Margfaldur ávinningur Sáda að verða kjarnorkuveldi.

Það á ekki að vekja neina undrun að helsta olíuframleiðsluríki heims vilji kjarnorkuvæða orkubúskap sinn. 

Nefnd er hernaðarleg ástæða, sú, að þeir geti þróað nýtingu kjarnorkunnar til að koma sér upp kjarnorkuvopnum og styrkt þannig hernaðaraðstöðu sína í þessum órólega hluta heims. 

Furðu myndi gegna ef Bandaríkjamenn reyndu ekki að hafa hemil á slíkri þróun, því að nógu eldfimt er ástandið samt. 

En hluti ástæðu fyrir kjarnorkuvæðingu Sáda gæti verið sú, að vegna vitneskju þeirra um það, hve mikil olía sé enn eftir í jörð, vilji þeir treina sér þær birgðir með því að framleiða kjarnorku að hluta til í staðinn. 

Þannig viðhalda þeir líka lengur sterkri stöðu inni sem olíuríki. 


mbl.is Trump vill veita Sádum kjarnorkutæknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugur draugur, störukeppni með slæmum afleiðingum.

Að undanförnu hefur gamall draugur birst í formi störukeppni launþegahreyfinga, ríkisstjórnar og atvinnurekenda, sem í gegnum áratugina hafa oft endað í skæðum verkföllum með slæmum afleiðingum. 

Sum verkföll hafa afleiðingar, sem jafnvel aldrei tekst að vinna bug á. Þannig er rætt um það, að síðasta sjómannaverkfall, sem var afar langvinnt, hafi haft þær afleiðingar, að hluti af fyrri mörkuðum hafi endanlega glatast. 

Oft hafa skæð og langvinn verkföll haft slæmar afleiðingar fyrr á tíð, en með tilkomu hinnar viðkvæmu ferðaþjónustu sem mikilvægasta atvinnuvegar landsins, geta afleiðingarnar af slíkum verkföllum orðið mun verri nú en nokkru sinni fyrr. 

Eðli störukeppni er það, að þá geta þátttakendur í henni misst stjórn á henni og þar með atburðarásinni.

Þegar litið er á svokölluð útspil til að koma til móts við sjálfsagðar kröfur lægst launaða hluta launþega, blasir við skilningisleysi og nánasarháttur, sem boðar ekki gott. 


mbl.is Tillögurnar langt undir væntingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það gleymist hvaðan peningarnir koma.

Hvað virðisauka út í efnahagskerfið og gjaldeyrisöflun snertir er ferðaþjónustan orðin mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. 

Gildir þá einu hvort ferðamönnunum fækkar úr 2,3 milljónunum niður í 2 milljónir á ári. 

Það hefur ríkt hálfgert gullæði í þjóðfélaginu vegna margföldunar ferðamannafjöldans eins og enn  eitt hótelið, sem demba á beint niður í dýrmætan reit gegnt Alþingishúsinu ber vitni um. 

En alveg gleymist hvaðan peningarnir koma þegar huga þarf að innviðum, sem eru undirstaða atvinnulífsins og þjóðlífsins. 

Þar ríkir gamaldags þröngsýni og níska. Dettifoss er dæmi um náttúrugersemi, sem hefur margfaldast að verðmæti. 

Fyrr á tíð fór fólk þangað aðeins um hásumarið, en lét sér sjást yfir, hvað fossinn, rétt eins og Gullfoss, getur verið mikilfenglegur á gerólíkan hátt í klakaböndum vetrarins. 

Nú er öldin önnur, því að gildi fossanna hefur orðið gríðarmikið að vetrarlagi. 

En á sama tíma er skrúfað fyrir þá tekjulind á furðu gamaldags hátt með nísku og búrahætti. 


mbl.is Þarf að flytja kýr að Dettifossi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja reyndi, en komst ekki lengra.

Það er rétt hjá Lilju Alfreðsdóttur að með ómetanlegri baráttu heiðursborgara Reykjavíkur í fylkingu baráttuhóps fyrir friðlýsingu alls Víkurkirkjugarðs fékkst viðurkenning á gildi þessa elsta helgistaðs í þjóðarsögunni, fyrir sögu og menningu hennar. 

Og þar með möguleiki til þess að búa þessum griðareit í hjarta gömlu Reykjavíkur verðuga umgjörð og útlit. 

Vísa til lagsins og ljóðsins "Víkurkirkjugarður - heilög vé" á facebook síðu minni. 

Lilja reyndi vafalaust eftir megni að komast lengra, en í þjóðfélagi og valdakerfi, þar sem skammtímasjónarmið drottna yfir hagsmunum til lengri tíma, mat hún það sem svo, að lausn, sem endaði með skaðabótamáli, yrði henni ofviða eftir að Minjastofnun tók af henni það ómak að hopa af hólmi með stækkun hins friðaða reits. 

Ummæli hótelbyggjenda eru lýsandi. Þeir fagna þeim sigri að "koma í veg fyrir friðlýsingu" með því að hafa "komið til móts við" sjónarmið verndunarfólks. 

Úr greipum rann tækifæri til raunverulegrar málamiðlunar, sem hefði fólgist í því að friðlýsa allan garðinn, gegn því að hótelið yrði endurhannað og minnkað með aðstoð ríkisins í formi umsaminna skaðabóta. 


mbl.is Lilja: „Sigur fyrir söguna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarsamfélag sem var og er bandarískt-mexíkóst.

Bandaríska borgin El Paso og mexíkóska borgin Ciudad Juarez eru í raun eitt borgarsamfélag sem landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó liggja í gegnum. 

1968 dvaldi síðuhafi í nokkra daga þarna á leið til að skemmta Íslendingum í Los Angeles og gat þar með skroppið yfir landamærin á afar þægilegum stað. 

Þetta sumar loguðu eldar í mörgum borgum Bandaríkjanna vegna óeirða og átaka milli hvítra og svartra og vegna Víetnamstríðsins. 

Allt var hins vegar með friði og spekt í El Paso og Ciudad Juarez þótt mikill munur væri greinilega á lífskjörum sitt hvorum megin við landamærin. 

Meir en þremur áratugum síðar þekkti ég Íslending sem hafði búið og starfað býsna lengi í El Paso og lét hann mjög vel af dvölinni, enda glæpatíðni lág og góð nágrannakynni og samgangur fólksins sitt hvorum megin landamæranna eins og verið hafði þegar síðuhafi var þar forðum tíð. 

Nú staðfestir borgarstjórinn að þetta sé enn svona og hafi ekkert breyst í áranna rás. 

En forseti Bandaríkjanna segist vita betur en hans eigin flokksbróðir á staðnum og segir El Pasó hafa verið einhver hættulegasta borg Bandaríkjanna vegna glæpa, áður en múr kom þar til sögunnar.  

Hann virðist ekki geta skilið, að tvær þjóðir geti búið saman í sátt og samlyndi í einu og sama borgarsamfélaginu. 


mbl.is Ekkert neyðarástand við landamærin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband