Þarf að fækka hamlandi atriðum varðandi Akureyrarflugvöll.

Þegar flugstjóri flugvélar þarf að ákveða, hvort hann flýgur til varaflugvallar, og í framhaldi af því, hvaða flugvöllur verði fyrir valinu, skiptir miklu máli, hvort og þá hve mörg hamlandi atriði virka hamlandi á ákvörðun hans. 

Sumum atriðum er erfitt að breyta. Á Egilsstöðum eru það atriði eins og fámennara samfélag og minni möguleikar á þjónustu en í tífalt fjölmennari byggð á Akureyri, og meiri fjarlægð suður. 

Á Akureyri blasir við mun meira og hærra fjallalandslag sem gerir aðflug vandasamara og tvísýnna, og enginn skyldi vanmeta þetta atriði, sem snertir djúpt ábyrgðartilfinningu flugstjórans hverju sinni. 

Öðrum atriðum er hægt að breyta á báðum stöðum, og hvað Akureyri snertir, skiptir það afar miklu að lagfæra þau sem best, svo að þau leggist ekki þungt að óþörfu ofan á hamlandi áhrif fjallalandslagsins á aðflugið. 

Á báðum stöðum bráðvantar endurbætur á flugvallarmannvirkjunu sjálfum, flughlöðum og stæðum á báðum stöðum og flugbrautinni á Egilsstöðúm. Brautin mætti alveg vera lengri á Akureyri. 


mbl.is Frekari uppbygging Akureyrarflugvallar fyrirhuguð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófullkomið lýðræði.

Lýðræðið er líklega skásta stjórnarform, sem fundist hefur, en á því eru víða óþarfir gallar. 

Bandaríkjaforseti flaggar því stanslaust að hann hafi verið lýðræðislega kosinn, þótt við blasi, að mótframbjóðandinn fékk næstum þremur milljónum fleiri atkvæði 2016. 

Flokkur mótframbjóðandans ber reyndar að fullu sína ábyrgð á því að gallað kjörmannakerfi skuli ráða í stað hreins og beins lýðræðis, því að báðir stóru flokkarnir í Bandaríkjunum hafa keppst við að nýta sér meinbugina á þessu kerfi, og 2016 reyndust fylgjendur Trumps einfaldlega útsmognari í því að nýta sér þessa veilu. 

Í Bretlandi eykur Íhaldsflokkurinn fylgi sitt um aðeins eitt prósentustig en fær yfirgnæfandi meirihluta þingmanna út á 43ja prósenta heildarfylgi, þannig að jafnvel þótt hinir flokkarnir séu alls með 57 prósent atkvæða meirihluta, geta þeir sig hvergi hrært. 

Tvisvar á síðustu öld munaði minnstu að einn flokkur fengi hreinan meirihluta á þingi hér á landi út á afgerandi minnihluta atkvæða, árin 1931 og 1953, í fyrra skiptið Framsóknarflokkurinn, en í síðara skiptið Sjálfstæðisflokkurinn. 

Þessu olli meingallað kosningakerfi einmenningskjördæma, sem skilaði Seyðisfirði tveimur þingmönnum 1949 út á nokkur hundruð atkvæði. 

Sumir myndu segja, að stjórnarandstaðan sé hvort eð er ósamstæð, og að það sé því Bretum fyrir bestu að tryggur meirihluti þingmanna gefi af sér stöðuga stjórn. 

En lýðræðislegt geta svona úrslit tæplega talist. 


mbl.is Samþykkt að ákæra Donald Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband