyrr, slakur, sætur og njöraður niður,  þangað til komið var yfir Oddeyrina í klifri með stefnu á Þelamörk til að fljúga vestur yfir Öxnadalsheiði. 

Þá dundu ósköpin yfir: Hundurinn rankaði við sér og gersamlegal trylltist, urraði, gelti og ólmaðist eins og óður væri. 

Konan togaði í hálsólina en réði ekkert við hið tryllta rándýr, sem byrjaði strax að losa sig úr bindingunum, sem auðvitað var mjög sárt, svo að hann varð enn óðari; nú einnig vegna sársaukans.  

Það er skemmst frá því að segja, að snúa varð flugvélinni við í snatri og við tók keppni á milli flugmanns og hunds um það að lenda án stórslyss. 

Því miður leið það langur tími þar til aftur kom til þess að flytja dýr í flugi, og var það ungt hreindýr í það sinn. 

Það hafði verið á sýningu í Reykjavík í tilefni 200 ára afmæli borgarinnar og flutt með flutningabíl þangað frá bænum Eyjólfsstöðum í Berufirði. 

En þegar sýningunni lauk vantaði flutningstæki til baka og varð úr að dýrið yrði flutt með flugvélinni TF-HOF austur á Djúpavog, en þessi flugvél var tveggja hreyfla sex sæta vél af gerðinni Piper Apache PA-23. 

Tvær aftari sætaraðir vélarinnar voru teknar úr henni, dýralæknir sá um að svæfa dýrið og það var kyrfilega ólað niður fyrir aftan framsætin, en við hlið flugmanns sat unglingsstúlka frá Eyjólfsstöðum, sem dýrið var einstaklega hænt að. 

Lagt var af stað í prýðisveðri og flugleiðin höfð sem beinust austur á Djúpavog, nánar tiltekið austur eftir Vatnajökli sunnanverðum. 

Allt gekk eins og í sögu þar til komið var yfir ofanverðan Breiðamerkurjökul í sjð þúsund fetum. 

Þá gerðist það allt í einu að dýrið rumskaði hressilega við sér og sparkaði fast með fótunum. 

Skyndilega heyrðist smellur og allt í einu sviptist farangurshurðin aftast í vélinni upp, og dýrið rann þar út með afturfæturna, en hékk þó áfram í böndunum. 

Nú var ekkert um að ræða en að reyna að lenda vélinni með afturhluta hreindýrsins hangandi út úr vélinni aftast hægra megin. 

Þannig var hökt vestur til flugvellarins á Fagurhólsmýri, og má nærri geta að þeir, sem voru á jörðu niðri, þegar flogið var yfir þjóðveginum, og sáu flugvél koma fljúgandi með hálft hreindýr hangandi út, hafi varla trúað sínum eigin augum. 

Éftir lendingu á Fagurhólsmýri leiddi skoðun á farangurshurðinni í ljós að hreindýrinu hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að krækja klaufinni á öðrum afturfætinum í fals neðst í hurðinni, sem gat opnað hurðarlæsinguna! 

Ekki var gefist upp þarna, heldur hreindýrið bundið enn betur en fyrr, límt fyrir falsið innan á hurðinni og leiðangrinum lokið á flugvellinum við Djúpavog. 

Niðurstaða: Ekki fleiri flug með dýr, takk!

 

 


mbl.is Hestur um borð í flugvél vekur reiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bilaði ekki alveg ný lína?

Ekki var hægt að heyra annað en að ein af fyrstu raflínunum, sem biluðu, hafi verið Þeystaréykjalína. Sú lína er splunkuný og hönnuð fyrir stóriðju á Bakka við Húsavík. 

Ef þetta er byggt á misheyrn, væri fróðlegt að heyra nánar af þessu, því að í deilum um þessa línu hafði Landsnet sitt fram um það að hafa hana sem næst sínum hugmyndum, meðal annars að leggja hana á einum stað yfir afar verðmætt svæði út frá náttúruverndarsjónarmiðum í stað þess að fara heldur lengri leið. 

 


mbl.is Tregða að fá leyfi til að endurnýja línur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man einhver eftir Hólmsheiði? Einu sinni nægðu ælupokarnir.

Fyrir rúmum áratug stóð álíka umræða um innanlandaflugvöll á Hólmsheiði og nú stendur um Hvassahraun. Hver af öðrum talaði upp í annan um það hve ákjósanlegt það væri að gera þar þennnan líka frábæra flugvöll. 

Þótt hugmyndin væri andvana fædd vegna hinna augljósu ókosta sem þetta flugvallarstæði hafði, var Hólmsheiði töfraorð í hugum ótrúlega margra í nokkur ár. 

Það tekur því ekki núna að fara að rifja upp þessa umræðu, sem dó næstum því jafn skjótt og hún kviknaði. 

Hæð vallarins yfir sjó, nálægð við fjöll, takmarkað rými og hæðótt flugvallarstæði, og aðalaðflug svo kílómetrrum skipti yfir þétta byggð í allt frá Vogahverfi yfir Úlfarsárdal og Grafarholtshverfi voru meðal fjölda augljósra atriða sem felldu þessa hugmynd sem betur fór. 

Nú er það Hvassahraun og enn og aftur eru það nálægð við 700 metra háan fjallgarð og áhrif þess á flug að og frá vellinum í algengustu hvassviðravindáttinni, stæði á vatnsverndarsvæði,  óheyrilegur kostnaður og fleira, xem munu fella þessa hugmynd, nema kannski að mönnum takist með því að brjóta gróflega skilyrði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um fimm ára veðurathuganir að láta tvö heppnisár ráða. 

Fyrir um 60 árum drapst hugmyndin um flugvöll við Hvassahraun í einu flugi með Flugráð, þar sem gert var eitt aðflug og fráflug að flugvallarstæðinu í snarpri en langalgengustu vindáttinni úr austsuðaustri en jafnframt, eðli málsins samkvæmt, samsvarandi aðflug og fráflug að Reykjavíkurflugvelli til samanburðar. 

Meira þurfti ekki. Ælupokarnar í Hvassahraunsfluginu nægðu.  

Dögum saman eru nú birtar myndir af hinum glæsilega flugvelli í Hvassahruni,(það hraun heitir reyndar Almenningar)  þar sem litið er fram hjá því að samkvæmt teikningunum verði gercöllum flugvellinum klesst yfir Reykjanesbrautina eins og ekkert sé. 

Man einhver eftir hinni stórfenglegu hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum og Bessastaðanesi?  


mbl.is Hvassahraun er fjarstæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband