Tugur byrjar á númer 1 og endar á númer 10, ekki á númer 0 og númer 9.

Hvar enda fyrstu 10 sentimetrarnir á tommustokk?  Hvar enda tíu fingur?

Ef sentimetrarnir eru merktir, hver fyrir sig, er sá fyrsti með númer eitt, en sá tíundi með númer 10, ekki sá með númerið 9. 

Ef síðan er haldið áfram að telja, verður næsti tugur sentimetra merktur með númerunum 11-20.

Ekki með númerunum 10-19. 

0g þegar 2000 sentimetrar eru komnir, verða næstu tíu sentimetrar á sama hátt og í upphafinu, með tölustöfunum 1-10, ekki 0-9, og þar næstu sentimetrar með 10 til 19.   

Sama er að segja um 21. öldina. 21. öldin byrjar ekki árið 2100, heldur byrjaði hún árið 2001 og endar árið 2100. 

Jæja, sleppum því, þá verð ég löngu dauður. 

Árið 2000 var síðasta ár 20. aldarinnar, ekki árið 1999.  

Að þessu slepptu er skemmtilegt að láta enskuna eða dönskuna ráða hugsunarhættinum í vel skrifaðri blaðagrein. Tala um fiftís og næntís eða um halvtreserne  og halvfemserne. 

Svo að vikið sé að ljósvakamiðlum er þetta daður endalaust. Þrástagast er á því þessa dagana að höfundur Vesalinganna sé Viktor Hugo með framburði, þar sem stafurinn H er borinn fram af áherslu: HÚGÓ.  

Á frönsku er framburðurinn Ygo. 

Og í HM i Frakklandi var stafurinn H borinn hart fram í fjölmiðlum hér í nafni borgarinnar Le Havre og sagt LU HAVRE í stað hins rétta framburðar: Lu avr. 

Af hverju er hægt að flokka þetta undir daður við enskuna?  Vegna þess að engum myndi detta í hug að bera nafn Eisenhowers, fyrrum forseta Bandaríkjanna, fram, eins og íslenskt ei í nafninu Einar.   


mbl.is Áratugur ólgu og breytinga á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur: Stíll gæðingsins.

"Af hverju lyftir hann hnjánum svona hátt?" var ég spurður áðan, þegar sýnt var áðan í sjónvarpinu, hvernig Vilhjálmur Einarsson stökk í þrístökki. 

"Þetta sérðu líka gæðinga gera" var snöggsoðið svar til að útskýra það sem Vilhjálmur gerði sjálfur, bæði í bókinni sem hann skrifaði um þátttöku þeirra tveggja Íslendinga, sem Íslendingar töldu sig hafa efni á að senda alla leið til Melbourne og einnig síðar nánar persónulega. 

Vilhjálmur hafði, öllum á óvart, stokkið 15,83 metra á móti í Karlstad í Svíþjóð skömmu fyrir Ólympíuleikana og þar með tryggt sér rétt til Ólympíuþátttöku.  

Hann æfði eftir leiðbeiningum eins þekktasta þjálfara Svía í bókinni "tresteg og stav" og Íslendingarnir tveir fengu að æfa með sænska Ólympíuliðinu í tvær vikur yfir leikana. 

Sá sænski sá Vilhjálm stökkva og sagði við hann:  Þú átt að geta lengt miðstökkið án þess að stytta hin stökkin, með því að teygja sem mest úr miðstökkinu og "fá meira hang í það". 

Vilhjálmur fór að ráðum hans, stökk 43 sentimetrum lengra í Melbourne og setti Ólympíumet sem stóð alveg fram í síðasta stökkið hjá Da Silva, sem varð 9 sentimetrum lengra.  

Vilhjálmur háði tvö einvígi við Ferreira Da Silva í Reykjavík, en Da Silva varð Ólumpíumeistari í Helsinki 1952 og í Melbourne, og mátti þakka fyrir komast örlítið lengra í síðasta stökki sínum. 

Áberandi var í Reykjavík, hve jafnari stökkin þrjú voru hjá Vilhjálmi en hjá Da Silva og munaði þar miklu um lengra miðstökk og lengra endastökk, þar sem Vilhjálmi tókst að lyfta hnnánum mun meira og teygja ökklana fram í lendingu, svo að minnstu munaði að hann félli aftur fyrir sig í lendingunni. 

Þegar myndin af stökkvurunum tveimur í Melborne eru skoðaðar hægt, sést Da Silva stekkur hærra í fyrsta stökkinu en Vilhjálmur og er fyrsta stökk hans um 30 sentimetrum lengra en hjá Vilhjálmi. 

Vilhjálmur hefur verið talinn brautryðjandi í svonefndum flat-stíl eða fleytingarstíl, þar sem reynt er að láta hraðann fleyta stökkvaranum áfram svo að hann þurfi að lyfta þyngdarpunkti sínum sem allra minnst og þá kannski helst í síðasta stökkinu. 

Þyngdarpunkturinn hreyfist sem stysta leið.  

Fyrsti íslenski þjálfarinn, sem Vilhjálmur leitaði til, sagði við hann, að hann gæti kannski orðið liðtækur kúluvarpari! 

Þegar Vilhjálmur stökk 16,70 metra á Laugardalsvellinum 1960, jafnaði hann gildandi heimsmet. 

Ótrúlegur stökkkraftur Vilhjálms birtist meðal annars í því að hann háði harða keppni í Reykjavík við þáverandi heimsmetahafa í hástökki án atrennu, og mátti varla á milli sjá, hvor væri heimsmethafinn. 

Vilhjálmur hljóp einu sinni í skarðið í 4x100 metra boðhlaupi í landskeppni við Dani, og lenti á móti hraðasta Dananum og hafði betur, ef eitthvað var. 

Í þeirri landskeppni setti hann nýtt Íslandsmet í langstökki, 7,46 metra. 

Síðast hitti ég Vilhjálm á Egilsstöðum á hringferð um landið á vespuhjóli í ágúst 2016. 

Við þekktumst vel síðan í ÍR-húsinu i gamla daga, og hann lyftist allur þetta ágústkvöld 2016, þegar hann heyrði, að i hringferðinni yrði reynt að slá nokkur met, en að til þess að ekki yrði sakast við mig um að gæta ekki að öryggi í umferðinni með því að halda rakleiðis o hvíldarlaust áfram allan hringinn, heldur að hvílast eitthvað, bauð hann mér að gista hjá sér og fjölskyldunni. 

Sá svefn var dýrmætur þessa nótt, þótt aðeins væri um 5 stundir að ræða, og hvíldin kom sér vel á síðustu kílómetrunum daginn eftir. 

Margt fleira væri hægt að segja af samskiptum mínum við Vilhjálm og hans fjölskyldu og allt á sama veg; þar var viðmótið alltaf einstök hjálpsemi og vinátta. 

Blessuð sé minning hans.  


mbl.is Forsætisráðherra minnist Vilhjálms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðþrifamál þurfa að vera óháðari umdeilanlegri fjáröflun.

Umdeilanleg fjáröflun er sérkennilegt fyrirbæri hér á landi þegar um þjóðþrifastarfsemi eins og björgunarsveitir og háskóla er að ræða. 

Sífelldar rökræður um spilakassa sem uppsprettu ógæfu fjölda fólks og um árlega óvissu með eiturloft langt yfir heilsuverndarmörkum eru hvimleiðar fyrir þá, sem berjast fyrir góðum málefnum en þurfa að standa í slíku þrasi. 

Nú stefnir að vísu í minna eiturloft yfir höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld en hefur verið undanfarin ár, en það hlýtur að vera æskilegt og raunar sjálfsagt mál, að jafn mikið hugsjóna- og öryggismál og oflugar björgunarsveitir eru fái vaxandi stuðning af sameiginlegum sjóðum landsmanna, sem geri þær ekki eins háðar flugeldasölu og verið hefur. 


mbl.is „Björgunarsveitir lifa ekki án flugelda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband